02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (3013)

80. mál, útsvör

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál, sem er brtt. við lög um útsvör, hefur n. ekki getað lagt til að yrði samþ. Það er nú svo, að þessi breyt., sem gerð var á útsvarsl. og heimilar hreppum, þar sem einstakir menn stunda atvinnu, að leggja á þá viðbótarútsvar, ef útsvör í þeim hreppi eru hærri, en í heimilissveitinni, er tiltölulega ný og hefur ekki komið til framkvæmda enn þá, svo að mér sé kunnugt um, nema á milli Glæsibæjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar, þar sem Akureyrarkaupstaður hefur lagt á menn, sem lögheimill eiga í Glæsibæjarhreppi, en stunda atvinnu á Akureyri.

Eins og mönnum er kunnugt, eru útsvarsl. ásamt skattal. nú til endurskoðunar hjá mþn. Það stóðu um skeið vonir til þess, að hún mundi geta skilað áliti og lögin kæmu til endurskoðunar á þessu þingi. Af því hefur nú ekki orðið. Það er þess vegna sýnt, að þessi endurskoðun kemur ekki til framkvæmda fyrir næsta ár. Hins vegar er vonandi og ákaflega miklar líkur til, að n. verði búin að skila áliti það snemma, að endurskoðun útsvarsl. í heild og skattal. líka geti farið fram á næsta reglulegu þingl. sem væntanlega kemur saman næsta haust. Og við sjáum ekki ástæðu til þess að breyta l. fyrir þetta eina ár. Hvað sjálfan mig snertir get ég sagt það, að ég taldi alltaf og tel enn, að það sé rétt að skipta útsvörum milli heimilissveitar og atvinnusveitar og að það hafi ekki verið rétt hjá þinginu, þegar það gekk inn á þá braut að láta heimilissveitina halda öllu útsvarinu, nema í því tilfelli, þegar útsvarsskalinn lægi hærra hjá atvinnuhreppi, þá mætti atvinnusveit bæta við útsvarið. Þetta var nú mín skoðun, ekki meiri hl. Þess vegna var fellt niður að skipta útsvörum og tekin upp þessi aðferð í staðinn, sem hér átti að breyta og við leggjum til að sé afgr. með rökst. dagskrá og beðið eftir að sjá, hvað út úr heildarendurskoðuninni kemur, sem er verið að gera á l.