24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

86. mál, skemmtanaskattur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég ætla nú ekki á þessu stigi málsins að fara að deila við hv. þm. Barð. né aðra hv. þm. um einstök atriði frv. Mér finnst það óviðurkvæmilegt, að hann sé að skora á þá nefnd, sem tekur við frv., að afgreiða það ekki. Það er vægast sagt heldur óþingleg framkoma. Ef þingið er á móti þessum till., sem þarna koma fram, þá er því að sjálfsögðu innan handar að fella frv. eða breyta því í það horf, sem það telur rétt vera. Hins vegar eins og ég gat um í framsöguræðunni, hafa verið gerðar mjög miklar breytingar á þessum lögum, og eru líklega fá lög, sem hafa verið undirseld jafnmiklum og tíðum breytingum. Þess vegna er ekki að ástæðulausu, að lögin eru tekin upp í heild, hvernig sem þingið kann að ákveða að þau verði afgreidd. Það er allt annað mál.

Hv. þm. sagði, að bráðabirgðaákvæðið í lögunum væri aðalkjarni málsins, og ég hefði ekki minnzt á þetta atriði, sem hann kallar aðalkjarna málsins. Ég veit, að hv. þingmanni er það ljóst, að öll þau ákvæði, sem eru í þessu bráðabirgðaákvæði, eru nú í lögum, og þau eru sett þarna til þess að þau séu þar, sem þau eiga heima, þ. e. a. s. í lögum um skemmtanaskatt. Þau eiga hvergi annars staðar heima. Það var talið eðlilegt, að þau ákvæði, sem þar eru til bráðabirgða, væru tekin saman á einn stað við endurskoðun laganna.

Rekstur þjóðleikhússins og deilur innan þeirrar stofnunar get ég varla skilið, að geti verið þessu frv. viðkomandi.