08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

33. mál, áfengislög

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost af óviðráðanlegum ástæðum að vera við upphaf þessara umræðna og veit því lítið um, hvað fram hefur komið hér við 2. umr. málsins. Engu að síður þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til frv. og hvers vegna ég tek þátt í flutningi þeirrar rökst. dagskrár, sem meiri hl. allshn. hefur borið hér fram.

Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að öllu hugsandi fólki sé orðin áfengisneyzla þjóðarinnar nokkurt áhyggjuefni. Fjármunir þeir og tími, sem of mikill hluti þjóðarinnar ver til og vegna áfengisneyzlu, er og hefur um langt skeið verið til muna meiri, en þjóðin hefur efni á, og afbrot þau og lausung, sem af áfengisneyzlunni hljótast, eru meiri en svo, að á slíkt verði horft aðgerðalaust til frambúðar. Þjóðin getur ekki þolað það til langframa, að verulegur hluti hennar sólundi óeðlilega miklum hluta tekna sinna til áfengiskaupa og glati starfstíma sínum svo óhóflega sem nú er gert vegna vínneyzlu. Það hlýtur og að leiða til hinnar mestu spillingar, hversu algeng ölvunarafbrot eru og aðrir glæpir, sem af þeim leiðir. Einkum verður það að teljast ískyggilegt, hversu stóran þátt yngra fólkið á í vínneyzlunni og afbrotum samfara henni.

Samkvæmt fjárlagafrv. því, er lagt var fyrir þetta Alþ., gildandi fjárl. og ríkisreikningum má ætla, að þjóðin verji á næsta ári um 65–70 millj. kr. til áfengiskaupa. Er hér um að ræða gífurlega sóun fjármuna til munaðar, svo gífurlega, að telja má víst, að henni verði ekki við komið, nema því aðeins að þorri þjóðarinnar sé hér þátttakandi. Samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru, munu þjóðartekjurnar nema nú röskum 1.500 millj. kr. Lætur því nærri, að þjóðin verji um 4% af þjóðartekjunum til áfengiskaupa. Við þetta bætist svo annar kostnaður, sem áfengisneyzlunni er samfara og allir vita að er mjög verulegur.

Á fjárlfrv. fyrir árið 1953 er tekju-, eignar-, viðauka- og stríðsgróðaskattur allra landsmanna áætlaður 56 millj. kr. Þjóðin stynur undir þessum skattþunga. Hér heyrist oft um það talað, að þessir skattar séu að keyra allt atvinnulíf landsmanna í kaf og að einstaklingarnir séu að kikna undan þessari skattabyrði. Engu að síður er það staðreynd, að landsmenn verja árlega til áfengiskaupa um 20% hærri upphæð, en þeir greiða ríkissjóði samanlagt í tekjuskatt, eignarskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt. Menn kvarta sáran undan hinum háu sköttum, sem ríkisvaldið skyldar þá með l. til að greiða og innheimtir eru með harðri hendi. Samt leggur þjóðin sjálf á sínar herðar skatt, sem er um 20% hærri, en þessir skattar allir samanlagt, og glatar við það oft miklu af tíma sínum, starfsorku, að ógleymdu heimilisböli og afbrotum, sem þessari skattáþján fylgir.

Menn ræða oft um það, að útgjöld ríkissjóðs séu orðin óhóflega mikil og að það sé illa með féð farið. Starfsmannafjöldi ríkisins er talinn óhóflega mikill af mörgum, og oft heyrist talað um fjárbruðl í sambandi við opinberan rekstur. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef aflað mér, nema greiðslur grunnlauna og kaupuppbóta til allra starfsmanna ríkisins samanlagt, þeirra er laun sín taka hjá ríkisféhirði, um 80 millj. kr. á ári, en sé vísitöluuppbótinni bætt við, er hér um 110–115 millj. kr. að ræða á ári. Þ. e. a. s., samanlagðar grunnlauna- og kaupuppbótatekjur allra starfsmanna, sem laun taka úr ríkissjóði, eru mjög svipaðar og fjármagn það, sem þjóðin ver á hverju ári til áfengiskaupa.

