24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

86. mál, skemmtanaskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það fór fyrir mér eins og hv. þm. S-Þ., að ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þetta mál við 1. umr. og er því ekki eins undirbúinn undir að ræða málið eins og ég hefði viljað vegna þess að ég bjóst við, að þetta mál færi í fjhn., þar sem ég á sæti.

Hæstv. ráðh. var nú í mjög miklum vafa, hvert hann átti að senda málið, en fékk aðstoð frá hæstv. fjmrh. En ef athugað er sérstaklega ákvæði til bráðabirgða í frv., þá er alveg sýnilegt, að málið á heima í fjhn., en ekki í menntmn., en ég skal þó ekki deila frekar um það atriði. Það er síður en svo, að ég á nokkurn hátt vantreysti hv. menntmn. til þess að fara vel og rækilega með þetta mál, enda eiga þar sumir hverjir sæti, sem einnig eiga sæti í fjhn. En ég vildi benda á í sambandi við þetta mál þegar á þessu stigi, að mér finnst ákaflega einkennilegt, að meginatriði málsins eru sett í bráðabirgðaákvæði, sem aðeins eiga að gilda um stundarsakir, en það er að afla þjóðleikhúsinu tekna til þess sumpart að standa undir rekstri þess og sumpart til þess að standa undir byggingarkostnaði, sem enn er ógreiddur. Þetta er alveg sýnilegt. Og það á út af fyrir sig ekkert skylt við hitt atriðið, hvaða skemmtanaskattur er lagður á þjóðina og hvernig honum er skipt að öðru leyti. Það hefði verið mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði borið fram alveg sérstakt frv. um þetta mál og þá látið fylgja því miklu lengri og skýrari grg. heldur en hæstv. ráðh. gerði hér áðan, því að hann kom ekki nálægt þessu atriði málsins, sem er þó kjarni frv. Það hefði t. d. verið ákaflega æskilegt, að við hefðum fengið að vita um ýmislegt í starfrækslu þjóðleikhússins, m. a. í sambandi við þær deilur, sem eru alltaf að rísa þar upp, sitt hvað um ósamkomulagið, sem er innan stofnunarinnar. Einnig hefði verið æskilegt að fá að vita um, hver er fjárhagurinn raunverulega. Það hefði átt að koma þá fram hér í athugasemdum með lagafrv., hverjar eru raunverulegar tekjur þjóðleikhússins. hver er halli þjóðleikhússins og hvort ekki sé hægt að gera þar einhverjar endurbætur á aðrar, en að leggja byrðina á þá þegna þjóðfélagsins, sem verða að greiða skemmtanaskatt, einnig þá, sem aldrei koma í þjóðleikhúsið. En nálægt þessu er ekki komið hér og engar upplýsingar um það. Ég vil því vænta þess af hv. menntmn., að hún fái allar þessar upplýsingar í sambandi við rekstur þjóðleikhússins, tekjur þess, skuldir þess og fjárþörf, og einnig nokkrar upplýsingar um, á hvaða stigi standa þau deiluatriði, sem nú eru þar efst á baugi, og láti þetta allt í nefndarálit, svo að hv. Alþ. fái að vita um, hvernig sú stofnun er rekin.

Ég vil enn fremur benda á, að ég er algerlega andvígur því, að íbúatalan sé færð niður eins og gert er í 1. gr. Hv. þm. S-Þ. hefur fært fyrir því allsterk rök, og í þessu er engin sanngirni gagnvart því fólki, sem býr við þau kjör á landinu, þar sem svo að segja útilokaðar eru allar skemmtanir, sem talizt geta menningarskemmtanir. Ég þekki sjálfur persónulega, hversu erfitt er fyrir þessi smáþorp t. d. að halda uppi kvikmyndasýningum. Þau geta ekki einu sinni haft ráð á því að fá beztu kvikmyndir til sín. Kostnaðurinn allur er slíkur, að sýningarnar geta ekki borið sig undir neinum kringumstæðum, þótt enginn skemmtanaskattur sé og hafa oft orðið að standa undir þessu annaðhvort áhugamenn í þorpunum eða sveitarsjóðirnir sjálfir, til þess að geta haldið þessu uppi. Hér er því beinlínis verið að leggja einn stein í þá byggingu að flytja fólkið í burtu frá landsbyggðinni til kaupstaðanna og þá helzt til Reykjavíkur, og ég vil mjög biðja hv. menntmn. að athuga þetta mál vel. Þar sem farið er að taka skemmtanaskatt í sambandi við sýningar á þessum stöðum, þá hygg ég, að það sé alveg undantekningarlaust, að það sé til þess að hlúa að öðrum menningarmálum í sömu sveit eða í héraðinu, og það væri enn verið að rýra möguleika þessa fólks til þess að hlúa að þeim málum, ef ætti að fara að taka þetta af þeim og láta það renna í ríkissjóð.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði, að hvorki hann, hans ráðuneyti né ríkisstj. í heild hefði tekið raunverulega neina afstöðu til þessa máls. Ég vildi nú óska þess, að hv. menntmn. tæki hæstv. ríkisstj. og hæstv. menntmrh. sér til fyrirmyndar og gerði það aldrei upp við sig, hvaða afstöðu hún tæki til þessa frv., og léti það þar af leiðandi ekki koma fram aftur úr nefndinni. Það væri í samræmi við það, sem hæstv. ráðh. hefur upplýst hér, og það væri áreiðanlega í samræmi við vilja margra þeirra manna, sem búa úti á landsbyggðinni og munu mótmæla því algerlega að láta skerða þann rétt, sem þeir hafa í sambandi við þessi mál.