13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (3148)

21. mál, verðlag

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. lét enn í ljós undrun sína yfir því, að ég skyldi vera meðflm. að frv., sem fer fram á það, að komið verði aftur á verðlagseftirliti og þannig haft fullt eftirlit með því af ríkisins hálfu, að ekki sé óhóflegt verðlag á vörum landsmanna. Ég held, að þetta sé meira fyrir þrákelkni sakir heldur en af því, að hv. þm. sjái ekki, að kaupfélögunum getur þetta á engan hátt verið til óhagræðis, þó að slíkt frv. verði samþykkt, ef þau á engan hátt hafa verðlag hærra á þeim vörum, sem þau selja fyrir landslýðinn, heldur en gott hóf er á. Og það er ég honum sammála um, að kaupfélögin muni yfirleitt ekki gera.

Það má vel vera, að hann og ég teljum það nokkuð óþarft, að launaðir starfsmenn verðlagseftirlits ríkisins væru að snatta dögum og vikum, kannske mánuðum saman, í kaupfélögum til að gá þar að, hvort kaupfélögin héldu sér innan verðlagsákvæða með sína verðlagningu, en það eru aðrir menn í landinu, sem tortryggja kaupfélögin rétt á sama hátt eins og við tortryggjum ýmsa kaupmenn, og ég tel það bara ávinning fyrir samvinnuhreyfinguna í landinu, ef ríkið hefði sent út sína verðgæzlumenn og í hvert einasta skipti komizt að þeirri niðurstöðu og fengið okkur í hendur sannanir fyrir því, að kaupfélögin brytu ekki af sér, þeim mætti treysta, og þá teldi ég þessa vinnu ekki til einskis framkvæmda. Svo er annað atriði og það er flestum kunnugt, að kaupfélögin þjást nú af rekstrarfjárskorti. Þau líta á það sem sitt höfuðhlutverk að útvega félagsmönnum sinum hinar brýnustu nauðsynjavörur. Þau geta ekki vegna rekstrarfjárskorts haft slíka fjölbreytni sem æskileg væri í vöruútvegun sinni. Það verður því þannig með æ fleiri vöruflokka vegna þessa rekstrarfjárskorts kaupfélaganna og samvinnuhreyfingarinnar, að kaupmenn eru einir með fjöldamargar vörutegundir og ráða þannig einir verðlagi á þeim. Þetta verðlag vill stundum fara nokkuð úr hófi fram. Hér vantar verðlagseftirlit. Og geta kaupfélögin, þótt þeim sé á engan hátt vantreyst, þar engu um ráðið. En þessa hafa landsmenn orðið að gjalda á undanförnum mánuðum, síðan verðlagseftirlitið var afnumið.