24.10.1952
Neðri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (3229)

82. mál, raforkuframkvæmd

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur oft verið um það rætt og réttilega, að það afl, sem fólgið er í fossum okkar og fljótum, væri hin mesta auðlind, sem þjóðin ætti. Því miður er svo málum háttað hjá okkur, í okkar atvinnulífi, Íslendinga, að við höfum lítið um dýrmæt jarðefni og námur í landi okkar, þannig að atvinnuvegir okkar eru að verulegu leyti háðir ýmiss konar árstíðasveiflum, ekki hvað sízt sjávarútvegurinn, og hefur þetta átt sinn stóra þátt í því að skapa það öryggisleysi, sem oft hefur orðið vart hér í okkar atvinnulífi, og valda miklum erfiðleikum um það að gera sér fullkomna grein fyrir á hverjum tíma, hvaða horfur væru fram undan um afkomu þjóðarinnar.

Á síðustu árum hefur aukizt mjög áhugi bæði almennings í landinu og forustumanna þjóðarinnar almennt um að nýta þá auðlind, sem ég gat um í upphafi máls míns, vatnsaflið, til þess í senn að skapa landsfólkinu bætt lífsþægindi og einnig að bæta efnahagslega afkomu þess og skapa skilyrði til margvíslegs atvinnurekstrar í landinu, ekki hvað sízt iðnaðar, sem raforkan er óhjákvæmileg fyrir. En það er einnig svo málum háttað nú, að eins og flestir vita, þá er mjög mikil breyting í því efni vegna nýjustu uppfinninga, að í raun og veru skiptir orðið minna máli nú um ýmiss konar hráefni til iðnaðar heldur en áður hefur verið, og það er fyrst og fremst orkan, sem máli skiptir. Þetta hefur leitt til þess, að það að sjálfsögðu skapar okkur aukna og bætta aðstöðu til þess að nýta þessa auðlind okkar, raforkuna, og að hefja iðnað á ýmsum sviðum, sem áður hefði verið óhugsandi að gera, því að það er vitanlegt öllum, sem til þekkja, að raforka úr fossaafli er miklum mun ódýrari en raforka, sem framleidd er á annan hátt. Enda liggur reynsla fyrir um það hérlendis og hefur einnig birzt hér í frv., sem liggur fyrir þessari hv. d., að það er mikill munur á því um framleiðslu raforku í landinu, hvort sú raforka er framleidd úr vatnsafli eða hvort hún er framleidd á annan hátt, með dieselrafstöðvum eða á annan slíkan hátt.

Árið 1942 voru sett l. um raforkusjóð, sem gerði mögulegt að hraða meira en verið hafði framkvæmdum í raforkumálum, og árið 1946 voru síðan sett heildarl. um raforkuframkvæmdir, og á grundvelli þeirrar löggjafar hefur verið haldið áfram síðar með stærri og mikilvægari raforkuframkvæmdir en áður hafa þekkzt á landi hér. Mestu mannvirkin á þessu sviði er nú verið að reisa, en það eru hin nýju orkuver við Sog og Laxá, sem gera má ráð fyrir að kosti hátt á þriðja hundrað millj. kr. og munu auka stórkostlega þá raforku, sem hægt er að framleiða í landinu, og skapa skilyrði fyrir bæði aukinn iðnað og einnig til þess, að mörg byggðarlög, sem ekki höfðu áður kost á að hljóta raforku, geta nú fengið hana frá þessum orkuverum. En samt er það svo, að þótt þessi orkuver séu nú langt á veg komin með að komast upp, þá er enn geysimargt óunnið í þessum málum. Og þó að segja megi ef til vill, að það sé svo stórt spor, þessi stóru orkuver við Sog og Laxá, að þess sé ekki að vænta, að hægt sé að halda áfram stórstígum framkvæmdum á því sviði, þá er því þar til að svara, sem ég veit að hv. þm. munu einnig allir hafa gert sér ljóst, að einmitt þessar miklu framkvæmdir og einmitt þau stórauknu þægindi og bætta lífsafkoma, sem þau orkuver skapa, sem upp eru komin, auka mjög þörfina á því, að hraðað sé framkvæmdum í öðrum byggðum landsins. Orsökin er augljóslega sú, að eftir því sem lífsafkoma fólksins batnar í ýmsum hlutum landsins, þá er stóraukin hætta á því, að jafnvægisleysi verði, þannig að þær byggðir, sem ekki njóta raforku og ef til vill sjá fram á það að geta ekki notið hennar um ófyrirsjáanlegan tíma, — það er hætt við því, að það fólk, sem þar býr, kjósi heldur að leita til þeirra staða, þar sem þægindin eru þegar komin og lífsafkoma fólksins að ýmsu leyti þegar orðin betri, bæði beinlínis vegna þessara þæginda og einnig vegna þeirrar auknu atvinnu, sem raforkan hefur víða í för með sér. Einmitt af þessum orsökum er óumflýjanlegt að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd, að það verður að hraða eftir föngum raforkuframkvæmdum sem víðast á landinu til þess að vega upp á móti því jafnvægisleysi, sem annars er hætt við að myndaðist í þjóðfélaginn.

