17.10.1952
Neðri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

67. mál, veitingaskattur

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta þingi. Var því vísað til fjhn., en dagaði þar uppi.

Eins og tekið er fram í grg. frv., var með lögum nr. 99 frá 1933 ákveðið, að greiða skyldi 10% skatt til ríkissjóðs af söluverði matfanga, drykkjarfanga og annarra neyzluvara, sem seldar eru á greiðasölustöðum. Mun þessi skattur á sínum tíma hafa verið sniðinn eftir danskri fyrirmynd og litið á hann sem nokkurs konar lúxusskatt. Skattur þessi hefur komið nokkuð hart niður á allri veitinga- og gistihúsastarfsemi í landinn, og getur vart talizt sanngjarnt eða hagkvæmt að halda honum við, þar sem veitingasala hefur yfirleitt ekki verið neinn gróðavegur hér á landi og sízt utan Reykjavíkur.

Á síðustu árum hefur mjög verið leitazt við að fá erlenda ferðamenn hingað til landsins. Ef takast á að gera Ísland að ferðamannalandi, þarf að hlúa að hótelrekstri og heilbrigðri veitingastarfsemi í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þetta við þessa umr., enda gerði ég grein fyrir því á síðasta þingi. Ég mælist til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn.