10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

21. mál, verðlag

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sagði, að tölur þær, sem ég hefði nefnt um álagningu á innfluttar vörur, væru vægast sagt lítið samvizkusamlega unnar. Sannleikurinn er sá, að þær eru nákvæmlega eins samvizkusamlega unnar og hægt er að gera á grundvelli þeirra skýrslna, sem hæstv. viðskmrh. lætur mönnum í té til þess að mynda sér hugmyndir um, hver álagningin hefur raunverulega orðið. Það má auðvitað alltaf segja, að áætlanir eins og þær, sem ég hef gert, séu ekki nákvæmar út í æsar, ekki upp á þúsund, tugi þúsunda eða 100 þúsund, jafnvel kannske ekki eina eða tvær milljónir, en sé það ekki, þá er það ekki mín sök, heldur sök þeirra manna, sem ekki búa nákvæmari eða betri skýrslur í hendurnar á þeim mönnum, sem áhuga hafa á að kynna sér og öðrum, hvernig ástand þessara mála raunverulega er.

Það væri verðgæzlustjóra og hæstv. viðskmrh. mjög vandalítið, og það væri einfalt verk fyrir þá að láta útbúa þessar skýrslur þannig að hægt væri að mynda sér mjög glögga og nákvæma hugmynd um, hver raunveruleg álagning á innflutningsmagnið hefur orðið, en það er ekki gert. Að því leyti er mönnum eins og mér, sem hafa áhuga á að gera sjálfum sér eða öðrum grein fyrir, hvernig þessum málum er háttað, torveldað að hafa upplýsingar um þetta eins nákvæmar og maður vissulega vildi kjósa. En því tek ég ekki þegjandi, að það sé sagt, að tölurnar séu ekki samvizkusamlega unnar, og ég endurtek það, að þær eru nákvæmlega eins samvizkusamlega unnar og hægt er að gera á grundvelli þeirra skýrslna, sem hæstv. viðskmrh. og hans embættismenn láta í té. Hitt er svo lítið þokkaleg iðja, að leggja fyrst fyrir menn tiltölulega ósundurliðaðar og ónákvæmar skýrslur og fárast síðan yfir því á eftir, að ekki sé hægt að fá á grundvelli þeirra hárnákvæmar tölur. Aðalatriðið er, að það, sem sagt er, sé í sem nánustu samræmi við skýrslurnar, sem fyrir liggja, og það fullyrði ég, að hver einasta tala, sem ég nefndi er. Vilji hæstv. viðskmrh. hafa þær nákvæmari, þá hefur hann í hendi sinni að gera grundvallarskýrslurnar nákvæmari, og þá skal ekki standa á mér að reikna nákvæmar.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rangt í eðli sínu eða villandi að gera almennt samanburð á erlendu innkaupsverði innfluttrar vöru og á álagningunni. Við hæstv. viðskmrh. vitum báðir mjög vel, hvernig bæði innflytjendur og smásalar reikna út söluverð vöru sinnar. Við þekkjum báðir, þótt af ólíkum ástæðum sé, nógu rækilega aðferðir kaupmanna við að „kalkúlera“ söluverð vöru sinnar. En ég hef þessa aðferð sem eins konar svar við þeirri aðferð, sem venjulega er beitt til þess að sýna fram á, að álagningin sé hófleg, og er sú að þylja upp álagningarprósenttölurnar í heildsölu og smásölu á kostnaðarverðið og nefna aðeins álagningarprósenturnar eins og innflytjendur og smásalar nota þær í sínum raunverulegu „kalkúlasjónum“. En það er miklu meira villandi, vegna þess að þar er algerlega gengið fram hjá því, hvers eðlis sá grundvöllur er, sem á er lagt, og þetta má skýra með ofur einföldu dæmi, sem raunar ætti ekki að þurfa að nefna hér á þessum stað.