Einnig er þess að gæta í þessu sambandi, að það er að sjálfsögðu um tvíþætt vandamál að ræða, annars vegar að koma upp nýjum orkuverum og hins vegar það vandamálið, sem enn er óleyst, að þótt orkuverin við Sog og Laxá komist upp, þá vantar stórlega fjármagn til þess að leggja héraðsveitur út um byggðirnar frá þessum orkuverum, þannig að hægt sé að leiða raforkuna til fólksins. Þetta á ekki einungis við um þessi tvö orkuver, heldur einnig ýmis önnur orkuver, sem komið hefur verið upp víðs vegar um landið, og orkuver, sem nú er verið að koma upp. Það er að sjálfsögðu ekki nóg að koma orkuverunum sjálfum upp, heldur þarf um leið að tryggja það, að það sé hægt að nýta þau af því fólki, sem á að njóta þessara þæginda. Það er, eins og ég sagði áðan, bæði með hliðsjón af því, að koma þarf í veg fyrir þá misjöfnu aðstöðu, sem verður í þjóðfélaginu vegna raforkunnar, og einnig vegna hins, sem augljóslega er einnig brýn þörf að hafa í huga, að afkoma raforkuveranna og möguleikar þeirra til þess að standa straum af kostnaði við þessar miklu framkvæmdir byggist að sjálfsögðu á því, að það sé hægt að nýta orku þeirra sem fyrst til fulls og að það sé hægt að leiða þess vegna raforkuna út um þær byggðir, sem samkvæmt þar um gerðri áætlun eiga að njóta rafmagnsins frá orkuverunum.

Af þessum sökum er það, sem við nokkrir þm. höfum leyft okkur að bera hér fram í þessari hv. d. frv. það, sem hér liggur fyrir nú til umr. á þskj. 92, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 15 millj. kr. lán til raforkuframkvæmda. Þau framlög, sem um er að ræða nú til raforkumála, eru annars vegar framlag á 16. gr., sem er til nýrra raforkuframkvæmda, og hins vegar hið árlega framlag til raforkusjóðs. Annað þýðir ekki um að ræða til þess að leysa af hendi það verkefni, sem ég gat um áðan. Og með þeim framlögum er sýnt, að það muni taka áratugi að leysa þetta verkefni, sem nú er brýn þörf að leysa sem allra fyrst.

