24.10.1952
Neðri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

82. mál, raforkuframkvæmd

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af orðum hv. þm. Ísaf. taka það fram í sambandi við síðari brtt. hans, sem hann vék hér að út af orðunum „nýrra rafmagnsveitna“, eins og einnig kom fram í minni frumræðu, að ég hélt, að það er ekki áform flm. þessa máls að binda þetta fé við það, að því verði einungis varið til héraðsveitna, heldur verði það notað jöfnum höndum til þess að leggja héraðsveitur og til nýrra raforkuframkvæmda eftir atvikum, og þess vegna er það, sem við höfum sett í frv., að ráðstöfun þess skuli vera háð nánari ákvörðun raforkumálastjórnarinnar, og það fer þá alveg eftir atvikum, hvort lán þetta yrði endurlánað rafmagnsveitunum eða raforkusjóði eða lagt fram sem nýtt, óafturkræft framlag til héraðsrafveitna. Hins vegar, ef þetta orðalag, sem þarna er í frv., kynni að valda einhverjum misskilningi, þá er að sjálfsögðu rétt, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, lagfæri það, til þess að það sé alveg ótvírætt. En við vildum sem sagt hafa það alveg opið, að það væri hægt að nota þetta fé jöfnum höndum, þar sem við teljum, að þessar framkvæmdir séu hvorar tveggja mjög brýnar, og það ekki hvað sízt vegna þess, eins og þessi hv. þm. tók fram, að það eru vissir landshlutar, sem eru enn algerlega útundan um vatnsorkuvirkjanir.

Varðandi það atriði, sem hann boðaði í brtt., að þessi lánsupphæð yrði hækkuð í 50 millj. kr., þá brýtur það að sjálfsögðu ekkert í bága við skoðun okkar flm. þessa máls, en það má að sjálfsögðu segja 50, 60, 100 millj., það er eins og bent er á í grg., að hér er um átök að ræða, sem auðvitað er engin von til að sé hægt að leysa að öllu leyti í einu skrefi. Það er alltaf matsatriði, hvort lántakan á að vera 10 milljónum hærri eða lægri. Það, sem fyrir okkur vakti fyrst og fremst, var að setja sem lántökuheimild einhverja sennilega upphæð, þannig að það yrði nokkurn veginn öruggt, að það fé væri hægt að fá. Hins vegar, ef ríkisstj. hefur tök á að afla meira lánsfjár, þá mundi þetta frv. og samþykkt þess vera tvímælalaus vísbending til hennar um það, að það væri vilji Alþ., að áfram væri haldið eins langt á þessari braut eins og nokkur tök eru á.