28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3114)

102. mál, Háskóli Íslands

Magnús Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að ég álít það nauðsynlegt með hliðsjón af því, að þetta á að takast til athugunar í nefnd, og þar sem 3. landsk. hefur hér viðhaft ummæli, sem hljóta að geta valdið misskilningi. ef þau verða tekin trúanleg af nefndinni. Hann segir, að ég hafi alls ekki skilið þetta frv. og viti ekki, hvað í því felst, og nú er hann kominn að þeirri niðurstöðu, að í því felist aðeins það að fella niður íþróttaskylduna. Það var það, sem hv. þm. sagði, að hér væri blátt áfram verið að fella niður íþróttaskylduna. Ég vil aðeins benda á það, að það stendur í niðurlagi 2. mgr.: „að hann hafi notið tilskilinnar kennslu í íþróttum“ — og það hlýtur að verða með öllum almennum lögskýringum, — það er engin leið fyrir hv. 3. landsk. að komast fram hjá því, — að vera gengið þar út frá, að það hafi verið einhver ákvæði um það, að nemandinn ætti að stunda nám í íþróttum. — Þetta er aðeins til leiðréttingar.

Þá heldur hv. þm. því fram, að í þessu frv. felist engin takmörk, það geti allir stundað sitt nám eftir sem áður, og það sé aðeins um það að ræða að veita prófessorunum heimild til að spyrja þyngra, en aðra þá menn, sem koma að prófborði og þeir ekki þekkja, en kunna að hafa verið utanskólamenn. Það stendur nú í síðustu málsgr. til leiðbeiningar fyrir hv. þm., að það er ekki einungis heimilt, heldur er skylt að gera það. Þannig rekur sig eitt á annars horn hjá hv. þm. um þetta efni, þegar hann talar um það í öðru orðinu, að það séu ekki sett nein takmörk í frv., en þó í hinu orðinu, að það sé alveg nauðsynlegt að fá þessi ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að menn geti slugsað við nám.