21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

9. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. geta séð á nál. frá fjhn., nál. meiri hl. á þskj. 104, nál. minni hl. á þskj. 96, þá hefur fjhn. ekki orðið algerlega sammála um afgreiðslu þessa máls. Við 4 nm., sem erum í meiri hl., leggjum til, að þetta frv. sé samþ. óbreytt, en minni hl. telur sig vilja fella frv., en virðist þó vilja samþ. 3. gr. þess. Gerir hann sjálfsagt nánari grein fyrir þessari afstöðu.

Þetta frv. er gamall kunningi hér í Alþ. og hefur verið framlengt undanfarin ár um eitt ár í senn. Meiri hl. lítur svo á, að það séu allar þær sömu ástæður fyrir hendi nú til að framlengja frv. um eitt ár eins og verið hafa, og byggir till. sína á því áliti. Frv. er svo kunnugt hér í þingi og þau lög, sem gilt hafa og frv. er framlenging á, að það er óþarfi að rekja efni þess. 1. gr. þess er um að auka nokkuð þær tekjur, sem ríkissjóður hefur, en 2. og 3. gr. eru aftur um undantekningu á tollum, 2. gr. um að undanþiggja nokkrar nauðsynjavörur þeirri tollahækkun, sem 1. gr. ákveður, og 3. gr. um heimild til að fella með öllu niður toll á nokkrum nauðsynjum. Þetta hvort tveggja telur meiri hl. n. jafnnauðsynlegt. Undantekningar, eins og ég sagði áðan, eru eingöngu um brýnar nauðsynjar, en til þess að geta fellt slíkar nauðsynjar undan tollum og til þess að inna greiðslur ríkissjóðs af hendi, þarf hann auðvitað að hafa tekjur, og þótt þær komi þungt niður á landsmönnum sem gjöld til ríkissjóðs og annarra opinberra þarfa, þá er ekki hægt að komast hjá því og verður að taka það eins og það er.

Í n. var nokkuð rætt um það, að ef til vill væri rétt að nota það tilefni, að þetta frv. liggur fyrir, til þess að breyta tollskránni í fleiri atriðum og þá til frambúðar. Var það sérstaklega hv. þm. Barð., sem hreyfði þar ákveðnu atriði, sem hann vill gjarnan breyta í tollskránni. Eftir nokkra athugun leit þó, held ég, n. öll svo á, að rétt væri að afgr. þetta frv., sem fyrir liggur, samþ. það eða fella sérstaklega, en breytingar, sem menn kynnu að vilja gera á tollskránni og ættu að gilda til frambúðar, ætti frekar að gera með sérstöku lagafrv., þar sem þetta frv. gildir aðeins til eins árs, þótt að lögum verði. Að vísu má búast við, að það verði framlengt oftar en nú, en það breytir engu í þessu tilliti, það verða tímabundin lög, en tollskráin almennt séð er það ekki, og þó að frá almennu sjónarmiði megi segja það, að óviðkunnanlegt sé að breyta sömu lögunum með tvennum lögum á sama þingi, þá lítur n. svo á, að það sé ekki í þessu tilfelli, af þessum ástæðum, sem ég hef greint, að þetta frv. er aðeins tímabundið, og er miklu réttara að hafa frambúðarbreytingu á tollskránni í sérstökum lögum, og yrði að minnsta kosti umsvifaminna, ef að þeim tíma kæmi, að ekki væri þörf á að framlengja þessi lög, sem hér um ræðir. Eins og ég hef áður sagt, er það því till. meiri hl, n., að frv. verði samþ. óbreytt.