02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

80. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. gat um það, að það ákvæði, sem hér er lagt til að fella úr útsvarsl., sé nýtt, og er það rétt. Það er líka rétt hjá honum, að þetta mun ekki hafa komið til framkvæmda nema að því er snertir nokkra gjaldendur í Glæsibæjarhreppi, í Glerárþorpi sem hafa haft atvinnu á Akureyri. Akureyrarkaupstaður hefur lagt á þá viðbótarútsvar, af því að þeir hafa haft atvinnu þar, en útsvarsskalinn er hærri á Akureyri heldur en í Glæsibæjarhreppi.

Ég álít, að það geti ekki verið ástæða til þess að vísa málinu frá af þeirri ástæðu, að þetta ákvæði er nýtt, því að svo óheppilegt getur nýtt ákvæði verið, að rétt sé að nema það úr gildi, þegar þó nokkur reynsla er af því fengin, sem þegar er, a. m. k. í Glerárþorpi. Og sú reynsla er á þann veg, að þetta ákvæði er óhafandi. Ég sýndi fram á það við 1. umr. þessa máls, að það hefur t. d. það í för með sér, að tveir menn, sem alveg stendur eins á um, um fjárhag og aðrar aðstæður, geta haft næsta ólík útsvör með þessu móti. Ég er hv. frsm. n. sammála um það, að sennilega hefði ekki átt að hverfa frá því fyrirkomulagi að skipta útsvörum, því að það er að ýmsu leyti sanngjarnara að gera það heldur en þetta. Þá sitja þó allir íbúar hins sama hrepps við sömu kjör að því leyti, er útsvör snertir. En hv. n. vill nú vísa þessu frv. frá með þeim rökstuðningi, að endurskoðun hjá stjórnskipaðri mþn. eigi sér nú stað um útsvarsl. og skattal. og þess vegna megi ekki breyta einstöku atriði eins og þessu fyrr, en álit hennar liggur fyrir. Það hefur reyndar oft komið fyrir, að mþn. hafi verið skipaðar og liðið nokkur ár þangað til þeirra till. hafa orðið að l., og stundum hefur það nú komið fyrir, að till. mþn. hafi aldrei orðið að l. En það skal ég játa, að það er dálítið algengt og reyndar handhæg aðferð, ef mál fer í mþn. og frv. kemur fram um eitthvert atriði skyldra mála, að vísa á það: Ja, þetta er nú í athugun hjá mþn., og þýðir ekki að vera að fást við þetta nú.

Ég býst við, að það þýði ekki að deila við dómarann. N. er óklofin um þetta mál og vill vísa því frá, og ég geri ráð fyrir, að það verði dómur hv. þd. að gera svo. En ég hefði nú haldið, að þótt það sé rétt hjá hv. n., að mþn. í skattamálum eigi að taka útsvarsl. til athugunar, þá eigi hún fyrst og fremst að taka hin almennu skattal. til athugunar og gera till. um þau. Og mér finnst ekki vel gott samræmi í till. a. m. k. tveggja hv. nm., sem hafa skrifað undir þetta nál. á þskj. 298 og vilja láta vísa málinu frá sökum þess, að það sé til athugunar í mþn., en hafa sjálfir flutt frv. um lítils háttar atriði til breyt. á skattal. Ég verð að segja þessum tveim hv. þdm. og nm., hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. þm., að ég álít, að þeir hafi, báðir þessir hv. þm., með þessu nál. kveðið upp dóm yfir sínum eigin frv., því að hvernig ætti að fara að samþ. þau, ef d. afgr. þetta mál með þeirri dagskrártill., sem hér liggur fyrir? Þessi tvö frv. um breyt. á skattal. liggja nú fyrir í n., sem ég er form. í, fjhn. þessarar hv. d., og ég verð að líta svo á, að verði þessi rökst. dagskrá samþ., þá sé jafnframt raunverulega búið að afgreiða þessi tvö skattalagafrv. og það ætti ekki að þurfa þá frekar við þau að fást, a. m. k. er ekki neitt samræmi í því að afgr. þau á annan hátt, heldur en þetta.

Ég mun ekki greiða atkv. með þessari rökst. dagskrá. Ég hefði haldið, að það hefði verið réttara að samþ. frv., ef til vill með breyt. Ég skal játa það, að frv. hefði ef til vill þurft breyt. við og einhver takmörk hefði þurft inn í það að setja til þess að fyrirbyggja svo kallaðan skattflótta. En n. hefur ekki kosið þann veginn að athuga málið og gera á því nauðsynlegar eða heppilegar breytingar, heldur hitt, að skjóta sér á bak við mþn. í skattamálum og vísa málinu frá af þeim sökum. Ég tel víst, að það verði niðurstaðan, og beygi mig vitanlega fyrir því, en það sama hlýtur að gilda um þau frv., sem tveir af hv. nm. hafa flutt.