28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

102. mál, Háskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa 1. umr. mikið. En þar eð ég á sæti þetta ár í háskólaráði, vil ég ekki láta hjá líða að láta í ljós nokkrar aths. út af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið af þeim ræðumönnum, sem talað hafa.

Það kemur, sem betur fer, ekki oft fyrir, að þm. hver á fætur öðrum — bæði þm. úr stuðningsflokkum stjórnarinnar og hv. stjórnarandstöðu — standi upp til þess að andmæla frv. og byggi andmæli sín svo að segja einvörðungu á röngum forsendum og hafa ekki, að því er virðist, gert sér það ómak að kynna sér það mál, sem til umr. er, og skal ég finna þessum orðum mínum stað.

Það er um það talað, að í þessu frv. felist skerðing á akademísku frelsi, það felist í því skerðing á skilyrðum stúdenta til þess að vinna fyrir sér og í þriðja lagi felist í því aukning á íþróttaskyldunni. Allt er þetta misskilningur, sem betur fer. Ég væri þeim algerlega sammála um að vera á móti þessu frv., ef í því fælist skerðing á sönnu akademisku frelsi, ef í því fælist skerðing á skilyrðum stúdenta til þess að vinna fyrir sér og ef í því fælist aukning á íþróttaskyldunni. En sem betur fer er þetta ekki. Allt þetta er hreinn misskilningur.

Hvað er akademískt frelsi? Akademískt frelsi er fyrst og fremst frelsi kennara og nemenda til að kenna og nema það, sem hugurinn girnist og samvizkan býður. Það er þetta fyrst og fremst. Akademískt frelsi á að vera andlegt frelsi. Í því á auk þess að felast réttur til þess að fá í háskóla sannprófaða þekkingu sína, hvernig sem hennar verður aflað, hvort sem hennar hefur verið aflað innan skólaveggja eða annars staðar. Í þessu frv. er ekki setning, sem skerðir skilyrði stúdenta til þess að fá sannprófaða sína þekkingu eftir sem áður og á sama hátt og hingað til, hvort sem þekkingarinnar hefur verið aflað innan háskólaveggja eða utan þeirra. Í frv. er ekki setning, sem skerðir frelsi kennara eða nemenda til þess að nema það, eins og ég orðaði það, sem hugurinn girnist eða samvizkan býður þeim. Þess vegna er í frv. engin skerðing á akademisku frelsi. Það er ekki akademiskt frelsi að hafa leyfi til þess að slæpast við nám. Því heldur enginn fram. Það, sem gert er með þessu frv. hvað nám snertir, er, að háskólinn áskilur sér rétt til þess að prófa þá menn með nokkuð öðrum hætti, sem ekki hafa stundað nám sitt eftir reglum, sem háskólinn óskar að setja og engin ástæða er til þess að halda fyrir fram, að óreyndu, að muni verða ósanngjarnar eða óheppilegar. Menn verða að athuga, út á hvað frv. gengur, og mér finnst í tilefni af ræðum hv. 2. þm. Eyf. og hv. 2. þm. Reykv. ekki vera ástæðulaust að rifja það upp með örfáum orðum.

