06.10.1952
Efri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Á siðasta Alþ. var lagt fram frv., sem var til athugunar hjá heilbr.- og félmn., um að nokkur hluti af tekjum veðmálastarfsemi þeirrar, sem hér er vísað til í frv., yrði látinn renna til spítalabygginga og rekstrar sjúkrahúsa víðs vegar um land. Ég vildi mega leyfa mér að beina því til þeirrar hv. nefndar, sem fær þetta frv. til athugunar, að athuga jafnframt frv., sem ég áður nefndi, um skiptingu á þessum tekjum. Ég skal fullkomlega játa það, að ástæða er til að ætla íþróttastarfseminni í landinu, ef hún starfar á heilbrigðum grundvelli, sérstakar tekjur, sem aflað sé með svipuðum hætti og hér er gert ráð fyrir. En ég held, að það sé ekki rétt að loka augunum fyrir því, að það eru ýmsar aðrar þarfir, sem kalla að, og sízt minna aðkallandi, minna brýnar, en þörf íþrótta- félaganna í landinu. Í Noregi, sem mun hafa verið litið til, þegar þau l. voru sett, sem hér er gert ráð fyrir að breyta, er einmitt tekjunum af veðmálastarfsemi skipt á milli íþróttafélaganna annars vegar og ýmiss konar menningar- og mannbótastarfsemi hins vegar, í sérstökum hlutföllum. Ég álít, að það væri því alveg rétt fyrir okkur að athuga, hvort ekki væri skynsamlegt að fara sömu eða svipaða leið eins og Norðmenn hafa gert.