Rekstrarútgjöld fjárl. fyrir árið 1953 nema um 350 millj. kr. samkv. fjárlfrv. Eru öll rekstrarútgjöld ríkisins tekin með, hverju nafni sem nefnast. Þetta þykir gífurlegt fé, en þjóðin sjálf greiðir sem svarar 20% af þessari upphæð á ári til þess eins að drekka sig fulla.

Um það verður ekki deilt, að hér er eitthvað öðruvísi, en það á að vera. Þjóð, sem stynur undan skattabyrði, fordæmir óhófseyðslu hins opinbera og heimtar stórkostlega niðurfærslu opinberrar eyðslu, getur ekki varið 20% hærri upphæð til áfengiskaupa, en hún greiðir í beina skatta til opinberra þarfa og svipaðri upphæð til víndrykkju og hún ver í launagreiðslur allra sinna starfsmanna, eða sem svarar 20% af heildarrekstrarútgjöldum ríkisins. Hér þarf úrbóta við og það fyrr en síðar.

Fylgikvillar ofnautnar áfengis hafa einnig gert mjög áberandi vart við sig í þjóðlífi okkar Íslendinga. Ölvunarafbrot og glæpir, sem rekja má til neyzlu áfengis, keyra þegar úr hófi fram. Samkv. skýrslu, sem fylgir grg. þessa frv., berast lögreglunni í Reykjavík á þriðja þúsund ölvunarkærur á ári. Svo til öll þau innbrot, ofbeldisverk og annað slíkt, sem hér eru framin, eiga rætur sínar í neyzlu og ofneyzlu áfengis. Lögreglan í Reykjavik hefur s. l. 9 ár tekið úr umferð og fært í fangageymslu sína um 28 þúsund manns. Þetta er gífurlegur og óhugnanlegur fjöldi, en þó er það staðreynd, að þessi tala mundi vera langtum hærri, ef lögreglan í Reykjavík hefði haft húsakost til þess að hýsa alla þá, sem nauðsynlegt hefði verið að færa í fangageymslu vegna ölvunar. Að vísu er það að mjög verulegu leyti sama fólkið, sem löggæzlumenn í Reykjavík eru stöðugt að taka úr umferð, en hvað sem því liður, þá svarar heildartala þeirra, sem úr umferð eru teknir, til þess, að annar hver Reykvíkingur hefði verið tekinn úr umferð og settur í fangelsi fyrir ölvun á síðustu 9 árum, og hefði löggæzlan haft nægan húsakost, hefði hlutfallið orðið mun hærra. Þetta er staðreynd, sem beinlínis hrópar upp um, hversu gífurlega alvarlegt ástandið í áfengismálunum er, og hér er óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til úrbóta. Hér í Reykjavík líður ekki sá dagur, að löggæzlumenn séu ekki að vinna að rannsókn margs konar afbrota, sem eru samfara neyzlu áfengis eða afleiðingar áfengisneyzlu.

Samkv. gildandi lögum og reglugerð hefur eitt veitingahús hér í bæ. Hótel Borg, fast leyfi til vínveitinga. Þar er nú veitt vín hvern dag ársins, sem hótelið er opið. Önnur veitingahús eiga ekki að hafa hér vínveitingaleyfi. Hins vegar getur lögreglustjóri innan takmarka þröngs ramma veitt vínveitingaleyfi sérstökum mannfögnuðum. Þessi vínveitingaleyfi eru svo eftirsótt, að á hverju ári kemst lögreglustjórinn í Reykjavík ekki hjá að veita 15 veitingahúsum samtals um 1.000 leyfi. Svarar þetta til þess, að allt árið sé vínveitingaleyfi hvern dag ársins á 4 stöðum í bænum, sem almenningur hefur óhindraðan aðgang að. Að sjálfsögðu er það að langmestu leyti unga fólkið eða yngri kynslóðin, sem þessa staði sækir.

