20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

34. mál, atvinnubótasjóður

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það er vissulega satt, sem segir í upphafi grg. fyrir þessu frv., að það hafi orðið vart atvinnuleysis hér á landi nokkur undanfarin ár, og sízt er of djúpt tekið í árinni, þó að þetta sé orðað á þann veg. Það er vitanlegt, að sérstaklega tvö síðustu árin hefur verið allalvarlegt atvinnuleysi víða um landið og virðist hafa farið vaxandi eftir því, sem lengur líður. — Svo halda hv. flm. þessa frv. áfram í grg. sinni og segja að þessu valdi ýmsar ástæður, og er það rétt. En þeir telja fram tvær ástæður, sem þeir vilja fyrst geta um, þ. e. „aflabrest hjá sumum greinum útvegsins og þá fyrst og fremst á síldarvertíð fyrir Norðurlandi“ — og þetta er rétt, — en síðan er bætt við: „erfitt veðurfar hefur einnig átt nokkurn þátt í atvinnuerfiðleikum til lands og sjávar“. Úr þessu atriði vil ég ekki gera ýkjamikið, ekki frekar en vanalegt er á okkar nokkuð óveðrasama landi, þar sem svo er oft, að það eru landlegudagar við sjóinn, og eins er við suma útivinnu, að ekki er jafnmikið hægt að stunda hana á öllum tímum ársins. En það er vissulega ekki þetta sérstaka fyrirbæri, sem hefur orðið til þess að skapa atvinnuleysi á Íslandi. En mér virðist, að hv. flm. gangi fram hjá einu miklu atriði, sem vissulega hefur átt sinn þátt í því að skapa atvinnuleysi á Íslandi undanfarin ár, og það er sú stjórnarstefna, sem hér hefur verið upp tekin hin síðustu árin.

Það gefst vafalaust til þess betra tækifæri síðar á hv. Alþingi að ræða um stjórnarstefnuna og áhrif hennar á hag almennings í landinu, en ég ætla þó, að það sé ekki nokkrum vafa bundið, að margt er það í stefnu núverandi ríkisstj., sem beinlínis hefur haft það í för með sér, að það hefur skapazt aukið og vaxandi atvinnuleysi á Íslandi. Ég vil þá einmitt tilnefna, eins og hv. 1. flm. drap á, hvernig iðnaðarmálum okkar er komið á seinustu tímum og hvern þátt stjórnarstefnan hefur átt í því að skapa það aukna atvinnuleysi, sem orðið hefur í iðnaðinum. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, en vil aðeins segja það, að sá — ég vil segja skipulagslausi, þó að það fari í taugarnar á mörgum mönnum, sem tala um skipulagsbundinn innflutning og skipulagsbundinn útflutning, — en ég vil aðeins segja, að sá skipulagslausi innflutningur, sem verið hefur hin síðustu árin og hefur leitt til þess, að hrúgað hefur verið inn í landið m. a. miklu af fullunnum iðnaðarvörum, samtímis því sem lagður hefur verið hár tollur á efni til iðnaðarvarnings fyrir íslenzkan iðnað, hefur átt verulegan þátt í því að skapa atvinnuleysi í iðnaðinum íslenzka. En ég skal ekki við þessa umr. málsins, af því að það snertir þetta ekki nema óbeint, fara langt inn á þessi atriði öll, en ég vildi aðeins undirstrika það, út af því, sem segir í þessari grg., að hægt hefði verið og með miklum sanni að telja upp aðrar og að sumu leyti áhrifaríkari ástæður fyrir því, að atvinnuleysi hefur skapazt hér á landi. heldur en það, sem flm. frv. benda á, og þá sérstaklega það atriði, er varðar veðráttufarið. Úr hinu vil ég ekkert draga, heldur undir það strika, að aflabrestur, sérstaklega á síldarvertíð, sem verið hefur nú raunar átta síðustu árin og var hér 5–6 ár áður en fór nokkuð verulega að bera á atvinnuleysi á Íslandi, — að þessi aflabrestur hefur í sumum verstöðvum landsins átt mjög mikinn þátt í því að skapa þar örðuga atvinnuhætti. En sem sagt, frá mínum sjónarhól séð er gengið fram hjá kannske áhrifaríkustu ástæðunum fyrir því, að atvinnuleysi hefur skapazt á Íslandi. Þess vegna vildi ég vekja athygli á því, sem mér finnst á vanta í grg. hv. flm. varðandi þetta atriði, en mun ekki varðandi þetta mál, nema gefist frekara tilefni til, fara inn á það nánar, því að eins og ég sagði áður gefst vafalaust tækifæri til þess hér á Alþingi síðar að ræða um áhrif núverandi stjórnarstefnu á atvinnuhætti landsmanna og afkomu fólksins í landinu yfirleitt, og mun það áreiðanlega verða gert áður en þessu þingi lýkur. En hitt vil ég undirstrika betur með flm., að það hefur orðið vart atvinnuleysis hér á landi undanfarin ár, og ég vil undirstrika það líka, sem hv. flm. þessa frv. segja hér aftarlega í grg., að mestu máli skipti, að unnt sé að koma í veg fyrir, að atvinnuleysi skapist. Þetta er vissulega sannmæli og aldrei of oft undirstrikað og aldrei of mikið gert til þess að sýna í verki þann vilja að hindra atvinnuleysið.

