10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (3144)

21. mál, verðlag

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er í tilefni af ummælum hv. þm. V-Húnv., að ég legg hér orð í belg, því að hv. 3. landsk. hafði fyllilega gert grein fyrir efni þessa frv., sem hér er til umr., og þar þurfti ég þess vegna engu við að bæta. En hv. þm. V-Húnv. lét það í ljós, að hann væri mjög undrandi á að sjá, að ég, sem væri samvinnumaður og einn af stjórnendum stærsta samvinnufélagsins á Vestfjörðum, skyldi láta það henda mig að vera meðflm. að þvílíku frv. sem þessu, rétt eins og þetta væri einhver skaðræðisárás á samvinnuhreyfinguna í landinu. En hví láðist þá hv. þm. V-Húnv. að skýra það fyrir þingheimi, í hverju þessi árás á samvinnustefnuna í landinu væri fólgin? Það er alveg áreiðanlegt, að það reynist honum um megn að sýna nokkrum heilvita manni fram á það, að hér sé verið að ráðast að samvinnuhreyfingunni eða að andi þessa litla frv. stígi á nokkurn hátt á strá hennar. Ég get sagt honum það strax, að ég ber engan kinnroða fyrir það að vera meðflm. að slíku frv. og hefði ekki gert það, þótt ég hefði verið aðalflm. Ég er mjög undrandi á því, að hann skuli snúast gegn þessu frv. Mér er nær að halda, að þótt ákvæði væru sett inn í lögin um verðlagseftirlit og verðlagsdóm, þá mundi það að ákaflega litlu leyti snerta samvinnufélögin. Það yrðu aðrir, sem þá rækju upp óp, heldur en samvinnumennirnir í landinu. Það yrðu okrararnir, og þeir eru ekki innan raða samvinnuhreyfingarinnar, vænti ég, fyrst og fremst. Ég hygg, að það ættu heldur að vera aðrir, sem kvörtuðu, heldur en gamlir og góðir og grónir samvinnumenn, þegar frv. er flutt í þeim tilgangi að halda í hemilinn á skefjalausu verðlagsokri í landinu, sem hann og við allir vitum að á sér stað í þessu landi.

Það er alveg hárrétt, sem hv. 3. landsk. tók hérna fram í sinni svarræðu núna, að það eru stórir, viðtækir vöruflokkar, sem eru fluttir inn af þeim, sem hafa yfir bátagjaldeyri að ráða, sem kaupfélögin að ákaflega litlu leyti hafa. Einmitt eru slíks dæmi af kaupsvæði Kaupfélags Ísfirðinga frá s. l. ári og næsta ári á undan. Þá var rutt þar inn af kaupmönnum alls konar rafmagnsvörum, sem hafði skort í landið lengi og menn höfðu sótzt mjög eftir að fá, hrærivélum, ísskápum, þvottavélum o. s. frv., áreiðanlega fyrir mörg hundruð þúsunda á kaupsvæði Kaupfélags Ísfirðinga, og selt með geysilegu verði, sem var miklu hærra, en svartamarkaðsverðið hafði verið á þessum vörum áður. Kaupfélag Ísfirðinga hafði ekki getað náð þessum vörum gegnum S. Í. S. Sambandið hafði látið líklega um, að það ætlaði að útvega þessar vörur, en þó leið allt það ár, án þess að vörurnar kæmu, og Kaupfélag Ísfirðinga gat ekki látið neina af sínum félagsmönnum fá þessar vörur. Þær voru þess vegna seldar alveg inn á kaupsvæði Kaupfélags Ísfirðinga með okurverði kaupmennskunnar eins og hún verst gerist, án þess að þetta félag gæti við nokkuð ráðið eða verið þar neinn hemill á. Þarna þurfti verðlagseftirlit á þessar vörur, og þær eru margar fleiri, vörurnar, þar sem þarf að taka fram fyrir hendurnar á þeim kaupsýslumönnum, sem ekki gæta hófs í álagningu, og binda það annaðhvort með hámarksverði eða ákvæðum í lögum um hámarksálagningu. Og þessar ástæður standa því miður allar í gildi enn í dag.

Þegar hv. þm. V-Húnv. gerir mér og þingheimi grein fyrir því, að það geti komið samvinnuhreyfingunni í landinu illa, að samþykkt væri frv. sem þetta, þá get ég verið til viðtals um það að vera ekki flm. að slíku frv., því að ég vil ekki valda samvinnuhreyfingunni í landinu tjóni. En ég er alveg sannfærður um það, að þótt settar væru skynsamlegar reglur um hámarksálagningu á vörur og um hámarksverð á vörum, þá mundi það ekki snerta kaupfélögin né skaða neitt þeirra starfsemi. Það mundi einmitt leiða til þess, að fólk sæi, að kaupfélögin væru með sitt verðlag innan þessa löglega ramma og það væru aðrir, sem lentu utan við rammann og lögin kæmu því til með að snerta.

Hv. þm. vék því að 3. landsk., Gylfa Þ. Gíslasyni, að ef eitthvað væri að athuga við starfrækslu Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, Kron, ætti hann og einhverjir með honum að stofna til nýrra samtaka hér í Reykjavík. Hví talar hv. þm. V-Húnv. svona ókunnuglega um samvinnumál? Veit hann ekki, að það er meginstefna Sambandsins, að það sé aðeins eitt kaupfélag í hverjum bæ? Og ég efast um, að samþykki S. Í. S. fengist fyrir því, að hér í Reykjavík væri stofnað annað kaupfélag. Þetta veit hv. þm. V-Húnv. vel. Það væri andstætt reglum Sambandsins, eins og þær hafa verið til þessa. Hvað það snertir, hversu skynsamlegar þær reglur eru, skal ég svo ekki leggja dóm á, þegar um jafnstóra borg er að ræða eins og Reykjavík.

Það kemur ekki til mála, að það standi neitt til að prenta þetta frv. upp og klippa mitt nafn aftan af því, því að það er ekki þar komið í neinum misgripum, en ef hv. þm. V-Húnv. eða einhverjir, sem hann þekkir til, hafa orðið fyrir því slysi að verða meðflm. að frv., sem hann samþykkir ekki að efni til, þá samhryggist ég honum um það.