10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (3142)

21. mál, verðlag

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er nú kunningi okkar frá fyrri tíð, því eins og stendur í upphafi grg., þá fluttu 3 þm. Alþfl. frv. samhljóða þessu á síðasta þingi. Það náði þá ekki fram að ganga, en þá var nú haft svo mikið við það mál, að um það voru hafðar útvarpsumr. við 1. umr. Hins vegar hefur þess ekki verið krafizt enn þá um þetta frv.

Það er efni málsins, að þarna er lagt til, að tekið verði upp á ný opinbert eftirlit með verðlagi á allri innfluttri vöru, innlendri iðnaðarvöru og þjónustu, eins og segir í grg. Þannig var þetta fyrir nokkru, eða á þeim tímum sem Alþfl. hafði forustu í ríkisstj. og viðskiptamálum, að þá var hér verðlagseftirlit, sem snerti allar vörur. Hins vegar var því að nokkru leyti aflétt í tíð núverandi hæstv. ríkisstj., en enn þá er þó verðlagseftirlit, enn þá er opinbert eftirlit með verðlagi á mörgum vörutegundum — ég hygg yfirleitt þeim vörum, sem ekki er hverjum sem er leyfilegt að flytja til landsins án leyfis frá fjárhagsráði. Aftur á móti hefur verið fellt niður eftirlit með verðlagi á vörum, sem gefinn hefur verið frjáls innflutningur á, þannig að hver sem er getur keypt þær til landsins. En eftirlit með verðlagi á þeim vörum vilja fim. þessa frv. taka upp aftur.

Hv. 1. flm. frv.. 3. landsk. þm., flutti hér alllanga ræðu af hálfu flm. og birti þar ýmsa útreikninga, sem hann hefur gert um verzlunarálagninguna. Mér þykir líklegt, að þeir útreikningar, sem hann telur sig byggja á skýrslum frá verðgæzlustjóra, séu rétt gerðir, þótt ég hafi ekki haft aðstöðu til að athuga það. En að því leyti sem hv. þm. gerir samanburð á álagningu þeirri, sem hann telur nú vera eftir upplýsingum verðgæzlunnar, við hina leyfðu álagningu á vörur, meðan þær voru allar háðar verðlagseftirliti, þá vil ég benda á, að þar hefur hann mjög laust undir fótum, því að það er öllum kunnugt, að á tímum haftanna, eða meðan þau náðu til allrar innfluttrar vöru, þá var oft ómögulegt að fá keyptar vörur nema greiða fyrir þær hærra verð, heldur en leyft var samkv. hinum opinberu verðlagsákvörðunum. Vöruskorturinn gerði það að verkum, að menn urðu oft og tíðum að kaupa vörur með óleyfilega mikilli álagningu, án þess að yfirvöldin gætu þar komið til bjargar, og var þetta á þeim tímum, sem flokkur hv. 3. landsk. hafði forustu í ríkisstj. og yfirstjórn viðskiptamálanna.

Að þessu leyti byggir hv. 3. landsk. samanburð sinn á sandi.