Í þessu frv. stendur það eitt umfram það, sem þegar stendur í lögum, að háskólaráð skuli hafa heimild til þess að skylda kennara til þess að skrá það, hvenær stúdent sæki hjá þeim tíma, til þess að fylgjast með því, hversu rækilega hver einstakur stúdent sækir tíma í háskólanum, og til þess að setja um það reglur, að til þess að mega ganga undir venjulegt háskólapróf, þá skuli menn hafa orðið að sækja ákveðna hlutfallstölu af tímum eða ákveðinn tímafjölda í hverri grein og sé þá sett um það reglugerðarákvæði, hvað það hámark skuli vera hátt. Ég skal taka það fram, að ég tel það ekki eiga að vera mjög hátt. Það væri jafnóskynsamlegt að hafa það mjög hátt eins og að hafa það ekkert, eins og nú er. Hins vegar, ef menn óska ekki eftir að stunda nám á þann máta að sækja þennan tilskilda kennslutímafjölda, þá er háskólanum í frv. heimilað að prófa þá menn, sem það gera ekki, með nokkuð sérstökum hætti, þ. e. a. s. að prófa þá nokkru víðtækar heldur en hina, sem stundað hafa reglulegt nám í háskólanum og sótt hafa alla tilskilda tíma eftir þeim reglum, sem settar eru. Þetta er engin nýjung í skólamenntun. Það þekkja allir, sem nokkuð eru kunnugir skólum hér á landi. t. d. menntaskólunum, sem senda menn í háskólann, að þar er gerður greinarmunur á annars vegar innanskólaprófum og hins vegar utanskólaprófum og svolítið aðrar kröfur gerðar til þeirra, sem taka utanskólapróf. Það er enn fremur kunnugt öllum þeim, sem þekkja til náms í fjölmörgum háskólum nágrannalandanna, að nákvæmlega þetta er gert þar. Það er gerður á því greinarmunur, hvort menn ganga undir háskólaprófin sem reglulegir innanskólanemendur, sem fylgt hafa fyrirframgerðum námsáætlunum, eða hvort menn hafa aflað sér sinnar þekkingar annars staðar, annaðhvort í öðrum háskólum eða með öðrum hætti. Það er mjög algengt í háskólum annars staðar, að þeir prófi sína eigin nemendur með öðrum hætti en nemendur, sem stundað hafa nám í öðrum háskólum, — mjög algengt og ég vil segja regla. Það er þetta, sem er gert ráð fyrir hérna, og annað ekki. Menn verða að hafa það í huga, hvað próf eru í raun og veru. Próf eru eins konar tilraun til þess að gera úrtaksathugun á þekkingu nemendanna, og próf reglulegra nemenda eru alltaf eins og þau eru í skjóli þess, að nemendurnir hljóti að hafa öðlazt vissa þekkingu á því að hafa stundað reglulegt nám. Þeim mun minna sem hið reglulega nám er, þeim mun strangari eru prófin höfð alls staðar. Og það er því fullkomlega rökrétt, að ef menn hafa kosið að afla sér sinnar þekkingar utan hinna venjulegu háskólaveggja, þá geta prófin ekki verið jafnörugg eins og þau eiga að vera, ef þau eru með nákvæmlega sama hætti og gagnvart þeim mönnum, sem fylgt hafa reglulegri námsbraut innan veggja skólans. Ég veit, að þetta eru svo einfaldir hlutir, að ástæðulaust ætti að vera að ræða þá svona ýtarlega á þessum vettvangi. Mér hefur verið sagt það, að jafnvel hér í háskólanum hafi sumir kennararnir haft þann sið í munnlegum prófum að prófa þá stúdenta með nokkuð öðrum hætti, sem þeir vita um að hafa ekki sótt tíma reglulega. Um þetta framferði hefur verið nokkuð deilt bæði meðal stúdenta og kennara. hvort það sé eðlilegt og sanngjarnt, og háskólakennararnir hafa þegar leyfi til þess að gera þetta. Það getur enginn meinað þeim þetta samkvæmt þeim reglum, sem núna eru, og mér vitanlega hafa aldrei komið fram kröfur um að banna slíkt. En það, sem nú er gert, er að gera þetta að reglu, sem gildi fyrir alla, gera það að skyldu fyrir alla kennara að taka nokkurt tillit til þess í prófunum, hvort stúdentarnir hafa stundað reglulegt nám samkvæmt fyrirframgerðum námsáætlunum eða ekki.

