30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3247)

90. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér kom það dálítið á óvart, að hv. 2. þm. Rang. skyldi vera svona á eftir tímanum, — hann hefði ekki fylgzt með þeirri þróun, sem hefur orðið hér í atvinnumálum kvenna á undanförnum árum. Hv. 3. landsk. þm. hefur svarað öllum hans mótbárum, svo að það gerist nú lítil þörf fyrir mig að koma hér upp. En það voru aðallega tvö atriði, sem ég ætlaði að draga fram, og það er þá fyrst, að vegna þessara ranglátu skattalaga ber nokkuð á því, að fólk giftir sig alls ekki, en býr saman ógift, enda er því það varla láandi. Ég þekki t. d. dæmi um tvenn hjón, mennirnir eru bræður, og konurnar vinna báðar úti, og heimilin hafa álíka miklar tekjur. Önnur hjúin eru gift, hin búa saman ógift. Í öðru tilfellinu eru það 15 þús. kr., sem hjónin eiga að borga í skatta, en þau, sem búa saman ógift, eiga aðeins að borga rúmlega 7 þús. kr. Verð ég þó að viðurkenna það, að önnur hjónin búa dálítið utan við Reykjavík, og þar gildir kannske ekki sama útsvarsálagning, en ríkisskatturinn er þó sá sami. Ég hugsa, að hv. þm. kæri sig ekki um að stuðla að því, að þessi þróun verði áframhaldandi og að ef til vill verði svo, að flest börn fæðist utan hjónabands. Ísland á nú þegar Norðurlandamet í tölu óskilgetinna barna; máske er hér skýringin. Í öðru lagi finnst mér það vera skortur á mannréttindum að meta ekki til tekna starf þeirrar konu, sem vinnur á heimilinu. En það er gert með því, að hver þjóðfélagsþegn sé sjálfstæður skattþegn, jafnt konur sem karlar. — Annað hef ég nú ekki að segja í þessu máli, og ég vona, að þetta frv. verði samþ. hér á þinginu í þetta skipti.