Það má ef til vill segja sem svo, að það sé varhugavert að fara að leggja út í lántökur fyrir ríkissjóðinn til framkvæmda sem þessara, ekki sizt þar sem gert er ráð fyrir, að þetta lán sé ef til vill ekki nema að nokkru leyti endurgreitt, heldur sé um bein framlög að ræða og þau ættu þá að takast af fjárlögum. Því er nú bæði til að svara um það, að það er ekki ótítt að ríkið taki sjálft lán til ýmiss konar framkvæmda, enda þótt ekki sé um endurlán að ræða og endurgreiðsla lánsins falli beint á ríkissjóðinn, og í þessu efni bætist það við, að hér er um verkefni að ræða, sem ríkið hefur samkv. l. tekið að sér að leysa. Það, sem mundi gerast með þessari lántöku, er ekki annað en það, að þessu verki yrði hraðað. Og það hygg ég, að allir hv. alþm. séu mér sammála um, að nauðsyn sé að gera, eftir því sem nokkur tök eru á, og af þeim sökum sé það á engan hátt varhugavert, ef auðið er að fá lánsfé til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða, og með hliðsjón af þeim rökum, sem ég hef áður lauslega drepið á.

Það er þannig gengið frá ákvæðum um raforkuframkvæmdir í raforkul., að sum af þeim verkefnum, sem þar þarf að leysa, er ekki unnt að leysa með endurlánum, þ. e. a. s. með lánum úr ríkissjóði, sem þessi mannvirki svo standi undir. Það er gert ráð fyrir því, að um sé að ræða tvenns konar framkvæmdir, annars vegar Rafmagnsveitur ríkisins, sem er gert ráð fyrir að geti staðið undir sér sjálfar, og um endurlán til þeirra getur að sjálfsögðu verið að ræða. En svo eru hins vegar héraðsrafveiturnar, og falla þær undir lagnirnar út frá orkuverunum út um sveitirnar og til bæja og sjávarþorpa, sem rafmagnsins eiga að njóta. Í mörgum tilfellum er þarna um að ræða framkvæmdir, sem ekki geta staðið undir sér sjálfar og ekki geta staðið straum af stofnkostnaði sínum, og er þá gert ráð fyrir beinum framlögum úr ríkissjóði til þeirra hluta.

Við flm. gerum ráð fyrir, að það fé, sem hér er áætlað að taka að láni, geti orðið notað til beggja þessara framkvæmda, og þess vegna er það látið opið í frv., hvort um lán yrði að ræða, hvort um endurlán yrði að ræða til raforkusjóðs eða til rafmagnsveitna ríkisins eða hvort um bein framlög yrði að ræða, heldur er gert ráð fyrir, að þessu fé yrði ráðstafað í samráði við raforkuráð og eftir nánari ákvörðunum raforkumálastjórnarinnar, til þess að það nýtist sem bezt. En nú eru einmitt í áætlun hjá raforkustjórninni og raforkuráði margvíslegar framkvæmdir í sambandi bæði við þessi nýju orkuver tvö, orkuver, sem áður eru komin upp, og orkuver, sem verið er nú að koma langt áleiðis og óumflýjanlegt er að leysa á næstu árum. Eins og vikið er að í grg. þeirri, sem fylgir frv., er þess að geta, að í sambandi við lánsútboð t. d. nú við byggingu orkuveranna við Sog og Laxá hefur þátttaka í bréfakaupum í þeim lánsútboðum verið langmest úti um sveitirnar í nánd við orkuverin, þær sveitir, sem ekki hafa fengið raforkuna, en gera ráð fyrir að fá að njóta hennar frá þessum nýju orkuverum. Og það yrði að sjálfsögðu mjög mikil óánægja hjá þessu fólki, ef það, eftir að hafa lagt fram drjúgan skerf til að hrinda þessum miklu málum áleiðis, fengi svo ekki fyrr en eftir langa hríð að njóta þægindanna af þessum orkuverum. Og það er enn þessi ástæða, sem bætist við og gerir brýna þörfina á því að hraða þessum framkvæmdum svo sem kostur er á.