Gerum ráð fyrir því, að heildsöluálagning á vefnaðarvöru hafi verið 15% hjá heildsala í einhverjum ákveðnum vöruflokki. Svo er þessi vara skyndilega tekin á bátalista, og heildsalinn kaupir hana, greiðir 50–60% álag á hana til bátaútvegsmanna, kaupir A-skírteini fyrir 50–60% álag. Ef hann leggur eftir sem áður á sömu prósenttölu, 15%, þá væri sá hlutur, sem hann fær fyrir sína þjónustu, auðvitað hærri sem nemur 15% á bátagjaldeyrinn, þannig að tekjur hans aukast nettó, þar sem verzlunarkostnaður hans eykst auðvitað að engu leyti við það eitt, að varan fyrir opinbera ákvörðun sé tekin af frílista og sett yfir á bátalista. Álagningarprósentan er sú sama, og þá er oft legið á því lagi að segja: Ja, álagningin hefur ekkert hækkað. — Þetta er auðvitað algerlega villandi, álagningin í krónum hefur hækkað, jafnvel þó að verzlunarkostnaðurinn hafi hækkað mjög lítið. — Auðvitað eykst vaxtakostnaðurinn, vegna þess að kaupmaðurinn liggur með meiri krónufjölda bundinn í sínum birgðum, og áhættan vex að sama skapi, en hitt er jafnaugljóst mál, að hans dreifingarkostnaður vex alls ekki í neinu samræmi við 15% álagið á bátagjaldeyrinn.

Þetta einfalda dæmi mætti endurtaka með því að taka fleiri vörutegundir til þess að sýna, að það er algerlega villandi að tala um álagningarprósentuna í sjálfu sér sem gefandi nokkurt sýnishorn um það, hver álagningin er í raun og veru. Um þetta gat ég í raun og veru áðan líka, það sama atriði, sem gerði það algerlega villandi að bera saman álagningarprósentur hér og í nágrannalöndunum. Það er ekki hægt að bera saman álagningarprósentur frá einum tíma til annars né í einu landi og öðru, einum stað og öðrum, nema því aðeins að hafa áður gert nákvæma rannsókn á kostnaðargrundvellinum, sem lagt er á, og þeim verzlunarkostnaði, sem álagningin ætti að vera greiðsla á. Öll uppromsun um álagningarprósentur án þess að hafa þetta í huga er út í bláinn — er fjarstæða. Og ég efast ekki um, að hæstv. viðskmrh. geri sér þetta fullkomlega ljóst — með sjálfum sér að minnsta kosti.

En hvernig á maður þá að gera sér grein fyrir því, hvort álagningin er raunverulega mikil eða lítil? Það eina, sem hægt er að gera og gerir álagningartölur að einhverju leyti sambærilegar frá einum tíma til annars og frá einu verzlunarsvæði til annars og einu landi til annars, er að bera saman álagninguna og innkaupsverðið — í krónum reiknað hvort tveggja eða hlutfallstölum. Þetta á auðvitað ekkert skylt við það, að mér og öllum, sem hér eru inni, er vafalaust ljóst, að þannig er ekki „kalkúlerað“ í viðskiptalífinu. Þetta er aðeins aðferð til þess að reyna að gera sjálfum sér og öðrum ljóst, hver álagningin í krónum reiknað er, og þá verður maður að hafa einhvern samanburð og það má alveg eins taka erlent innkaupsverð eins og hvað annað. Rangast af öllu er að bera álagninguna saman við kostnaðarverðið, þó að þeim verzlunarhætti sé fylgt í viðskiptalífinu af eðlilegum og praktískum ástæðum, — rangast af öllu er að gera það, því að það gefur engan skynsamlegan samanburð frá einum tíma til annars eða frá einu svæði til annars.

Hæstv. ráðh. sagði, að álagningin hér væri lægri, en hún væri í nágrannalöndunum. Þessa staðhæfingu sína byggir hann á samanburði á prósentutölunum, en það má vera alveg ljóst af því, sem ég hef sagt um þetta, að slíkan samanburð er bókstaflega ekkert að marka. Sú þjónusta, sem í boði er t. d. í nágrannalöndunum — berum t. d. saman við höfuðstaði Norðurlandanna — í verzlun, er yfirleitt gerólík. Það er ekki hægt að gera samanburð á prósentálagningu á vefnaðarvöru hér í Reykjavík við Kaupmannahöfn, Stokkhólm, London eða New York. Það er ekkert sambærilegt, vegna þess að sú þjónusta, sem aðilarnir veita fyrir sína álagningu, er gerólík. Verzlanir eru allt öðruvísi, vöruúrvalið gerólíkt, það er látin í té þjónusta, sem að engu leyti er sambærileg. Sönnu nær væri að bera álagningarprósentuna hér, í 60 þús. íbúa smábæ eins og Reykjavík, saman við álagningarprósentu í 60 þúsund íbúa bæ í Danmörku, Englandi, Svíþjóð eða Bandaríkjunum, þar sem látin er í té svipuð þjónusta og eitthvað svipað vöruúrval er á boðstólum. En hafi menn borið saman álagningu í höfuðborgum annars staðar og þorpum og bæjum úti á landi, kemur alls staðar í ljós, að álagningin í bæjunum og þorpunum er miklu lægri, en í höfuðborgunum, beinlínis af því að þjónustan, sem innt er af hendi, er allt önnur.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann teldi þá álagningu, sem nú væri yfirleitt tíðkuð, yfirleitt hóflega. Hann vék ekki að því, sem ég gat um áðan, að mig minnti, að rétt væri, að hann hefði sagt í umr. hér á hinu háa Alþingi, að hann teldi 10% álagningu á vefnaðarvöru í heildsölu vera hæfilega. Þetta mun hann hafa sagt meðan hann taldi sig hafa einhverja von um, að samkeppni mundi ef til vill þröngva álagningunni í heildsölu niður í 10% á vefnaðarvöru, en það er eins og hann kæri sig ekki um að standa við þetta, eftir að hann sér það, að raunveruleg álagning, eftir að hið margumtalaða jafnvægi á að hafa náðst í verzluninni, er enn þá 70% hærri, þ. e. a. s. 17,1%. Ég er sannfærður um, að hæstv. ráðh. er það ljóst, að þessi meðalálagning er of há, jafnvel þótt hann vilji ekki kannast við það nú.

Enn vék hæstv. ráðh. svolítið að gömlu verðlagsákvæðunum og ræddi um það, að þau hefðu verið orðin of lág, þegar gengislækkunin var samþykkt, og er ég honum í sjálfu sér sammála um það, en ég minni aftur á það, hverjir stóðu að þeirri ákvörðun. Það var hæstv. ríkisstj. sjálf, með núverandi hæstv. viðskmrh. í sama stól og hann nú situr í. Og þetta var gert að ráði sérfræðinga ríkisstjórnarinnar. Það, sem ég hef við þetta bætt er, að ég taldi nægilegt að hækka álagninguna tvívegis, eins og gert var, eftir að lögin um gengislækkunina höfðu verið samþykkt, og það töldu fulltrúar sjálfrar ríkisstj. í fjárhagsráði einnig vera nægilegt. Það er sjálf ríkisstj., sem átti frumkvæði að því, að gengið var lengra í þetta og verðlagsákvæðin afnumin algerlega.

Þá taldi hæstv. ráðh. það vera ný vísindi í hagfræði, að eðlilegt væri, að álagningarprósenta breyttist, ef viðskiptaveltan tæki verulegum breytingum. Ég verð nú að segja, að hann er ekki nákunnugur hvorki nýjum né gömlum vísindum í hagfræði, ef hann telur, að þetta séu ný fræði. Þar sem um algerlega frjálsa samkeppni er að ræða, leiðir það af sjálfu sér, að álagning lækkar, ef viðskiptaveltan vex mjög verulega, og hún hækkar aftur, ef viðskiptaveltan minnkar verulega. Og alls staðar þar, sem verðlagseftirliti hefur verið beitt, hefur einmitt verið tekið tillit til viðskiptaveltunnar við setningu verðlagsákvæða, og það er talið fært að lækka verðlagsákvæði, ef viðskiptaveltan fer mjög vaxandi, en talið óhjákvæmilegt að hækka þau, ef viðskiptaveltan fer verulega minnkandi. Ég veit, að ástæðan fyrir þessu er öllum ljós, og ég hefði vænzt þess, að hæstv. viðskmrh. yrði ekki mjög undrandi, þótt hann heyrði þetta sagt.

Aðalatriðið í meðferð þess máls, sem hér er um að ræða, er það, — og skal ég láta þetta verða mín síðustu orð að þessu sinni, — að eins og ástandið er nú orðið í viðskiptamálum Íslendinga, er óverjandi annað, en að taka upp verðlagseftirlit. Það er vitað, að vöruinnflutningur til landsins verður á næstunni skorinn mjög verulega niður, það verður ekki frjáls vöruinnflutningur til landsins á næstu mánuðum eða jafnvel næstu árum, og meðan svo er ekki, þá er það í ósamræmi við þær grundvallarkenningar, sem hæstv. ríkisstj. sjálf þóttist byggja á, þegar hún tók við völdum, að hafa ekkert eftirlit með verðlagi innfluttrar vöru.