13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

26. mál, fjárhagsráð

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Tilgangur þessa frv., sem ég flyt ásamt hv. þm. Siglf., er að gefa frjálsa byggingu íbúðarhúsa, sem í eru íbúðir, sem ekki eru stærri en það, sem nú er mælt fyrir í lögum um verkamannabústaði.

Í lögum um aðstoð ríkisins við byggingar er í kaflanum um verkamannabústaðina ákveðið, að stærð hverrar íbúðar megi vera 1–4 herbergi. Og mér fannst eðlilegt, ef ætti að fara inn á þá braut að gefa frjálsa byggingu íbúðarhúsa, að það væri miðað við þá sömu stærð, sem leyfð er viðvíkjandi verkamannabústöðunum, og það þyrfti þá til þess að byggja stærri íbúðir fjárfestingarleyfi frá fjárhagsráði eins og nú þarf.

Fyrsta spurningin, sem fyrir hlýtur að vaka, þegar leitt væri í lög að gefa frjálsa byggingu íbúðarhúsa af þessari stærð, er, hvort þau rök, sem talin voru af meiri hluta Alþingis vera fyrir hendi 1947, þegar lögin um fjárhagsráð voru samþ., haldi nú, hvort þær takmarkanir, sem þá voru gerðar, verði að teljast nauðsynlegar. Ég vil þess vegna leyfa mér að minna hv. þd. á, hvernig aðstæðurnar voru og hvað ákveðið var í lögunum sjálfum, lögunum um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, þegar þau voru sett. Í 2. gr. þeirra l. segir svo: „Ríkisstj. skipar 5 manna nefnd, er nefnist fjárhagsráð. Hlutverk þess er að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins, meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi standa yfir, þannig að þær verði gerðar eftir fyrir fram saminni áætlun fjárhagsráðs, er ríkisstj. staðfestir.“ M. ö. o., skilyrðin, sem mótuðu að öllu leyti setningu l. um fjárhagsráð, voru, að framkvæmdir, sem þá voru hafðar með höndum, bæði af einstaklingum og ríkisvaldinu og því opinbera yfirleitt, voru svo miklar, að það var álitið nauðsynlegt að setja slíka nefnd eins og fjárhagsráð til þess að samræma þessar framkvæmdir og beinlínis gengið út frá því, að meðan þessar miklu framkvæmdir stæðu yfir, þá þyrfti þetta að vera svona. Nú er það vitanlegt, að þetta ástand, sem var 1947, er ekki lengur fyrir hendi. Það er ekki lengur um það að ræða, að framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi. bæði af hálfu einstaklinga og þess opinbera, séu svo miklar, að það sé bókstaflega slíkt kapphlaup um vinnuaflið, að það sé ekki hægt að fá nægilegt vinnuafl til þess að vinna að framkvæmdunum. Það er komið þveröfugt ástand við það, sem þá var. Ástandið í landinu er nú þannig, að atvinnuleysi er orðið landlægt um allt land að heita má, nema máske á nokkrum smástöðum hér suður á Suðurnesjum, og það er þess vegna ekki lengur fyrir hendi það ástand, sem gengið var út frá þá, að það þyrfti að samræma þessar framkvæmdir, meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi stæðu yfir. Ég skal hins vegar geta þess um leið, að það hefur farið ákaflega litið fyrir samræmingu hjá fjárhagsráði á þessum framkvæmdum og það hefur verið lítið um, að menn hafi fengið að kynnast þeim áætlunum, sem fjárhagsráð hefur gert um þessar miklu framkvæmdir. Að minnsta kosti er alveg augljóst, að það, sem þarna þótti vera höfuðforsendan, sem gerði nauðsynlegt að gefa fjárhagsráði þetta mikla vald til að takmarka framkvæmdir í atvinnulífi Íslendinga, er ekki lengur til; í stað hinna miklu framkvæmda er nú komið mikið atvinnuleysi.

