06.10.1952
Neðri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (3152)

22. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta mál mörg orð. Það hefur legið fyrir fyrr hér í þessari hv. deild, en því miður ekki náð fram að ganga, svo að efnislega er hv. þdm. þetta frv. áður vel kunnugt. En það fer í stuttu máli fram á það, að lögfest verði 12 stunda hvíld fyrir togarasjómenn, í stað þess að nú eru í lögum ákvæði um, að lágmarkshvíldartíminn skuli vera 8 klst. á sólarhring. Það hafa, eins og ég sagði, verið færð áður fram ýtarleg og skýr rök fyrir nauðsyn þess, svo að ég skal ekki fara lengra út í þá hlið málsins. En mig langar til aðeins að minna á það, sem sagt var í umræðunum á síðasta þingi út af þessu máli.

Frsm. frv. sagði þá svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eins og bent er á í greinargerð frv., getur svo farið nú, að gildandi samningum verði sagt upp, og stendur yfir atkvgr. um það, hvort svo skuli gert. Ef til nýrra samninga kemur, verður hvíldartíminn mikilvægt atriði, og ég veit með vissu, að sjómenn munu halda til streitu kröfu sinni um 12 stunda hvíld á öllum veiðum. Ef löggjafarvaldið leysir ekki þetta mál, getur það haft í för með sér langa og harðvítuga vinnudeilu, en á því græða engir nema óþurftarmenn þjóðfélagsins.“ Þetta hefur komið svo nákvæmlega fram eins og maður getur hugsað sér.

Það varð á þessu ári öndverðu hörð deila milli togaraeigenda og sjómannafélaganna um einmitt fyrst og fremst hvíldartímann. Eftir að þessi átök höfðu staðið um æðilangan tíma og ég vil segja um óþarflega langan tíma, tókst að ná samningum einmitt á þeim grundvelli, sem þetta lagafrv. gerir ráð fyrir og eins og það hefur áður gert ráð fyrir, þannig að átökin mundi gersamlega hafa verið unnt að spara, ef Alþingi hefði borið gæfu til að lögfesta frv. eins og það hefur legið hér fyrir á undanförnum þingum. Það hefur sem sagt orðið sú niðurstaða af þeim samningaviðræðum, sem áttu sér stað síðast á milli togaraeigenda og sjómannafélaganna, að þeir hafa tekið upp í samninga sína nú ákvæði um 12 stunda hvíld á togurum á öllum veiðum. En þetta er ekki nema samningsatriði og getur þess vegna enn í samningaumræðum í framtíðinni orðið nýtt deiluefni hvenær sem er og valdið þar harðvítugum átökum. Það er alveg óhætt að slá því föstu, að sjómenn munu ekki sætta sig við, að þetta ákvæði, sem þeir hafa nú fengið inn í samninga sína, verði þaðan burt numið, á meðan ekki eru lög sett um þetta efni, og alls ekki víst, að togaraútgerðarmenn muni að óreyndu sætta sig við að taka þetta upp í samninga á ný, svo að deilan getur blossað upp hvenær sem er á ný og valdið óbætanlegu tjóni og erfiðleikum. Til þess að koma í veg fyrir þetta er frv. flutt, og ég vildi nú óska þess, að þessi hv. deild og Alþingi í heild bæri gæfu til þess að samþ. frv., svo að til þeirra átaka þyrfti ekki að koma.

Ég tel svo, eins og ég sagði í upphafi, óþarfa að hafa um þetta fleiri orð. Málinu hefur verið lýst hér áður mjög rækilega, og ég sé enga ástæðu til að endurtaka það nú. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.