28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (3112)

102. mál, Háskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. talaði um, að það hefði verið nokkuð á röngum forsendum, sem ég og hv. 2. þm. Eyf. hefðum rætt þetta mál. Ég held það sé nú, eins og hv. 2. þm. Eyf. hefur þegar komið inn á, misskilningur hjá honum. Frá 1936–1941, með þeim breytingum, sem þá voru gerðar á háskólalögunum, var tilhneigingin ákaflega greinileg í þá átt að setja í staðinn fyrir sjálfsagann og það svo kallaða akademíska frelsi hjá háskólastúdentum skylduna til að hafa sótt ákveðna tíma. 22. gr., sem við núna erum að ræða um, var 1936 í lögunum aðeins um, að stúdentar mættu ganga undir próf þegar þeir vildu og að þeir skyldu hafa lokið prófi í forspjallsvísindum áður og þeim undirbúningsprófum, sem tilheyrðu. Það voru engar ákvarðanir viðvíkjandi neinum fyrirmælum um kennslusókn. Lögin 1941 þýddu sem sé mjög mikla breytingu í þá átt að skapa þannig það, sem kallað er sterkara aðhald, þ. e. að gera háskólann meira að svo að segja skólabekkjaskóla. Hins vegar er það alveg greinilegt og kemur fram í þessari örstuttu grg., sem þessu frv. fylgir og er nú satt að segja undarlega stutt, að meiningin með þessu frv. nú er að auka aðhald og eftirlit með námi við háskólann, ganga enn þá lengra í þá sömu átt sem gengið var 1941 og ég býst ekki við að hafi verið mótmælalaust þá. Það, sem nú er bætt við greinina eins og hún var, eru tvær seinustu málsgr. í 2. gr. frv., þ. e. heimildin til að kveða á um, að stúdent skuli hafa sótt ákveðinn fjölda eða hluta þeirra kennslustunda, kennslu og fyrirlestra, sem eru í hans námsgrein, og að hann skuli hafa notið tilskilinnar kennslu í íþróttum. Það er þessi heimild, sem bætt er við. M. ö. o., það er þarna verið að gefa víðtækari heimildir til reglugerðarsetningar heldur en áður var.

Hv. 3. landsk. talaði um, að e. t. v. hefði háskólaráð rétt til að gefa eitthvað af þessum fyrirmælum núna samkv. núverandi reglum. Honum getur ekki blandazt hugur um það, að svo framarlega sem Alþ. hins vegar samþ. þessa grein núna, þá er verið að ýta undir háskólaráð til að nota rétt, sem áður var máske tvísýnn og efasamt er að háskólaráð ella hefði lagt út í. Ég held þess vegna, að okkur hljóti að koma saman um það, enda eru einu röksemdirnar, sem fylgja með þessu frv., stytzta grg., sem sézt hefur á Alþ., sem sé ein setning, hálf önnur lína. Ég held það sé alveg greinilegt, að það á að ganga enn þá lengra í sömu áttina sem gengið var 1941 og skerða þar með enn þá meira þetta svo kallaða, — ja, menn geta deilt um, hvað þeir vilja kalla akademískt frelsi, — en við skulum segja í öllu falli að treysta minna á sjálfsaga stúdenta og sem afleiðingu af því að gera erfiðara fyrir þeim fátæku nemendum, sem ekki geta máske sótt kennslustundir í háskólanum eins mikið, vegna þess að þeir geta ekki kostað sig hérna í Reykjavík eins lengi og aðrir. Það má að vísu vera, að það væri hægt að komast fram hjá slíku, ef háskólaráð í öllum slíkum tilfellum tæki mildum höndum á. En ætli það sé nú ekki erfitt fyrir háskólaráð að vera alveg alviturt í þeim efnum, hvernig hagir manna eru og hvort menn kynnu nú hálfpartinn að vera að skrópa eða hvort það væri vegna fátæktar eða efnaleysis, sem menn gætu ekki stúderað? Ég held það sé vissara að treysta á rétt mannanna til þess að mega ganga undir prófin án þess að hafa fullnægt því að sækja kennslustundirnar heldur en að treysta á undanþágurnar frá háskólaráðinu, ef þeir hafa ekki getað það.

Ég vil minnast á það líka í þessu sambandi, að það er ekki aðeins sjálfsagi gagnvart stúdentum, sem kemur fram í því, að þeir ráði sjálfir, hvort þeir sæki kennslustundir. Í því felst líka eins konar aðhald á prófessorunum. Það er vitanlegt, að prófessorar við háskólann geta verið ákaflega mismunandi, og svo fremi sem prófessorum tekst að gera þær vísindagreinar. sem þeir eru að kenna, eftirsóknarverðar fyrir stúdenta, þá skortir venjulega ekki á, að fyrirlestrar séu vel sóttir, og dæmi eru þess, að fólk flykkist að, stúdentar og jafnvel aðrir óski eftir að fá að hlýða á fyrirlestra, sem fluttir eru þannig við háskólann. Það er enginn efi á því, að það er á ýmsan hátt líka nytsamlegt aðhald fyrir prófessorana, að fyrirlestrarnir séu gjarnan þannig úr garði gerðir, að menn vilji sækja þá, að þeir hæni menn að.