Hverjar voru svo að öðru leyti forsendurnar fyrir beitingu þessara laga? Hvað var það, sem fjárhagsráði var lagt á herðar að vinna að? Hvað var það, sem var raunverulega hin siðferðislega forsenda fyrir því, að fjárhagsráð fengi það vald í hendur, sem það þá fékk? Í 2. gr. laganna, aðalgr., voru eftirfarandi fyrirmæli viðvíkjandi því, hvað fjárhagsráð skyldi miða störf sín við. Með leyfi hæstv. forseta, þá hljóða þau svo: „Fjárhagsráð miði störf sín við eftirfarandi: 1) Að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna. 2) Að öllum vinnandi mönnum og þó sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“ Og í 8. og síðasta lið 2. gr. segir: „Að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.“ M. ö. o., hvað snerti afskipti fjárhagsráðs af byggingu íbúðarhúsa, þá var það þetta þrennt sérstaklega, sem fjárhagsráð átti að miða öll sín störf við: Í fyrsta lagi, að allir hefðu atvinnu. Sú viðmiðun hefur gengið þannig, að í staðinn fyrir að allir hefðu næga og örugga atvinnu, þá er nú þegar í fyrsta lagi mikið um atvinnuleysi, og í öðru lagi hafa þeir, sem hafa vinnu, hana frekar stopula. Hvað snertir ákvæðin í 2. gr. um, að öllum vinnandi mönnum væru tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, þá er það nú komið svo, að frá 1947 og til þessa dags hafa tekjur manns fyrir vinnu, miðað við aukningu dýrtíðarinnar, minnkað þannig, að þeir hafa raunverulega um helmingi minna, en þeir höfðu þá. Hvað snertir viðmiðunina í 8. gr. um að útrýma heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa, þá er það svo, að það er unnið miklu verr að þessu nú heldur en var fyrir 7 árum og jafnvel fyrir 5 árum, þegar fjárhagsráð var sett á laggirnar. 1946 voru t. d. hér í Reykjavík byggðar yfir 600 íbúðir, núna síðasta árið voru það nokkuð yfir 200, þannig að fjárhagsráð hefur hvorki tryggt það, að allir verkfærir menn og allra sízt byggingarverkamennirnir, iðnlærðir og ófaglærðir, hefðu næga og örugga atvinnu, né heldur tryggt þeim réttlátar tekjur fyrir sína vinnu, heldur helmingi minni tekjur en áður, og samt sem áður um leið stjórnað þessum málum þannig, að það er ekki byggt nema 1/3 af þeirri íbúðatölu hér í Reykjavík, sem byggt var 1946. Og ekki er það vegna þess, að búið sé að bæta úr neyðinni hvað íbúðir snertir hér í Reykjavík t. d., og það veit ég að er ekki heldur úti um land. Þvert á móti er neyðin eins sár og hún hefur verið nokkru sinni fyrr, en minna gert til þess að bæta úr henni. Þegar ástandið er þess vegna þannig, að sá vinnukraftur, sem þjóðin hefur og staðið hefur fjárhagsráði til boða, hefur ekki verið hagnýttur í því skyni að bæta úr húsnæðisskortinum, útrýma hinum heilsuspillandi íbúðum, þegar þetta starf hefur ekki verið samræmt og framleiðslugetan ekki notuð nema að litlu leyti, þá er það auðséð, þrátt fyrir þá almennu kosti, sem áætlunarbúskapurinn mundi hafa fram yfir það, að einstaklingurinn reyndi að gera það, sem hann gæti, út af fyrir sig, að þá njóta sín ekki yfirburðir slíks áætlunarbúskapar, þegar þannig er haldið á málunum. Og fyrst fulltrúar ríkisvaldsins í þessu efni ekki hafa notað það vald, sem þeim hefur verið gefið, og þá aðstöðu, sem þeim hefur verið veitt, þá er þess vegna ekki nema rétt, að einstaklingarnir fái sjálfir að reyna að bjarga sér, eftir því sem þeir bezt geta, og þær takmarkanir, sem ríkisvaldið hefur leyft fjárhagsráði að setja í þessum efnum, séu afnumdar, að minnsta kosti að því er snertir byggingu hóflegra íbúðarhúsa.