Það má auðvitað spyrja, hvort ástæða sé til þess að veita þetta aukna aðhald, þ. e. a. s. hvetja með þessu stúdenta frekar til að stunda nám innan veggja háskólans en gera það annars staðar, því að kjarni þessara reglna er auðvitað það, að með þessu móti, ef að lögum yrði, mundi sá stúdent, sem stundaði nám sitt í háskólanum, eiga nokkru auðveldara með að ganga undir próf en sá stúdent, sem aflaði sér þekkingar annars staðar. Auðvitað má um það deila, hvort þetta sé sanngjarnt eða ekki sanngjarnt, — hvort það sé sanngjarnt að hvetja menn frekar til að stunda námið á þann hátt að sækja tíma heldur en að gera það með sjálfsnámi. Ég held, að reynslan í háskólanum hafi sýnt það, að nám hafi yfirleitt lengzt dálítið. 5–6 ára nám kannske lengzt um að minnsta kosti missiri og allt að tveim missirum vegna þess, að nemendur hafa ekki haft þetta aðhald, og í raun og veru telja kennararnir það í sumum greinum tvímælalaust að minnsta kosti missirislengingu, svo að í raun og veru ætti þetta að geta orðið sparnaður að þessu leyti, að námstími styttist, ef menn tækju upp þann sið í ríkari mæli en gert hefur verið að fylgja fyrirframgerðum námsáætlunum og stunda námið innan veggja háskólans.

Ég skal endurtaka það og leggja á það sérstaka áherzlu, að með þessu er ekki verið að meina mönnum að ganga undir próf, þó að þeir komi aldrei inn í háskólann, að svo miklu leyti sem það er ekki talið óhjákvæmilegt. Og allir eru sammála um, að í læknisfræði, verkfræði og þvílíkum greinum er ekki hægt að stunda nám nema taka þátt í sérstökum námskeiðum. En burt séð frá þessu er ekki verið að heimta það af mönnum, að menn hafi stundað nám í háskólanum, sem skilyrði fyrir prófi. Eftir sem áður geta menn stundað sitt nám hvar sem þeir vilja, hvar á Íslandi og hvar í heiminum sem þeir vilja. Ef þeir hafa stúdentspróf og nægilega þekkingu, þá veitir háskólinn þeim þau embættisréttindi, sem próf hans veita. Það eina, sem um er að ræða, er það, að háskólinn óskar eftir því að hafa leyfi til þess, sem hann kannske raunar hefur nú þegar, að prófa slíka menn með dálítið öðrum hætti en hina, sem fylgja fyrirframgerðri námsbraut.

Að því er varðar það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að í þessu fælist takmörkun á möguleikum stúdenta til þess að vinna fyrir sér, þá er því raunverulega þegar svarað með þessu. Í því, að menn geta ekki smágengið undir próf og stundað nám hvar sem er, felst auðvitað engin takmörkun á rétti manna til þess að vinna fyrir sér jafnhliða náminu. Ég er þm. algerlega sammála um það, að það er einn af höfuðkostum íslenzks skólakerfis, hvað íslenzkir nemendur í háskóla og öðrum skólum eru nátengdir atvinnulífinu, hversu títt er, að þeir vinni fyrir sér í sumarfríi sínu og jafnhliða námi sínu að vetrinum. Það er alveg rétt, að það væri mjög óheppilegt, ef eitthvað væri gert til þess að koma í veg fyrir slíkt. Það ætti ekki að gera. Og ég mundi ekki fylgja þessu frv., ef ég vissi ekki, að það skerðir þau skilyrði ekki.