Þá ber líka að athuga það, að með ákvæðum um skyldu til að sækja ákveðinn hluta kennslustunda er ekki aðeins oft gert erfitt, eins og við vorum sammála um, þeim mönnum, sem væru að stúdera greinar, sem þeir gætu numið utan háskólans. Það er líka verið að gera það erfitt þeim, sem verða svo að segja hvað sem það kostar að vera hérna í Reykjavik. Við skulum taka t. d. læknastúdenta. Það er vitanlegt, að læknastúdentarnir verða að hafa unnið alllengi, meira en ár samanlagt á spítölum kauplaust og að það er eitt skilyrði þess, að þeir geti tekið próf, og eðlilegt skilyrði. Efnalitlir stúdentar nota sumrin venjulega til þess að vinna fyrir sér, þegar þeir fá atvinnu. Þeir reyna gjarnan að vinna af sér þessa skyldu að vetrinum til, jafnvel þótt það gangi að einhverju leyti út yfir kennslustundir. Það er náttúrlega ekki heppilegt, eins og yfirleitt fátæktin er ekki heppilegt fyrirkomulag í þjóðfélaginu, en þess hefur þó ekki orðið vart, að það kæmi að sök. En svo framarlega sem farið væri að setja þau ákvæði, sem 2. málsgr. í 2. gr. mundi heimila, að það væri skylda, að menn hefðu sótt ákveðinn fjölda af kennslustundum, þá yrði þetta miklu erfiðara, jafnvel ókleift fyrir suma. Það er auðvelt fyrir þá, sem eiga ríka að, að nota sumarið til þessara hluta, ef þeir þurfa ekki að vinna fyrir sér, en það er erfitt fyrir hina. Ég er þess vegna hræddur um, að það yrði ákaflega erfitt að framfylgja þessari 2. málsgr. hérna, þannig að hún kæmi ekki þyngst niður á þeim efnaminnstu.

Þá er enn fremur með 2. og 3. málsgr. gefin alveg ótvíræð heimild til þess að þyngja próf, svo framarlega sem menn hafa ekki sótt ákveðinn fjölda kennslustunda og notið tilskilinnar kennslu í íþróttum. Og þegar sótt er um heimild til þess að gera þetta og jafnvel í síðustu greininni fyrirskipað að gera strangari prófkröfur til slíkra stúdenta, þá virðist nú tilgangurinn vera sá að nota slíka heimild; m. ö. o., þeir stúdentar, sem hefðu orðið meira að lesa utan háskólans, eiga að ganga undir þyngra próf heldur en þeir, sem hafa haft efni til þess að vera hér við háskólann allan veturinn. Er þetta nú réttlátt, að fyrir utan þær lakari aðstæður, sem fátækir stúdentar utan af landi þannig fá, ef farið væri eftir orðanna hljóðan eða aðferðinni, þá skuli þeir þar að auki ganga undir þyngra próf? Ég held þetta sé rangt, og ég held það sé allra sízt rétt að fara að gera svona hlut á tímum, þegar verið er beinlínis að stefna að því að gera mönnum erfiðara fyrir að stunda háskólanám heldur en áður, vegna þess efnahagsástands, sem verið er að skapa í þjóðfélaginu.

Mér þótti vænt um að heyra það, sem hv. 3. landsk. sagði viðvíkjandi íþróttunum. Ég held, að einmitt breytingin, sem þurfi að gera á 22. gr. og ég held að væri rétt að hv. menntmn. athugaði, það væri að fella aftan af henni seinasta hlutann af setningunni, þar sem segir: „þar á meðal, að hann hafi notið kennslu í íþróttum ekki skemur en 4 kennslumissiri.“ Ég held það væri sú eina breyting, sem ætti að gera í þetta skipti á þessum lögum, þegar þau ganga í gegn, og ég held það væri góð breyting.

Ef við hins vegar viljum fara að breyta háskólalögunum, — og þar vil ég einmitt minna á það, sem hv. 3. landsk. var mér alveg sammála um, — þá ættum við að gera ráðstafanir til þess að veita það miklu meiri styrki til háskólans, að það væri hægt að styrkja stúdenta til þess að geta stundað sitt nám hérna í Reykjavík án tillits til efnahags. Það er frumskilyrði fyrir því, að þjóðin geti fengið að hagnýta þá krafta, sem í henni búa, og ég held, að við ættum ekki að fara að samþykkja strangari kröfur til prófanna og meira aðhald fyrr en við hefðum þá að minnsta kosti breytt þessari aðstöðu, skapað þarna nýja aðstöðu fyrst, og það vil ég vona, að sú hv. nefnd, sem þetta fær til athugunar, íhugi gaumgæfilega.