03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

194. mál, sparisjóðir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég viðurkenni þann góða tilgang, sem kemur fram í þessu frv., að reyna að spara fé ríkisins, og met það. En ég vildi segja um þetta mál örfá orð, vegna þess að þannig vill til, að ég hef verið um nokkurra mánaða skeið í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur, sem er einn af stærstu sparisjóðum landsins, ef ekki sá stærsti, og án þess að þetta mál hafi sérstaklega borið þar á góma, þá þori ég að fullyrða, að það mundi þykja mjög óheppilegt í slíkri stofnun, ef slíkur keppinautur sparisjóðsins yrði settur sem eftirlitsmaður með honum. Ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum, en ég mundi telja það mjög óheppilega ráðstöfun.