Þetta frv. okkar er þess vegna ekki flutt sem beint prinsipmál í þessu sambandi, heldur til þess að bæta úr praktískum vandræðum, sem nú eru fyrir hendi, og gefa öllum kröftum, sem til eru hjá þjóðinni, möguleika til þess að hjálpast að við það. Við vitum, að hvað snertir byggingu verkamannabústaða, þá er auðvitað unnið að því að sínu leyti, og munum við margir óska þess, að það væri gert meira. Að svo miklu leyti hins vegar sem möguleikar eru til, þá sé ég heldur enga ástæðu til þess að banna þeim öðrum, sem vildu byggja íbúðir af svipaðri stærð eins og leyft er um verkamannabústaði, að byggja þarna líka, hvort heldur menn vildu slá sér saman með slíkt eða einstaklingar eða bæjarfélög ráðast í það, m. ö. o. sé rétt að fara inn á þá leið að gefa mönnum frjálst að byggja á þennan hátt. Aðeins væru með þessu móti þær íbúðir útilokaðar, nema sérstakt fjárfestingarleyfi fengist til þess, er væru 4 herbergi og meira. — Ég skal geta þess um leið, að ég sá nýlega í einu stjórnarblaðinu, að Danir hefðu farið inn á þá leið að gefa nú algerlega frjálsa byggingu íbúðarhúsa, þar hefði verið frjálst að byggja íbúðir, sem væru undir 130 m2, og nú væri líka frjálst að byggja þær, sem væru stærri.

Er nú raunverulega nokkur hætta samfara þessu? Ég get ekki séð, að svo sé. Ég get ekki séð, að þegar neyðin er mikil eins og nú er, þá geti verið nein hætta fólgin í því, að leyft sé að byggja þessar íbúðir, — eða að minnsta kosti sé það vald, sem fjárhagsráð hefur til að hindra það, ekki lengur til fyrirstöðu því, að slíkt sé gert. — Ég vil minna á það í því sambandi, að vilji Alþingis í þessum efnum hefur raunverulega þegar komið ákaflega greinilega fram. Það var flutt af hálfu fjhn. í þessari hv. deild frv., nú fyrir tveim árum, um að gefa frjálsa byggingu smáíbúðarhúsa. Það frv. fór í gegn hér í Nd. og fór til Ed. og fékk meðmæli fjhn. Ed., en var síðan af ástæðum, sem oft hafa verið ræddar hér, stöðvað og ekki látið fara lengra. Ég skal ekki fara ýtarlegar út í það nú, af því að ég hef oft minnzt á það hér áður. En m. ö. o., vilji Alþingis í þá átt að gefa frjálsa byggingu hóflegra íbúða hefur þegar komið fram, og ég fæ ekki séð, að það eigi að vera neitt því til fyrirstöðu, að það komi nú greinilegar fram,en þá var. Ég álít sem sé það vera ópraktískt, að það tiltölulega, — ja, ég veit ekki, hvort ég á að kalla það frelsi, sem nú er um byggingu smáíbúðarhúsa, sé takmarkað við það, eins og virðist vera gert í framkvæmd, að menn byggi húsin sem allra ópraktískast fyrir sjálfa sig og þau megi helzt nýtast sem allra verst fyrir þá, sérstaklega sé haldið ákaflega fast við það af hálfu fjárhagsráðs, að risið á slíkum húsum sé svo lágt, að það geti ekki komið mönnum að gagni. Það er að vísu í samræmi við allan annan hugsunarhátt á þessu sviði. En meðan risið er það hátt á Íslendingum sjálfum, að þeir vilja byggja þannig, að þeir geti notað risið á húsunum líka, þá finnst mér, að risið á þeim opinberu stofnunum, sem völdin hafa í þessum efnum, mætti hækka ofur lítið og það mætti gera mönnum það kleift, a. m. k. hvað lögin snertir, að byggja þannig, að það gæti notazt sem bezt fyrir þá. Ég get ekki séð, að ef ýmsum mönnum fyndist það praktískara að byggja hús, sem væru t. d. 3 hæðir, þá ætti það ekki að vera leyfilegt með íbúðir af þeirri sömu stærð eins og eru í verkamannabústöðunum. Ég sé ekki, af hverju slíkt ætti einvörðungu að leyfast suður á Keflavíkurflugvelli. Ég sé ekki, af hverju Íslendingar ættu eingöngu að mega vinna að því að byggja þar án leyfis fjárhagsráðs, eins og nú er verið að byrja á, stórar húsablokkir, þriggja hæða, þar sem mundi verða pláss fyrir um 500 íbúðir, yfir 100 m2 hver, ef það væri notað sem íbúðir, sem nú mun eiga að verða þar offísera-bústaðir. Ég fæ ekki séð, hvað ætti að vera í veginum fyrir að leyfa Íslendingum, ef þeir treysta sér til þess, að leggja í að byggja eitthvað þannig fyrir Íslendinga.