Í þriðja lagi var síðan að því vikið, að hér væri um að ræða aukningu á íþróttaskyldu; það væru, að því er mér skildist, ný fyrirmæli um það, að nú mættu menn ekki ganga undir próf, nema hafa áður tekið þátt í leikfimi. Þetta er alger misskilningur, eins og hæstv. menntmrh. þegar hefur bent á. Ég hef alla tíð litið það óhýru auga, að í háskólalögunum væru ákvæði, sem skylduðu stúdenta til að taka þátt í leikfimi. Ég hef alla tíð talið það vera óeðlilegt, sérstaklega eins og lögin eru að öðru leyti, það væri óeðlilegt að láta íþróttir vera einu námsgreinina, sem skylt er að taka þátt í, eins og nú er í lögunum. Ég hef alla tíð verið andvígur þessu ákvæði. En hitt er svo annað mál, að eins og lögin hafa verið undanfarið, þá get ég ekki séð, að það sé óeðlilegt, að háskólinn megi setja sams konar ákvæði um íþróttir og allar aðrar greinar. Það á að gilda það sama um íþróttir að þessu leyti, að því er varðar heimild háskólans, eins og um aðrar greinar, sem kenndar eru í skólanum. Og það er það, sem lagt er til með þessu frv. Það eru niður felld lagaákvæði um íþróttaskylduna. Þetta virðast hvorki ýmsir stúdentar né heldur háskólakennarar né heldur þm. hafa gert sér grein fyrir. Í þessu frv. eru lagaákvæði um íþróttaskylduna felld niður. Og það, sem kemur í staðinn, er heimild til handa háskólaráði að setja í reglugerð ákvæði um, að menn skuli hafa sótt ákveðinn tímafjölda í leikfimi eins og í öðrum greinum. Mér skilst, að það hafi verið mikið baráttumál stúdentasamtakanna á undanförnum árum að fá lagaákvæðið um íþróttaskylduna fellt niður. Og mér kemur það satt að segja mjög einkennilega fyrir sjónir, ef stúdentar beita sér gegn þessu frv., sem einmitt gengur inn á eina höfuðkröfuna í félagslífi stúdenta um mörg undanfarin ár. Ástæðan til þess, að menn beita sér gegn þessu frv., getur varla verið önnur en sú, að menn hafa ekki kynnt sér það til hlítar. Líklega hafa menn þá misskilið hér eina grein í frv., þar sem, með leyfi hæstv. forseta, stendur: „Þótt stúdent fullnægi ekki skilyrðum síðustu málsgreinar,“ — en í síðustu setningu greinarinnar á undan er talað um íþróttaskylduna. Í lagamáli merkir málsgrein allt, sem stendur á milli greinaskila. Og það, sem átt er við með þessu, að stúdentar fullnægi ekki skilyrðum síðustu málsgreinar, er yfirleitt, að þeim reglum sé ekki framfylgt, stúdentar hlíti ekki þeim reglum, sem háskólinn setur í reglugerð um tímasókn almennt. Hvað þetta snertir byggjast því andmæli hv. 2. þm. Eyf. á algerum misskilningi. Mér skildist, að hann teldi íþróttaskyldu vera eðlilega í háskólanum. Þar er ég honum þó ósammála. Það, sem á að gera í þessu máli, ef íþróttir eru kenndar á annað borð, er að láta sama gilda um íþróttirnar og aðrar hliðstæðar greinar. Ég vil skipa íþróttunum á þann sess, þar sem þær eiga heima, með algerum aukagreinum, og láta ekki strangari kvöð hvíla á nemendum í þessu tilliti heldur en öðrum greinum, sem taldar verða hreinar aukagreinar. En aðalatriði málsins er það að hægt sé að kveða á um, að menn sæki tíma í sínum aðalgreinum eftir vissum reglum.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að háskólinn ætti ekki að vera menntaskóli. Þar er ég honum algerlega sammála. Hann sagði, að háskólinn ætti að vera miðstöð andlegs lífs þjóðarinnar. Ég er honum líka sammála um það. Og ég vil endurtaka, að hvort tveggja þetta ræði ég ekki frekar, vegna þess að það er hvort tveggja þessu frv. algerlega óskylt mál. Það mætti gera aðrar breyt. á háskólal., sem að því miðuðu að auðvelda bæði kennurum og nemendum að njóta betur akademísks frelsis, þ. e. a. s. frelsis til að kenna og nema það, sem menn girnast. Og það mætti líka gera aðrar ráðstafanir til þess að auðvelda háskólanum að vera miðstöð andlegs lífs þjóðarinnar. En það ber að ræða í sambandi við annað frv. en hér er um að ræða, vegna þess að í þessu frv. felst það ekki að flytja háskólann aftur á bak á menntaskólastig né heldur neitt til að skerða skilyrði hans til þess að vera miðstöð andlegs lífs þjóðarinnar.