16.10.1952
Neðri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (3206)

72. mál, byggingarsjóður kauptúna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa því yfir við þessa 1. umr. málsins, að ég tel, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé mjög virðingarverð tilraun til að leysa eitt af meiri háttar vandamálum, sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, sem er bygging hæfra og ódýrra húsa fyrir þá menn, sem búa við húsnæðisskort. Ég get þess vegna fyrir mitt leyti fagnað framkomu þessa frv. og vænti þess, að þetta Alþ. afgreiði það nú, jafnvel þó að þurfi að taka til athugunar væntanlega einhverjar breytingar á sjálfu frv.

Ég geri ráð fyrir því, að með þessu móti, ef frv. yrði samþykkt í líkri mynd og það liggur nú fyrir, mundi dálítið létta á byggingarsjóði verkamanna, sem starfað hefur frá 1930, en hann hefur því miður ekki nándar nærri getað fullnægt þeirri miklu þörf fyrir nýtt og ódýrt og hentugt húsnæði, sem er alls staðar fyrir hendi, bæði í kauptúnum og kaupstöðum, eða a. m. k. á flestum stöðum. Ég hef að vísu ekki athugað og ekki fengið upplýsingar hjá starfsmanni byggingarsjóðs verkamanna, hversu mörg þau þorp. sem hér eru talin upp á fskj. í sambandi við þetta frv., hafa notið lána frá byggingarsjóði verkamanna, en eftir mínu minni sem eins af stjórnendum byggingarsjóðsins telst mér til, að það muni nú vera ¼–¾ af þeim þorpum, sem hér eru upp talin, sem hafa hlotið einhver lán til byggingar verkamannabústaða, að vísu flest þeirra ekki til margra íbúða og ekki mikið á hvern stað. Það mundi því vissulega létta á byggingarsjóði verkamanna, og er þess brýn þörf.

Hitt er svo annað mál, hvort ekki þyrfti að athuga í sambandi við þetta frv. að setja það í ákveðnari tengsl við byggingar verkamannabústaða og byggingarsjóðinn heldur en þarna er gert í frv., því að þar finnst mér fulllosaralega um búið. Annars vegar er talað um það, að þorpin njóti eftir sem áður möguleika til þess að fá lán úr byggingarsjóði verkamanna, en hins vegar er í niðurlagi 9. gr. frv. gert ráð fyrir, að ef lagt verður það gjald á hreppsfélögin, sem heimilað er í 9. gr., þá eigi að greiða hreppunum eða þorpunum til baka þau framlög, sem þau kynnu að hafa innt af höndum til byggingarsjóðs verkamanna. Er það talsvert vafasamt, að það geti orðið, a. m. k. meðal þeirra þorpa, sem fengið hafa lán úr byggingarsjóði verkamanna, að þau ættu þá að fá endurgreitt úr byggingarsjóðnum það framlag, sem þau hefðu til hans greitt, sem kynni að vera mun minna en það lánsfé, sem þau hafa fengið til byggingar verkamannabústaða. En þetta er allt til athugunar.

Svo hefði ég kosið fyrir mitt leyti líka, að skýrari og fyllri ákvæði hefðu verið í 5. gr. frv. um þessar fyrirhuguðu byggingar. Þar er talað um að lána fé efnalitlum mönnum og þá einkum fjölskyldumönnum í kauptúnum til eigin nota. Það eru engar reglur um það, hverja telja eigi efnalitla o. s. frv., en að vísu er gert ráð fyrir í frv., að sett verði reglugerð, sem útfylli það, sem á vantar í lögunum. En ég hefði þó talið réttara að athuga, hvort ekki væri rétt að hafa fyllri ákvæði varðandi ýmis atriði í 5. gr. frv. Þar er verið að tala um íbúðir til eigin nota, og það er ekki talað um stærð húsanna heldur. Að mínu viti þyrfti að koma til athugunar um stærð húsanna, líkt og er um verkamannabústaðina, því að þar eru nokkur ákvæði, og einnig í löggjöfinni sem gildir um fyrirgreiðslu við byggingu smáíbúða. — Þá er ekki talað um það heldur í 5. gr., sem kæmi líka til athugunar, hvort ekki væru leyfðar sambyggingar, jafnvel í smáfélögum eða samtökum manna innan þorpanna, sem féllu þó undir þessi ákvæði í frv., þannig að þau gætu notið lána úr þeim fyrirhugaða sjóði, sem gert er ráð fyrir eftir frv. að stofnað sé til.

En þetta eru allt aukaatriði frá mínu sjónarmiði. Hitt er aðalatriðið, sem ég fyrir mitt leyti vildi lýsa samþykki við, og það er að gera frekari tilraun, en gert hefur verið til þessa til að leysa húsnæðisvandamálin, sérstaklega í þéttbýlinu, í kaupstöðum og kauptúnum. Ég veit, að það eru húsnæðisvandamál líka í dreifbýlinu, í sveitunum, en það er önnur löggjöf og aðrar reglur, sem um það gilda, aðrar lánsfjárútveganir, sem verið er nú eiginlega frá hverju ári til annars að greiða fyrir að gætu orðið meiri og notadrýgri. Það er sem sagt þetta höfuðatriði, að hér er verið að mínu viti að gera virðingarverða tilraun til þess að greiða fyrir byggingum umkomulítilla manna í kauptúnunum, og ég vil mjög taka undir það með hv. þm. N-Þ., að það er kannske of lítill gaumur gefinn og of lítið gert að því að gera möguleikana fyrir þá, sem flutzt hafa í þorpin í kringum strendur landsins, þannig, að þeir væru ekki svo aumir, að fólkið þyrfti af þeim ástæðum að flýja þaðan. Sums staðar eru verstöðvarnar, sem bundnar eru við þorpin, einhverjar beztu verstöðvar hér á landi, og það er sannarlega þess vert, að athugað sé, hvort almannavaldið getur ekki á einhvern hátt greitt fyrir því, að fólkið geti setzt að í þorpunum og lifað þar því lífi, sem er því sæmandi.

Ég vildi sem sagt lýsa ánægju minni yfir framkomu þessa frv. og heita hugmyndinni stuðningi Alþfl., og þar sem þetta frv. er flutt af áhrifamönnum í öðrum stjórnarflokknum og ég geri jafnvel ráð fyrir, að stjórnarandstaðan muni vera fylgjandi hugmyndinni, þá vona ég, að ekki muni á skorta um, að þessi löggjöf geti náð fram að ganga á þinginu. Ég get f. h. Alþfl. heitið þessu frv. meðmælum og vinsamlegum stuðningi, og þá vænti ég, að svo fari sem hv. 1. flm. mæltist til, að þetta frv. nái fram að ganga á Alþingi og að þeir virðulegu fulltrúar úr öðrum stjórnarflokknum, sem það flytja, hafi þar líka stuðning síns eigin flokks og þá væntanlega samherjanna líka, sem standa að núverandi ríkisstj., þar sem ég geri ráð fyrir því, að samkomulag á milli stjórnarflokkanna sé svo gott, að annar geti þá sannfært hinn, ef eitthvað skortir á fullan skilning eða velvilja. Þegar ekki stendur á stjórnarandstöðunni, þá mætti ætla, að stjórnarflokkarnir gætu komið slíku máli heilu í höfn.