Þetta er nokkuð annað en það, sem áfengisl. ætlast til. Þar er ætlazt til, að hér í bæ starfi aðeins eitt veitingahús með vínveitingaleyfi, en sérstök leyfi séu ekki gefin út nema til sérstakra, lokaðra hófa, enda hafi veitingahúsin sjálf alls ekki fjárhagslegra hagsmuna að gæta í sambandi við þessi leyfi. Allir vita, að þróunin hefur orðið sú, að hér lifa beinlínis nokkur veitingahús á vínveitingunum og að þau mundu illa geta rekið starfsemi sína, væru vínveitingaleyfin ekki veitt svo sem raun hefur á orðið. Á ríkisvaldið hér mikla sök á hinni erfiðu afkomu veitingahúsanna með álagningu og innheimtu hins rangláta veitingaskatts, sem beinlinis er orsökin að teknaþörf veitingahúsanna og þannig ef til vill grundvöllurinn að ásókn þeirra í vínveitingaleyfin. Hefði ég talið miklu eðlilegra, að veitingahúsunum hefði verið hjálpað með því að afnema veitingaskattinn, í stað þess að létta undir rekstri þeirra með því að láta þau hafa vínveitingaleyfi svo sem raun hefur á orðið. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ein meginorsök þeirrar miklu áfengisneyzlu, sem hér er, er hin tíðu vínveitingaleyfi á of mörgum veitingastöðum. Má heita, að það sé nú almenn skoðun, að ekki sé á þessa staði komandi án þess að neyta áfengis, og hefur það auðvitað átt mikinn þátt í að móta afstöðu hinnar uppvaxandi kynslóðar til áfengismálsins í heild. Hin tíðu vínveitingaleyfi hafa þannig beinlínis orðið til þess að móta afstöðu manna til áfengísmálsins og framkalla þær raddir, sem nú hrópa hæst á rýmkun vínveitingaleyfanna.

Ég verð að harma það, hversu langt hefur verið gengið í veitingu vínveitingaleyfa, og ég hygg, að menn mundu nú ekki tala svo mjög um nauðsyn endurskoðunar áfengisl., ef meiri gát hefði verið höfð á um veitingu vínveitingaleyfa til gistihúsanna.

Dómsmrn. hefur að sjálfsögðu fundið, eins og nú er komið málum, að nauðsynlegt er að gera einhverjar ráðstafanir til að draga úr vínneyzlu landsmanna. Þess vegna skipaði rn. sérstaka n. til þess að athuga málið og endurskoða áfengislöggjöfina. Till. n. liggja nú fyrir ásamt langri grg. Að sjálfsögðu hefur n. verið mikill vandi á höndum um, hvað helzt skyldi gera, og ekki efa ég, að n. leggi það eitt til í þessu máli, sem hún telur bezt og réttast. Afraksturinn af störfum n. finnst mér hins vegar mjög takmarkaður, þar eð hún virðist ekki koma auga á nauðsyn nema tveggja breyt. á áfengisl.,. sem máli skipta og orð er á gerandi. Önnur breyt. er sú að leyfa bruggun og sölu áfengs öls, ef þjóðin við almenna atkvgr. vill á það fallast. Hin breyt. er að rýmka mjög um leyfi til vínveitinga á veitingahúsum. Aðrar brtt. n. eru svo smávægilegar í sambandi við áfengismálið í heild, að þær skipta tæpast miklu máli.

Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar margar tilraunir til þess að opna hér fyrir bruggun áfengs öls og sölu þess til almennings. Allar slíkar tilraunir hafa mistekizt vegna afstöðu almennings, og mig furðar á því, að nú, þegar svo brýn þörf er á að hefjast handa og berjast gegn ofnautn áfengis, þá skuli bjórinn einmitt þurfa að vera annað af þeim tveim bjargráðum, sem menn vilja gripa til.

