20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3213)

77. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég og hv. 2. þm. Skagf. flytjum á þskj. 86, um stofnlánadeild landbúnaðarins, er að nokkru leyti kunnugt hér í þessari hv. d., því að frv. um þetta sama efni var af minni hálfu flutt á síðasta þingi og gekk þá í gegnum þessa d., en varð ekki afgr. í hv. Ed. Frv. er nú að nokkru leyti með þeim svip, sem skilið var við það hér í hv. Nd. í fyrra, en að nokkru leyti er þó breyting á gerð. Sú aðferð, sem ég ætlaði mér samkv. frv. í fyrra, var í aðalatriðum á þá leið, að þessi stofnlánadeild landbúnaðarins fengi tækifæri á því að taka við sparifé, sem ekki væri skattað og ekki þyrfti að telja fram til skatts. Þessu var breytt hér í hv. Nd., þannig að þótt því væri haldið, að þetta fé væri skattfrjálst, þá yrði að telja það fram til skatts, og þá um leið eru tækifæri til þess nægileg að leggja á það útsvör eins og annað fé. Þessa aðferð höfum við flm. nú tekið upp í frv., eins og það liggur hér fyrir, en að öðru leyti bætt inn till. um hærra framlag frá ríkissjóði heldur en var í frv. í fyrra, þannig að við förum fram á, að ríkissjóður láni þessari stofnlánadeild landbúnaðarins 5 millj. kr., er svo skuli borgast með ákveðnum afborgunum.

Um nauðsyn þess að gera hér ráðstafanir skal ég fara fáeinum orðum, enda þótt það sé í aðalatriðum tiltekið í grg. þessa frv. Það er svo komið, að eitt af því, sem bagar mjög landbúnaðinn nú á síðustu árum, eru sívaxandi örðugleikar fyrir unga og fátæka menn að stofna til búskapar vegna þess, hve stofnkostnaðurinn er mikill. Fyrr á árum gátu menn, sem fengu jörð eða jarðarpart á leigu, stofnað til búskapar með mjög lítið fjármagn milli handa, en nú er þetta gersamlega breytt, síðan verðgildi peninga hefur breytzt jafnmikið og raun er á orðin. Í þessu sambandi skal ég t. d. varðandi búfé taka það fram, að þegar ég var á unglingsárum fyrir um 50 árum, þá kostaði fullgild ær að vorlagi 10–12 kr. og kýrin 60–80 kr. Núna er ekki að tala um að fá leigufæra á fyrir minna en 5–6 hundruð krónur og ekki kú, sem er í fullgildu, leigufæru ástandi fyrir minna en 3 þús. kr. Á þessu sést það, að það fjármagn, sem til þess þarf að kaupa búfé fyrir frumbýlinga, hefur á þessu tímabili margfaldazt svo, að það er svona 40–50-falt. Að öðru leyti er það svo alkunnugt mál, að jarðir hafa hækkað mjög í verði, og allur kostnaður, sem þarf til umbóta á jörðunum, hefur hækkað svo gífurlega, að það er ekki hægt fyrir fátæka menn að stofna til búskapar nema með talsverðu fjármagni, og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það verði hægt að fá á annan hátt en þann, að mennirnir eigi kost á lánsfé með sæmilega góðum kjörum. Nú er þetta fé hvergi fáanlegt. Mér vitanlega eru hvergi fáanleg lán, eins og sakir standa nú, til jarðakaupa eða til bústofnskaupa eða verkfærakaupa, og þetta gerir það að verkum, að ungir menn, sem gjarnan vilja stofna til búskapar í sveitum landsins, hafa lokaða leið vegna fjárskorts til þess að stofna til þessa atvinnurekstrar, sem þeir nauðsynlega vilja fara í.

Hér er mjög oft á hv. Alþ. verið að tala um atvinnuleysi í bæjunum, og það er raunar ekki að ástæðulausu og ekkert undarlegt við það, þó að atvinnuleysi sé komið í bæjum og kauptúnum, eins og sakir standa í okkar þjóðfélagi. Ég sé ekkert undarlegt við það, vegna þess að það hefur alltaf á undanförnum síðustu áratugum smátt og smátt verið að draga unga fólkið burt úr sveitunum, vegna þess að því hefur ekki verið sköpuð þar aðstaða, sem hefur jafnazt á við þau lífsþægindi, sem kaupstaðirnir hafa að bjóða. Og nú er svo komið, að í sveitum landsins er ekki nema annaðhvort tæplega eða um ¼ hluti þjóðarinnar, um 25%. Ég vil nú halda því fram, að öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir alvarlegt atvinnuleysi í okkar landi sé að byggja upp sveitirnar, auka möguleikana á því, að það geti verið það mikill fólksfjöldi í sveitum okkar lands, að það þurfi ekki að vera hætta á því, að það verði stórir hópar af atvinnulausu fólki í bæjunum. En til þess að þetta geti orðið, þá þarf stórkostlega aukið lánsfé í sveitirnar og ekki sízt handa þeim mönnum, sem eru að byrja búskapinn.

Mér er kunnugt um það, að það eru nú, síðan fjárskiptin fóru fram, mjög margir af ungum og efnilegum mönnum, sem flutzt hafa til bæjanna, er vildu mjög gjarnan snúa aftur heim í sveitina sína og hefja þar búskap, en leiðin, sem fram undan er, er lokuð vegna þess, að þessir menn fá ekki það lánsfé, sem nauðsynlegt er til þess að hefja búskapinn. — Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa um þetta mál fleiri orð, en legg til, að frv. að þessari umr. lokinni verði vísað til hv. landbn.