Ég álít þess vegna, að það sé ekki nema sjálfsagður hlutur að verða við því alveg skýrt og skorinort að leyfa byggingu íbúðarhúsa, sem ekki eru stærri, en nú eru lög fyrir um verkamannabústaði, þannig að það þurfi ekki að sækja um fjárfestingarleyfi til þess. Ég vil minna á, að þegar 5. gr. l. um fjárhagsráð var sett, þá var ekki gengið út frá því sem neinu höfuðatriði, að svo að segja öll starfsemi fjárhagsráðs ætti að snúast um það að hindra menn í því að byggja íbúðarhús. 5. gr. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til hvers konar fjárfestingar einstaklinga, félaga og opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs atvinnurekstrar, til aukningar á þeim, sem fyrir er, húsbygginga eða annarra mannvirkja, þarf leyfi fjárhagsráðs, og gildir þetta einnig um framhald þeirra framkvæmda, sem þegar eru hafnar.“ Svo skal ákveða í reglugerð, að tilteknar minni háttar framkvæmdir séu heimilar án fjárfestingarleyfis. Með öðrum orðum, allt þetta eftirlit með íbúðarhúsabyggingum var aldrei hugsað sem neitt aðalatriði, þegar lögin um fjárhagsráð voru sett. Það er hins vegar orðið þannig í framkvæmdinni, að það er eins og það sé það eina, sem fjárhagsráð hafi virkilegan áhuga fyrir, að sjá um, að menn hafi ekki hátt ris á þeim litlu íbúðum, sem þeir mega byggja.

Ég held þess vegna, að það væri rétt spor að samþykkja nú þetta litla frv., sem við flytjum hér og ég þykist vita að sé raunverulega í samræmi við vilja hv. þdm., hvort sem það finnur nú náð fyrir augum þeirra eða ekki.

Ég vil líka minna á það, að ef ekki er leyft að byggja meira af íbúðum, en núna er byggt hér í Reykjavík, þá er þar með verið að stuðla að svörtum markaði á húsnæði, svörtum markaði, sem nú er orðinn til hér í mjög ríkum mæli, og það er vitanlegt, þrátt fyrir allar ákvarðanir um húsaleigu og annað slíkt, að húsaleiga fer hækkandi hérna nú sem stendur, utan við lög og rétt, og svo framarlega sem það á að hindra Reykvíkinga í því að byggja yfir sig meira, en gert hefur verið undanfarið, þá þýðir það að skapa bókstaflega einokunaraðstöðu fyrir þá, sem þegar hafa byggt og leigja út. Hins vegar skal ég viðurkenna það, að þetta litla frv. er ekki nema eins og fyrsta skref til þess að bæta úr vandræðunum, sem þarna eru.

Ástandið er sem sé þannig í þjóðfélaginu, að það er engu líkara en að eins þörf starfsemi eins og það er að byggja hóflegar íbúðir yfir menn sé gerð að — ja, næstum því eins konar hindrunarhlaupaíþrótt, þar sem menn verði að yfirvinna allar mögulegar óeðlilegar hindranir, áður en þeir geta komizt til þess að byrja á því að byggja húsin, og fyrsta hindrunin, sem lögð er þannig í veg fyrir menn, er þessi fjárfestingarleyfi fjárhagsráðs, sem ég hér legg til að sé nú rýmt úr vegi manna.