Mín skoðun er sú, að bjórinn mundi stórum auka, en ekki draga úr drykkjuskap. Hann mundi áreiðanlega verð.a til þess að kenna mörgum unglingnum víndrykkju, sem ella mundi leiða hana hjá sér. Ég er í engum vafa um, að margur alþýðumaðurinn mundi verða honum að bráð. Veldur hér mestu, hversu ódýr bjórinn er og auðvelt er að ná til hans. En þegar bjórinn er einu sinni búinn að kenna mönnum bragðið, þá þarf enginn að spyrja um, hvernig fer, og sá, sem ekki sá leiðir til að útvega sér fjármuni til að drekka fyrir sterkari drykki áður, mundi verða óvandari að meðölum til að útvega sér fjármuni fyrir sterkari drykkjum, eftir að bjórinn er búinn að koma honum á bragðið. Bjórinn er í mínum augum ekkert annað en undirbúningsskóli að drykkjuskap. Ég ætla ekki að ræða hér neitt um, hversu ógeðslegar ölknæpur og bjórþamb yfirleitt er, það vita allir. Langar mig ekkert til að sjá slíkar stofnanir og slíkan löst setja ómenningarbrag á líf þjóðarinnar. Furðar míg á, að n., sem falið hefur verið að glíma við áfengisvandamál þjóðarinnar, skuli telja það annað helzta úrræðið til úrbóta að bjóða þjóðinni upp á áfengan bjór.

Um hina aðra aðalúrbótatill. n. get ég líka verið fáorður. Ég sakna þess, að n. skuli ekki hafa kynnt sér rækilega þau vínveitingaleyfi, sem einstökum veitingahúsum hafa verið veitt, og að engin viðhlítandi athugun skuli hafa farið fram á því, hvort ekki væri hægt að skera þessi leyfi niður í framtíðinni að mestu leyti. Ég veit, að í sambandi við þau er oft minnzt á vasapelafarganið, sem upp muni koma, ef tekið verði fyrir vínveitingaleyfin. Má vel vera, að þetta fargan kalli á sérstakar aðgerðir. Slíkt þarf þó rannsóknar við, og þarf þá sérstaklega að athuga, hvað hægt sé að gera með löggjöf til þess að koma í veg fyrir, að slíkt eigi sér stað. Þetta virðist mér n. ekki hafa gert, heldur leggur hún blákalt til, að mjög verði rýmkað til um vínveitingaleyfi. Ég fyrir mitt leyti fæ ekki betur séð en að n., sem endurskoðaði áfengisl., hafi gefizt upp við að koma fram með nokkrar virkar till. til að draga úr áfengisneyzlunni. Tel ég slíkt illa farið, þar eð hér er aðgerða þörf, sem miða 2 allt aðra átt, en að hella bjór ofan í landsfólkið og veita áfengi inn á sem flest veitingahús í landinu. Ég er sannfærður um, að skipbrot sitt hefur n. beðið vegna þess, að í henni voru ekki nægilega sterk öfl, sem hafa valið sér það hlutverk í þjóðfélaginu að vinna á móti böll áfengisins. Hefði svo verið, hefðu till. n. litið út á annan veg og borið meiri svip einlægrar viðleitni til að vinna gegn neyzlu áfengis í óhófi.

Af þessum ástæðum hef ég tekið þátt í flutningi dagskrártill., sem miðar að því, að málið verði athugað enn á ný og þá í samstarfi við þá aðila, sem mest er af að vænta í þessum efnum. Þetta þykir mér rétt að láta koma hér fram, enda þótt ég því miður hafi ekki getað fylgzt með umr. fram að þessu. Annars vil ég taka það fram, að verði dagskrártill. felld, þá áskil ég mér rétt til þess að bera fram brtt. við 3. umr. málsins og taka afstöðu til frv. í heild og í einstökum atriðum eftir því, hvernig fer um þær till.