Hv. 3. landsk. þm. sagði auk margs annars í sinni framsöguræðu, þegar hann ræddi um það, hvað álagningin hefði hækkað frá því, sem áður var, að kaupfélögin hér á landi hefðu brugðizt. Þetta var dómur hans um þau yfirleitt, og hann tók þar ekkert undan. Ég fullyrði, að þetta hefur ekki við rök að styðjast. Þetta er sleggjudómur, sem hv. 3. landsk. þm. er ekki fær um að renna stoðum undir. Ég get skýrt hér frá því að gefnu þessu tilefni, að ég er nokkuð kunnugur einu kaupfélagi, sem hefur allmikil viðskipti eða hefur verzlunina að langmestu leyti í sínum höndum í því héraði, þar sem það er staðsett, og selur vörur ár hvert fyrir margar milljónir, útvegar félagsmönnum allar venjulegar nauðsynjavörur, sem almenningur þarf að nota, þ. á m. nauðsynjar til þeirrar framleiðslustarfsemi, sem rekin er í viðkomandi héraði. S. l. ár, 1951, var meðalálagning þessa kaupfélags á allar aðkeyptar vörur, sem það seldi á því ári, rúmlega 11%. Af þessari álagningu fengu félagsmenn í árslok endurgreitt 20%. 10% af álagningarupphæðinni fóru í sameiginlega sjóði félagsins samkv. landslögum. Hinn hluti álagningarinnar fór til að greiða kostnað við vörudreifinguna, og hann var innan við 8% að meðaltali af öllum seldum aðkeyptum vörum á árinu, og þó vil ég geta þess, að í þeirri álagningu er söluskatturinn innifalinn, sem kaupfélag þetta eins og aðrar verzlanir innheimtir fyrir ríkissjóð. Ég skal viðurkenna, að ég er ekki jafnvel kunnugur rekstri annarra kaupfélaga, en mér þykir þó mjög líklegt, að þetta sé ekkert einsdæmi, og ég held, að þetta ætti að nægja til þess að sýna það, að þessi dómur hv. 3. landsk., sem hann kvað upp hér í sinni ræðu, er ósanngjarn, hefur ekki við rök að styðjast. Hann nefndi nú að vísu sérstaklega eitt kaupfélag, Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis. Ég skal játa, að ég er ekki svo kunnugur rekstri þess kaupfélags, að ég vilji ræða um hann nú á þessari stundu. Ef til vill eru aðrir hér í hv. þingdeild því kunnugri, en ég verð að draga nokkuð í efa ummæli hans um það kaupfélag, og byggi ég það á því, að ég hef orðið var við það, eins og ég sagði nú áðan, að það er ekki takandi fullt mark á því, sem hv. 3. landsk. segir um þessa hluti að því er kaupfélögin almennt snertir.

Áður fyrr, á haftatímunum, þá var það svo, að kaupfélögin gátu ekki notið sín, vegna þess að þeim var meinað af yfirvöldunum að flytja inn þær vörur, sem félagsmenn þeirra þurftu á að halda og þeir óskuðu að fá hjá þessum sínum eigin fyrirtækjum. Þeim var meinað það að verulegu leyti. Þau geta ekki notið sín enn að fullu vitanlega, vegna þess að enn hefur ekki verið hægt að gefa frjálsan innflutning á öllum vörum, sem samvinnumenn og aðrir þurfa að nota, en mikill munur er þó nú frá því, sem áður var, þar sem verulegur hluti af innflutningnum hefur verið gefinn frjáls og kaupfélögin geta því fullnægt þörfum sinna viðskiptamanna fyrir þær vörur að öllu leyti nú.

Flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, eru þrír að tölu. Þannig var einnig á síðasta þingi. Sú breyting er þó á orðin, að á síðasta þingi var einn flm. formaður Alþfl., hv. 8. landsk. þm. Hann er ekki með á skjalinu nú. Í hans stað er kominn hinn nýkjörni hv. þm. Ísaf., sem er hér síðastur flm. á skjalinu. Ég varð satt að segja dálítið hissa á því, þegar ég sá hans nafn á þessu plaggi þar sem lagt er til að taka nú aftur upp opinbert eftirlit með verðlagi á öllum vörum. Ég varð nokkuð hissa á þessu vegna þess, að mér var kunnugt um það, að hv. þm. Ísaf. er samvinnumaður og hefur sýnt það í verki að undanförnu, að hann hefur verið og er ef til vill enn í stjórn stærsta samvinnufélagsins á Vestfjörðum, Kaupfélags Ísfirðinga, já, og jafnvel formaður þess. Þetta verzlunarfyrirtæki mun vera langstærsta viðskiptafyrirtækið í hans kjördæmi. Það hefur nú síðustu tvö árin, eins og önnur slík fyrirtæki, átt þess kost að flytja inn mikinn hluta af þeim nauðsynjavörum, sem félagsmenn kaupfélagsins þar fyrir vestan þurfa að nota og óska að kaupa, og hv. þm. Ísaf. er mjög vel kunnugt um það, að það er gersamlega þarflaust, að ríkið fari að kosta verðlagseftirlitsmenn til þess að líta eftir verðlagi hjá samvinnufélagi hans, Kaupfélagi Ísfirðinga. Það er alveg ástæðulaust og þarflaust að eyða starfsorku og peningum til þess eftirlits. Honum er einnig kunnugt um það, að þar sem þetta fyrirtæki er langstærsta verzlunin í hans kjördæmi. Ísafjarðarkaupstað, þá eru ekki möguleikar á því fyrir kaupmenn þar að okra á almenningi, jafnvel þó að einhverjir þar kynnu að hafa löngun til þess, sem ég er ekki að halda fram að þeir hafi, ég er ekki kunnugur þar.

