24.10.1952
Neðri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

9. mál, tollskrá o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú við, að hæstv. fjmrh. mundi hafa svo mikið við að segja að minnsta kosti nokkur orð, um leið og frv. um framlenginguna á vörumagnstollinum og verðtollinum væri lagt fyrir d., en hann hefur nú ekki gert það. Innihald þessa frv. er að framlengja óbreytta vörumagnstollinn og verðtollinn, tolla, sem gefa ríkinu á annað hundrað milljóna króna, tolla, sem hvað eftir annað er búið að lofa að lækka, og samtímis hefur hæstv. ríkisstj. lofað þinginu að láta athuga mjög gaumgæfilega um aðrar leiðir um tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Hins vegar heyrist ekki eitt orð viðvíkjandi endurskoðun skattakerfisins og ekki eitt orð frá ríkisstj. um að, að neinu leyti sé tilætlunin að reyna að létta einhverju af þeim tollum, sem þyngst hvíla á almenningi, og það verður að telja slíkt mjög illa farið. Það er engum vafa bundið, að dýrtíðin er orðin það tilfinnanleg fyrir fólkið í landinu, að þess væri full þörf, að nokkuð væri farið að reyna að létta að minnsta kosti á þeim tollum, sem fyrst og fremst hvíla á aðalnauðsynjavörunum. Ég vildi þess vegna aðeins geta þess, um leið og ég lýsi yfir því, að ég er andstæður þessari 1. gr. óbreyttri, — og Sósfl. hefur verið það á undanförnum þingum, — að ég mun gera brtt. viðvíkjandi því, þegar þetta mál kemur til fjhn., sem ég geng út frá, að það fari nú til, en vildi hins vegar aðeins segja þessi fáu orð við þessa fyrstu aðalumræðu málsins.