En þegar ég nú hef aðeins drepið á þetta, hvers mér finnst ávant í grg., þá skal ég snúa mér að sjálfu frv. og skal þá byrja á því að lýsa ánægju minni yfir framkomu þessa frv. Hvað sem að öðru leyti má segja um það, að það hefur oft verið þörf, en nú nauðsyn að gera einhverjar slíkar úrbætur eins og frv. gerir ráð fyrir, og hvað sem líður því, af hvaða ástæðu þetta atvinnuleysi hefur skapazt, þá erum við sammála, flm. og ég, um það, að þörf sé úrbóta og það sé þörf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Og ég endurtek það aftur: Ég fagna framkomu þessa frv., og ég álít það spor í rétta átt, að ríkið leggi af mörkum ákveðið fjárframlag til þess að stuðla að því, að meiri og betri atvinna megi skapast á þeim stöðum sérstaklega, þar sem hefur orðið vart alvarlegs atvinnuleysis. Og ég álít það líka rétt og er sammála fim. frv. um það, að það sé sjálfsagt og eðlilegt að gera ráð fyrir því, að sá hluti af mótvirðissjóðnum, sem þeir ræða um í frv. sínu, verði lagður fram til þessarar sjóðmyndunar. Sem sagt, hugmyndin í frv., sem hér liggur fyrir, er góð, og ég og við Alþýðuflokksmenn munum styðja hana, eftir því sem við bezt getum. Það má að vísu segja, að það gæti verið matsatriði, hvort orða bæri öðruvísi niðurlag 1. gr. frv. um það, hverjir ættu að fá það fé að láni, sem gert er ráð fyrir að safnist í atvinnubótasjóðinn, en það er þó frá mínu sjónarmiði ekki neitt aðalatriði. Það er kannske ekki alveg skýrt, þó að segja megi það, að félagssamtök sé vítt hugtak, að það nái t. d. jafnt til samvinnufélaga, hlutafélaga og sameignarfélaga, og vildi ég mega vænta þess, að svo væri, því að ég álít, að einmitt samvinnufélög, hlutafélög og sameignarfélög, sem reka atvinnu á stöðum, þar sem örðugt er um atvinnu, ættu að eiga þess kost að geta fengið lán úr sjóðnum á þann hátt og í þeim tilgangi, sem gert er ráð fyrir í frv. En það er sem sagt mikið aukaatriði og mætti lagfæra, ef þurfa þætti, í meðferð þingsins á þessu máli. sérstaklega þá niðurlag 1. gr. frv., sem þó mætti ef til vill skilja á þann veg, að ég teldi, að þar væru allar leiðir nægilega opnaðar til þess, að þeir fengju lán, sem helzt væru líklegir til þess að nota það á þann veg til að hrinda áfram atvinnuframkvæmdum á atvinnuleysisstöðum.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri við þessa umr. málsins, en vildi taka þetta fram strax þegar frv. var hér til 1. umr., en þó vildi ég að lokum mjög undirstrika niðurlag greinargerðar frv., þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Það er von flm., að um þetta mál geti tekizt gott samkomulag, þannig að það fái skjóta afgreiðslu.“ Ég vil mjög taka undir þessi orð í niðurlagi grg., og ég vil heita ótrauðu fylgi Alþfl. til þess, að þetta frv. geti fengið skjóta og góða afgreiðslu, og þar sem svo margir áhrifaríkir og skeleggir menn flytja frv. og eiga að baki sér væntanlega stærsta þingflokkinn hér á Alþ., þá vildi ég mega vænta þess, að engin vandkvæði yrðu á að hrinda þessu máli áleiðis. Ég vildi fyrir mitt leyti hjálpa flm. til að auglýsa ágæti þessa frv., þar sem væri hægt að koma því við, en það er ekki nægilegt, jafnvel þótt sé fyrir nýjar alþingiskosningar, að auglýsa ágæti nýrra mála, sem fram koma á Alþingi. Mest er undir því komið, að málin séu flutt á þann veg og njóti þess stuðnings í Alþingi, að þau nái fram að ganga, og ég er ekki að draga það í neinn vafa, að hv. Sjálfstfl. muni fylgja þessu máli vel og einarðlega, og þá vildi ég mega vænta, að samstarfsflokkurinn í ríkisstj. mundi ekki vera sérstaklega óvinsamlegur stóru máli samstarfsflokks síns, og þar sem ég geri ráð fyrir því, að þeir fulltrúar íslenzkra kommúnista, sem hér eiga sæti á Alþ., muni ekki vera þessu máli óvinsamlegir, þá held ég, að það væri alveg öruggt, sem stæði í niðurlagi frv., að það ætti að takast um það gott samkomulag og það fá skjóta og góða afgreiðslu. Að því vildi ég vinna með hv. flm. þessa frv., og vona ég, að niðurlagsorðin í greinargerðinni verði að áhrínsorðum á yfirstandandi Alþingi.