21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

9. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hélt því fram, að það væri stefna sú, sem ég hefði markað hér í ræðu minni áðan, að vera á móti öllum tekjum ríkissjóðs, en með öllum útgjöldum hans. Þetta er auðvitað ekki rétt túlkað. Auðvitað er mér það ljóst eins og öðrum, að ríkissjóður verður að hafa sínar ákveðnu tekjur til nauðsynlegra þarfa, þó að ekki sé þar með sagt, að öll útgjöld ríkissjóðs séu nauðsynleg; því fer fjarri. En það, sem ég sagði í minni framsöguræðu, var það, að ég drap nokkrum orðum á það prinsip-atriði, þá meginreglu, hvernig á að innheimta þessar tekjur. Ég benti á, að það væri ranglát aðferð að minni hyggju að innheimta slíkar tekjur með nefsköttum, sem legðust á menn án nokkurs tillits til þess, hverjar ástæður þeirra væru, og legðust af þeim ástæðum auðvitað hlutfallslega þyngst á þá, sem minnst tök hafa á að bera þær. Í staðinn ætti að innheimta þessar tekjur í hlutfalli við það, hvað þegnar þjóðfélagsins gætu borið, hvað aðstæður þeirra leyfðu. Og það var þetta, sem ég minntist á í minni framsöguræðu, og það er hártogun hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann leggur það út á annan hátt. Annars vil ég benda hv. frsm. á það, að nú viðgengst það hér í okkar þjóðfélagi, að hundruðum milljóna króna sé kastað á glæ á hverju einasta ári. Það vita allir, að framleiðslutæki okkar eru aðeins hagnýtt að hluta af því, sem hægt væri. Bæði skipakostur okkar og einnig verksmiðjur til að vinna aflann geta framleitt langtum meira, en nú er gert. Það hefur t.d. verið talið af mönnum, sem hafa kynnt sér þessi mál, að það væri hægt að flytja út fyrir um það bil 200 milljónum meira, en nú er gert. Og önnur sóun, sem stendur auðvitað í sambandi við þessa, er það, að nú viðgengst það í sívaxandi mæli, að dýrmætustu eign þjóðarinnar, vinnuaflinn, sé sóað í mjög stórum stíl, að þúsundir og aftur þúsundir manna gangi atvinnulausir mánuðum saman. Þarna eru vissulega verðmæti, sem ríkisstj. ætti að hafa hug á að hagnýta og mundu auðvitað færa ríkisstj. tekjur í ríkissjóð.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. Barð. sagði, kom mér það nokkuð á óvart, að hann skyldi halda því fram, að ég legði til, að 1271/2 millj. kr. væri svipt út úr fjárl. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar ekki um neinar 1271/2 millj. kr., heldur um hluta af þeirri upphæð, eins og hv. þm. ætti að vera fyllilega ljóst. Þarna er lagt til, að innheimta þessi gjöld, vörumagnstoll og verðtoll, með vissu álagi, og álagið er auðvitað ekki upphæðin öll, heldur aðeins hluti af henni. Hins vegar kom hv. þm. einnig inn á það, að það væri furðuleg stefna að ætlast til þess, að tekjur ríkissjóðs væru frekar innheimtar með beinn, en óbeinu móti, og taldi, að með því væri raunverulega lagt til að drepa allt atvinnulíf í landinu, hvorki meira né minna. Mér hefur virzt um hæstv. ríkisstj., að hennar athafnir miðuðu einmitt frekar að því að lama atvinnulífið í landinu, en tillögur okkar úr stjórnarandstöðunni, og væri hægt að ræða það ýtarlegar. En það gefur auga leið, svo að ég minnist örlítið meira á þetta prinsipatriði, að þegar með þessum tveimur tollum, vörumagnstolli og verðtolli, eru innheimtar, eins og nú er gert, að meðaltali 1.000 krónur á hvert mannsbarn í landinu á ári, eða um 5.000 krónur á hverja fimm manna fjölskyldu, þá getur það út af fyrir sig ekki verið atriði fyrir slíka fjölskyldu, hvort hún borgaði þetta fé í matvörum sínum eða hún borgaði það beint. Auðvitað mundi allt vöruverð lækka sem þessum tollum svaraði, og tollaupphæðir eru, eins og kunnugt er, mjög stór hluti orðinn af vöruverðinu í landinu, í mjög mörgum dæmum þriðjungur og meira en það. En ef það væri farið út í beinu aðferðina, þá mundu þessi gjöld auðvitað leggjast á menn eftir tekjum þeirra; það yrði breytingin, þannig að þeir, sem minni hefðu tekjurnar, bæru minni byrðar. Ég veit, að hv. þm. skilur þetta fullvel, og ég vænti þess einnig, að hann vilji skilja það.