03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

194. mál, sparisjóðir

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki nauðsynlegt að hafa langa framsögu í þessu máli hér. — Frv. fer fram á það, að ráðh. skuli afhenda Landsbanka Íslands eftirlit með sparisjóðum. Það er kunnugt, að það eru greiddar fyrir þetta nú rúmar 40 þús. kr., og er mjög mikill ágreiningur um það, hvort það sé yfirleitt mikið gagn í eftirlitinu eins og það hefur verið rekið undanfarið, en út í það skal ég ekki fara. — Fjhn. hefur ekki orðið ásátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. Minni hl. leggur hins vegar til, að það verði ekki samþ., heldur verði samþ. rökst. dagskrá.

N. þótti rétt að senda þetta mál til umsagnar til endurskoðunardeildar fjmrn., vegna þess að það komu fram raddir um það í n. að leggja eftirlitið undir þá stofnun. Það fylgir hér með umsögn frá endurskoðunardeildinni, þar sem hún telur á því allmikil vandkvæði að taka að sér þetta starf. Hins vegar býðst Landsbankinn til þess að taka að sér starfið, og vegna þess að hans umsögn um þetta mál er stutt, þá vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hana hér upp. Hann segir hér:

„Með bréfi, dags. 16. þ. m., spyrst hv. fjhn. Ed. Alþ. fyrir um það, hvort Landsbankinn sjái sér fært að taka að sér eftirlit það með sparisjóðum, sem ákveðið er með l. 69 1941, um sparisjóði.

Út af þessu skal það tekið fram, að þegar starfi þessu verður ráðstafað á ný, erum vér reiðubúnir til þess að taka þetta eftirlit að oss og rækja það ríkissjóði að kostnaðarlausu.“

Þrátt fyrir að þetta bréf lá fyrir, hefur minni hl. lagt á móti því að létta þessari byrði af ríkissjóði, og verður sú afstaða varla skilin. Að vísu er því haldið fram hér, að það sé vegna þess, að Landsbankinn sé keppinautur við sparisjóðina. Slíkt er nú ekkert annað en rökleysa, vegna þess að hann er einmitt miklu frekar til þess að hjálpa sparisjóðunum. Er mér kunnugt um m. a., að hann hefur hvað eftir annað hjálpað til þess að lána sparisjóðunum fé, sem þeir lána aftur út til ákveðinna fyrirtækja heima fyrir í héraði, enda mun Landsbankinn hafa nánari viðskipti við sparisjóðina, en nokkur önnur stofnun og styðja að framgangi þeirra á allan hátt, svo að þetta er ekkert annað en fyrirsláttur, og munu hér ráða miklu meira sérhagsmunir ákveðinna manna og flokka heldur en rök í því máli. Ég skal svo ekki ræða um það nánar, en ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.