24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3126)

86. mál, skemmtanaskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hefði till. verið uppi um það að vísa máli þessu til hv. fjhn., þá hefði ég ekki kvatt mér hljóðs, heldur gert mínar aths. við frv. í þeirri n., en úr því að till. liggur fyrir um að vísa því til menntmn., þá vil ég nú strax við 1. umr. lýsa mig andvígan nokkrum atriðum frv.

Þá er fyrst það, sem hæstv. menntmrh. ræddi dálítið um, breytingar á skattsviðinu frá því, sem áður var. Ég tel, að sú breyting, sem felst í 1. gr., um að færa skattsviðið til þeirra kauptúna og bæja, sem eru þó svo fámennir, að þar eru ekki nema 500 manns, sé óhæfa. Ég álit, að skattsviðið, eins og það var markað áður, sé sæmilega sanngjarnt. Þeir bæir og þorp, sem hafa færri en 1.500 menn að íbúum, eiga yfirleitt mjög örðugt með að halda uppi sínu skemmtanalífi, og ég tel ekki sanngjarnt að skattleggja samkomur þar. Að vísu hafa þessir bæir og kauptún ýmis lagt á skemmtanaskatt til ágóða heima fyrir, en framkvæmd þeirrar skattálagningar hefur verið þannig, að ívilnað hefur verið jafnan þeim, sem kunnugleiki á staðnum hefur hverju sinni vitað að þyrftu ívilnunar við. Þeir staðir, sem eru svona fámennir, eru gagnvart hinum fjölmennari stöðum mjög líkt settir og unglingur, sem er á gelgjuskeiðinu, gagnvart fullorðnum manni. Unglingurinn hefur sínar þarfir og ekki minni en fullorðni maðurinn, en hann á örðugra með að svara til þeirra. Þessir fámennisstaðir þurfa á margan hátt að leitast við að halda sér til jafns við stærri staðina með ýmiss konar þægindi og líka um skemmtanir, og það er þeim erfitt verk iðulega. Það er haldið uppi á þessum fámennu stöðum með félagslegri fórn margs konar menningarlegri skemmtistarfsemi, eins og söngstarfsemi, íþróttastarfsemi, leikstarfsemi, og helzta ráðið til þess að afla fjár til þessarar starfsemi er að halda samkomur, sem þó eru svo fámennar, að tekjur af þeim geta ekki orðið á þá leið, að svari til þess, sem þyrfti að vera. Ég tel mjög ósanngjarnt að ætla þessum stöðum, sem þannig berjast fyrir góð málefni, og þeim fórnfúsu mönnum, sem fyrir þá eru að vinna, að greiða skatt í þennan almenna sjóð, tíundu hverja krónu eða meira af því, sem inn kemur.

Enn er á það að líta, að lögð er skattskylda samkv. þessu frv. á kvikmyndastarfsemi hreppa og bæjarfélaga, þessi smáu bæjarfélög og kauptún, sem sum hafa komið upp hjá sér kvikmyndastarfsemi til þess að fullnægja kröfu, sem almennt er farið að gera af fólki um þessa ódýru og á ýmsan hátt þægilegu skemmtun. kvikmyndasýningarnar. En reksturinn ber sig illa, og við bætist svo hjá bæjarfélögunum, að krafa er gerð til þeirra að vanda meira til mynda vegna menningar, heldur en einstaklingarnir gera yfirleitt, sem þessi fyrirtæki reka. Ég tel alveg fráleitt að leggja þennan skatt á hreppa og bæjarfélög, sem halda uppi þessari starfsemi og reka hana, þótt fjárhagslega óhagkvæmt sé, sem menningarstarfsemi með myndavali, - leggja á þau svo mikinn skatt, að 30% verði að skila.

Þjóðleikhúsið er ágæt stofnun, en ég tel þó ekki rétt að skattleggja fámennið til þeirrar stofnunar eins mikið og hér er gert. Ég get vel hugsað mér, að kvikmyndastarfsemin hreint og beint þoli ekki það að eiga að skila nálega þriðjungi að heiman í skatt, eins og hér er gert ráð fyrir, og verði víða lögð niður.

Ýmis fleiri atriði eru, sem ég tel ástæðu til að gagnrýnd séu í þessu frv., eins og það liggur fyrir, en þetta eru þó aðalatriðin, sem ég vildi vekja máls á og biðja hv. menntmn. að taka til sérstakrar athugunar. — Ég get líka aðeins nefnt það, að þegar talað er um það hér í 5. gr., að undanþegnar öllum skemmtanaskatti séu tilteknar skemmtanir, þá eru taldar með innanfélagsskemmtanir, aðrar en dans, sem aðeins eru fyrir félagsmenn. Á öðrum stað er gert ráð fyrir því, að sé skattskyld skemmtun einhver hluti skattfrjálsrar skemmtunar, einhver þáttur í skattfrjálsri skemmtun, þá skuli skemmtunin öll skattlögð. Nú er það svo, að innanfélagsskemmtanir eru oft á þá leið, að handhægt er að hafa dans. Hann er svo almenn skemmtun. Nefni ég þar til ungmennafélög, stúkufélög o. s. frv. Tel ég óréttmætt að skattleggja þær skemmtanir, þótt stiginn sé dans stundarkorn.

Við sumu af þessu, sem ég hef sagt, má kannske segja það, að gert sé ráð fyrir því, að reglugerð sé út gefin og ívilnað sé þeim skemmtunum, sem miða að almenningsheill. En ég tel það alls ekki fullnægjandi, þó að ráðuneytið gefi út slíka allsherjar reglugerð, og alls ekki sambærilegt fyrirkomulag við það, sem nú gildir á fámennu stöðunum, þar sem skemmtanaskattur er tekinn til heimaþarfa, af því að þar er kunnugleikinn með. Þar er hægt að taka tillit til alls og alls, en reglugerðarákvæðin hljóta alltaf að verða nokkuð stjúpmóðurleg í þessu sambandi.