Það er þessi hindrun, útvegun leyfanna, sem flestir hafa strandað á þegar í upphafi, og ég held það geti ekki gert neitt nema gott, ef því væri nú kippt burt. En þá er vitanlegt, að þótt búið væri að gera það, þá eru tvær aðrar stórar hindranir í vegi, áður en menn gætu hafið slíkar byggingar. Það er í fyrsta lagi það að fá lán, og það er vitanlegt, að nú sem stendur eru aðstæðurnar þannig viðvíkjandi lánum til bygginga, að þær eru líklega með versta móti, sem þær hafa verið, a. m. k. á síðasta mannsaldri, hér á Íslandi. Það var venjulega svo, meðan Ísland var fátækt land, sem það ekki er lengur, að þá gátu menn, ef þeir réðust í að byggja, venjulega verið vissir um að fá veðdeildarlán, þegar þeir höfðu komið byggingunni upp, og menn gátu verið nokkurn veginn vissir um að fá víxillán í viðkomandi banka, sem breytt var í veðdeildarlán, —víxillán, sem þeir gátu notað til að hefja bygginguna með. Öllu þessu hefur verið kippt burt núna. Og það er vitanlegt, að það blómgast nú svartur markaður í peningamálunum, jafnvel meir en var í vörunum hérna fyrr, og bankarnir eru lokaðri, en þeir hafa verið nokkurn tíma áður og jafnvel, að því er virðist, hafðir undir alveg sérstöku eftirliti hvað það snertir, að bankastjórarnir, ef þeir skyldu hafa vilja á því að lána út fé til bygginga, ekki geri það. Það var rætt um þetta atriði nokkuð í fyrra út af þáltill., sem ég bar fram þá um rannsókn á starfsemi efnahagsráðunauts ríkisstj., dr. Benjamíns Eiríkssonar, og kom þá greinilega fram hjá hæstv. viðskmrh., að hann hafði beinlínis ritað bönkunum fyrirmæli um það, eins og hann orðaði það á ákaflega kurteislegan hátt, að hafa hömlur á lánum til bygginga. Það var nú vitanlegt þá, að lánin voru svo að segja engin, svo að hömlurnar áttu auðsjáanlega að þýða, að það yrði ekki farið inn á þá leið að hjálpa mönnum með að byggja, og ég skal fyllilega viðurkenna, að þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins fyrsta skrefið í þessum efnum. Það, sem gera yrði, svo framarlega sem það yrði samþ., væri að kippa í lag lánamálunum hvað íbúðarhúsabyggingar snertir. En þótt slíkt væri gert, þá er enn fremur eftir að sjá um innflutning byggingarefnisins. Samt hefur það orðið svo, og ég held það sé alllangt síðan það hefur verið þannig, að meira að segja það byggingarefni, sem flutt hefur verið til landsins, hefur ekki alltaf notazt allt saman nægilega snemma, þannig að það hefur undanfarið oft verið til byggingarefni, sem ég veit að menn, sem hafa verið að byggja, hafa sótt um að fá að hagnýta og jafnvel verið neitað um, þannig að byggingarefnið hefur frekar eyðilagzt heldur en að menn fengju að nota það.

Það er engum efa bundið, að við getum flutt inn meira byggingarefni. Og það er satt að segja undravert, að á sama tíma sem verið er að tala um frjálsa verzlun hér á Íslandi, þá skuli hafa reynzt alveg ómögulegt að fá frjálsan innflutning á byggingarefni, og á sama tíma sem hvers konar óþarfi er fluttur inn til landsins og það í ríkum mæli og fjárfesting í slíkum óþarfa gefin alveg frjáls, þá skuli vera haldið áfram að hindra menn í einhverjum nytsamasta sparnaði, sem hægt er að framkvæma í þjóðfélaginu, sem sé þeim sparnaði að byggja íbúðarhús, bæði fyrir þessa kynslóð og þá komandi, því að ég veit ekki, hvað er meiri sparnaður, en að nota vinnuafl, sem annars er ónotað, byggingartækni, sem annars er ekki notuð, og byggingarefni, sem hægt er að flytja inn fyrir gjaldeyri, sem hefur verið eyðilagður, til þess að byggja hús, sem koma til með að standa 200–300 ár og jafnvel lengur. Ég held þess vegna, að þær hömlur, sem verið hafa á byggingu hóflegra íbúðarhúsa, hafi eingöngu orðið þjóðinni til stórkostlegs skaða. Ég veit að minnsta kosti, að í Reykjavík hafa Reykvíkingar sem heild tapað á því, miðað við það, sem þeir byggðu 1946 t. d., og miðað við það, sem byggt var nú á síðasta ári, ekki minna en um 60 millj. kr. á einu ári, að því hefur verið sleppt að byggja 400 íbúðir, sem vel var hægt að byggja hérna. Ég held þess vegna, að þetta litla frv. mundi, ef samþ. væri, hjálpa til þess í fyrsta lagi að hagnýta betur vinnuaflið heldur en nú er gert, í öðru lagi hagnýta betur byggingartæknina. heldur en nú er gert og í þriðja lagi þá mundi með því að gefa þetta frjálst vera knúið á að tryggja lán og fá nægilegt byggingarefni, til þess að það gæti orðið að fullu gagni. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þd. taki þessu frv. vel, og vildi óska eftir að, að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og fjhn.