Þeim, sem hlýddu á ræðu hv. þm. Ísaf. við nýafstaðnar fjárlagaumr., skildist það á ræðu hans, að hann teldi, að kostnaðurinn við ríkisreksturinn væri þegar nokkuð mikill og væri fremur þörf á að lækka hann heldur en að auka þar við að þarflausu. Mér þykir það því mjög undarlegt, að hv. þm. Ísaf. skuli nú leggja til sem meðflm. að þessu frv., að ríkið fari að auka kostnað sinn útlagðan við verðlagseftirlit, m. a. hjá hans fyrirtæki, sem engin þörf er að líta eftir af opinberri hálfu. Það er þannig með samvinnumenn, að þeir kæra sig ekkert um opinbert eftirlit með verðlagi á vöru, sem félögum þeirra er frjálst að flytja inn eftir óskum og þörfum félagsmanna.

Mér þykir líklegt, að því verði haldið áfram enn um sinn að hafa opinbert eftirlit með verðlagi á vöru, sem takmarkaður er innflutningur á. En þess vildi ég óska, og það býst ég við að samvinnumenn geri yfirleitt, að þeir tímar komi sem fyrst, að hægt sé að afnema viðskiptahöftin að fullu, og þá er um leið allt verðlagseftirlit orðið óþarft. Mér finnst því nú, að hv. þm. Ísaf. sérstaklega, sem hefur kunnugleika og reynslu í þessum efnum, hefði nú fremur átt að leggjast á sveif með öðrum samvinnumönnum og reyna að færa hv. 3. landsk. þm. og öðru fólki hér í landi, sem hefur takmarkaðan skilning á því, hvað almenningi er fyrir beztu í viðskiptaefnum, heim sanninn um það, að annað sé heppilegra, en opinbert verðlagseftirlit með öllum viðskiptum. Ef þeir telja, að það kauþfélag, sem er hér í Reykjavík, uppfylli ekki kröfur samvinnumanna um góða fyrirgreiðslu, þá ætti þeim að vera í lófa lagið að stofna til nýrra samtaka, hv. 3. landsk. þm. og öðrum höfuðstaðarbúum. Ég held, að flokksbróðir hans, hv. þm. Ísaf., hefði fremur átt að hvetja flokksbræður sína hér til einhverra skynsamlegra úrræða í viðskiptamálum hér í höfuðborginni heldur en að gerast meðflm. að þessu plaggi. Það hefði verið í meira samræmi við innræti hans og skilning á viðskiptamálum. Þess eru dæmi og þau ekki gömul hér á þingi, að þingskjöl hafi verið prentuð upp og jafnvel endurprentuð vegna þess, að flm. hefur ýmist fjölgað eða fækkað, sitt á hvað. Ég hef satt að segja verið að búast við því, síðan þetta frv. kom fyrir sjónir manna. að því yrði nú útbýtt uppprentuðu einhvern daginn, þar sem nafn hv. þm. Ísaf. hefði verið klippt aftan af.