Ég býst við, að ýmsir kunni að segja sem svo, að það hafi lítið að þýða að samþ. frv. um lántökuheimild fyrir ríkisstj., ef ekki sé bent á neinar leiðir til að fá slík lán. Það kann að vísu rétt að vera að vissu marki. En í fyrsta lagi er nú þess að gæta, að það er að sjálfsögðu ekki nema æskilegt, að ríkisstj. hafi fyrir sér yfirlýsingu um vilja Alþingis í því efni. Í öðru lagi tel ég alls ekki útilokað að fá lán það, sem hér um ræðir. Þess er fyrst að gæta, — reynslan hefur sýnt það, — að auðveldast er að fá erlend lán til raforkuframkvæmda hér á Íslandi af þeim mannvirkjum. sem við á annað borð höfum leitað eftir lánum til. Og það stafar ekki hvað sízt af því, að erlendir aðilar gera sér fyllilega ljósa þá staðreynd, að einmitt virkjun fallvatnanna hér er einhverjar hagkvæmustu framkvæmdir, sem við getum í ráðizt, og þær framkvæmdir, sem eru einna líklegastar til að stuðla að því að tryggja efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Þess er þá einnig að gæta, að viðtökur þær, sem almenningur hefur sýnt hinum nýju raforkuframkvæmdum, og sá feikimikli áhugi, sem víða hefur komið fram úti um allt land um það að fá raforku sem fyrst, — ég hygg, að sá áhugi mundi nægja til þess, að það ætti að vera hægt með lánsútboði að fá töluverða upphæð upp í þetta fyrirhugaða lán. Og í þriðja lagi er eitt atriði, sem ég vildi vekja hér athygli á, og það er það, að á þessu ári, 1952, er flutt inn geysimikið magn af ýmiss konar vélum og vörum til orkuveranna við Sog og Laxá. Á þennan hátt hafa ríkissjóði bætzt óvenjulegir tekjustofnar, sem aðeins er um að ræða þetta eina ár, og tollgreiðslur þessara fyrirtækja til ríkisins munu vafalaust nema allt að 15 millj. kr. Hér er um fé að ræða, sem ekki er reiknað með, að því er mér hefur skilizt, í hinni venjulegu tolltekjuáætlun, sem lögð er til grundvallar í fjárlögum, enda ekki eðlilegt, að það sé gert, því að hér er um alveg óvenjulegar tekjur að ræða, sem aðeins munu koma ríkissjóði til góða í eitt skipti. Ég tel alls ekki fráleitt, að þessar tekjur, sem á þennan hátt er afiað, væru að einhverju leyti notaðar til þess einmitt að auka raforkuframkvæmdir og til þess að greiða fyrir því, að raforkan geti sem fyrst orðið nýtt af sem flestum landsmanna, og þá ekki hvað sízt, að það mætti a. m. k. nota einhvern hluta þessa fjár til þess að leggja héraðsveitur út frá þessum nýju orkuverum við Laxá og Sog, þar sem það er beinlínis um það að ræða að tryggja afkomu þessara fyrirtækja.

Mér virðist því, að ef fullur vilji er fyrir hendi, þá ætti að vera möguleiki til að fá þetta fé, sem hér er gert ráð fyrir. Og það er engum vafa bundið, að hér er um framkvæmdir að ræða, sem er mikil þjóðfélagsleg nauðsyn að sé hraðað. Það er ekki um að ræða nein ný útgjöld fyrir ríkið umfram það, sem í l. er gert ráð fyrir að ríkið leysi af hendi, þó að á lengri tíma kunni að vera, heldur er með því að hraða þessum framkvæmdum aðeins stuðlað að því að koma í veg fyrir jafnvægisleysi í þjóðfélaginu og hraða því, að allur landslýður geti sem fyrst orðið þessara miklu og lífsnauðsynlegu þæginda aðnjótandi, og á þann hátt er um leið skapaður grundvöllur fyrir ýmiss konar nýjan atvinnurekstur í landinu til bættrar lífsafkomu fyrir þjóðarheildina.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en vil að þessari umr. lokinni leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn.