28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

192. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 594 hef ég leyft mér að flytja till. til rökstuddrar dagskrár í þessu máli. Dagskráin er á þá leið, að þar sem d. telji ekki fært að hækka útflutningsgjald af saltfiski, eins og högum útgerðarinnar er háttað, m. a. vegna lokunar brezka markaðarins, og í trausti þess, að ríkisstj. reyni að finna leiðir til eflingar fiskveiðasjóði, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.

Eins og kunnugt er, er frv. þetta flutt af meiri hl. hv. sjútvn., en tveir nm., hv. þm. Borgf. og hv. 2. landsk., eru andvígir frv. Efni frv. er það, eins og hv. þdm. er kunnugt, að hækka útflutningsgjald af saltfiski frá því, sem nú er, ¼%, upp í 13/4%. M. ö. o., hækkun útflutningsgjalds á saltfiski yrði samkv. frv. 1½%.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, þá var útflutningur á saltfiski á s. l. ári, 1952, samtals um 195 millj. kr., og er þar talinn bæði þurrkaður saltfiskur og óverkaður. Nú er að sjálfsögðu ekki unnt að segja með neinni vissu um það, hver verður heildarútflutningur á saltfiski á þessu ári, en gera má ráð fyrir, að hann verði ekki minni en hann var á s. l. ári, og jafnvel telja sumir líklegt. að hann verði meiri. Ef við miðum nú við útflutninginn á síðasta ári, nærri 200 millj. kr., þá þýðir þetta frv. nýjan skatt á útgerðina, nýjan skatt á saltfisksframleiðsluna, sem nemur 3 millj. kr. Allir hv. þdm. vita, að útgerðin og ekki sízt togaraútgerðin, sem er hér einn aðalaðilinn, á við mikla örðugleika að etja, sumpart lækkandi verð á fiskafurðum, m. a. á saltfiski, og sumpart markaðsörðugleika, og nefni ég þar sérstaklega lokun brezka markaðarins. Ég tel það mjög ósanngjarnt að ætla nú að leggja þennan nýja skatt á saltfisksframleiðsluna og auka þar með þá miklu örðugleika, sem útgerðin á við að stríða. Í rauninni er þetta einnig í algeru ósamræmi við margyfirlýsta stefnu núverandi ríkisstj. og stjórnarflokka að forðast í lengstu lög að hækka skatta og tolla á landsmönnum.

Mér hafa borizt í hendur mótmæli, sem stjórn Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda hefur sent Alþ. út af þessu máli, þar sem segir m. a.:

„Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda mótmælir eindregið allri hækkun á útflutningsgjöldum á saltfiski og telur, að sízt séu betri horfur á saltfisksölu, nú en voru 1948, þegar lög nr. 38 1948 voru samin. en þau fjalla um það útflutningsgjald, sem nú er. Bendir félagið á það, að allar líkur eru til þess, að saltfisksverð lækki og mjög miklir erfiðleikar verði á sölu saltfisks. Eins og hæstv. Alþ. er kunnugt, hafa botnvörpuskipin nú orðið að beina veiðum sínum meira að saltfiski, en áður sökum lokunar brezka markaðarins, og verður því að telja, að mun meiri saltfisksframleiðsla verði á þessu ári, en á síðasta ári, en söluhorfur eru mjög ískyggilegar. Félagið leggur því ríka áherzlu á, að frv. á þskj. 499 verði fellt.“

Þetta eru mótmælin frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. — Enn fremur hefur mér verið tjáð, — það liggur ekki fyrir bréf um það, en tjáð munnlega, — að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda sé sömu skoðunar á þessu.

Í gær voru í Sþ. afgr. fjárlög fyrir þetta ár. M. a. var samþ. þar brtt. um, að ríkissjóður hlypi undir bagga með allmörgum bæjarútgerðum víðs vegar um land, sem reknar eru með halla. Nú er það vitanlegt, að allir togararnir byggja að meira eða minna leyti afkomu sína á saltfisksframleiðslu, og mætti segja, að það væri öfugstreymi og mótsögn í því, ef einn daginn er verið að samþ. af opinberri hálfu ríflegan stuðning við þessa útgerð, en svo jafnframt að leggja ný milljónaútgjöld á hana. Á hinn bóginn viðurkenni ég að sjálfsögðu, að hin brýnasta nauðsyn er að efla fiskveiðasjóðinn. Hins vegar tel ég ótækt að gera það með þeim hætti að leggja þannig nýjan milljónaskatt á aðþrengda útgerð og tel óhjákvæmilegt, að þar verði valdar aðrar leiðir. Síðari hluti till. er því þess efnis að skora á ríkisstj. að reyna að finna leiðir til eflingar fiskveiðasjóði og þá í trausti þess, að þær till. verði lagðar fyrir Alþ. næst þegar það kemur saman.

Ég vænti þess, að hv. dm. taki til velviljaðrar athugunar þau mótmæli, sem hér hafa borizt, og þau rök, sem ég hef reynt fram að flytja í þessu máli, og samþ. þá till. til rökstuddrar dagskrár, sem ég hef lagt fram.