30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3248)

90. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja. — Hv. síðasti ræðumaður sagði, að sér hefði komið á óvart, hvað ég væri langt á eftir tímanum, hefði ekki fylgzt betur með þróuninni í öðrum löndum í sambandi við þetta. Mér skildist á hv. þm., að ef þetta frv. næði ekki fram að ganga, þá mætti jafnvel reikna með því, að fólk hætti að gifta sig. Ég geri nú ekki ráð fyrir því, að menn taki slíkar fullyrðingar alvarlega og að blessuð frúin hafi nú sagt þetta svona til þess að segja eitthvað, frekar en að færa rök fyrir málinu.

Það, sem hv. fyrri flm. sagði, var það, að hann gat tekið undir það með mér, að hann teldi eðlilegra, að konan ynni á heimilinu frekar en utan heimilisins. Og mér þótti nú vænt um það, að hann viðurkenndi þetta og hefur sömu skoðun á hlutverki konunnar í þjóðfélaginu og ég hvað þetta snertir. Úr því að við erum nú sammála um þetta, þá ættum við einnig að geta verið sammála um fleira varðandi þetta mál. Við ættum t. d. að vera sammála um það, að þetta frv., sem hér er flutt, ef það verður lögfest, er hvatning til kvenna að vinna utan heimills. En hv. fyrri flm., sem talaði hér áðan, sagði, að þetta frv., ef að lögum yrði, væri ekki hvatning til kvenna að vinna utan heimilis. Ég efast ekkert um, að ef hv. flm. íhugar þetta betur, hlýtur hann að komast að raun um, að um leið og stuðlað er að því að afnema samsköttun hjónanna og koma í veg fyrir það, að skattur og útsvar hækki nokkuð verulega við það, að konur vinni utan heimilis, þá hlýtur það að verða hvatning til þess, að konan fari að leita í þessa átt, eins og það er nokkur bremsa á því, að konurnar fari að vinna utan heimilisins, ef skatturinn er eins og hann er nú.

Hv. ræðumaður misskildi mig áðan, þegar hann var að tala um það, að ég vildi refsa konunum. Ég sagði, að þetta væri ef til vill frá þjóðfélagsins hendi eitt ráðið til varnar því, að heimilin sundrist og að konan helgi sig heimilinu, eins og hún hefur lengst af gert í þessu þjóðfélagi, og það er enginn vafi á því, að það er allt of mikið um það, að konan vinni utan heimilisins eins og nú er orðið.

Hv. ræðumaður sagðist vilja stuðla að því, að ekki væri hér atvinnuleysi í nútíð og framtíð. Það er auðvitað gott að heyra það, en mér kemur ekki til hugar, að hér sé nokkur hv. þm. inni. sem ekki vill stuðla að því. Við viljum áreiðanlega allir stuðla að því, að hér skapist varanleg atvinna fyrir alla þjóðfélagsþegna. Við viljum allir vinna að því. En við skulum eigi að síður játa staðreyndirnar, að hér hefur oft verið atvinnuleysi, meira og minna, og þeir menn, sem hafa viljað stofna heimili, hafa oft og tíðum átt mjög erfitt með að fá sér trygga atvinnu, til þess að þeir gætu séð heimilinu farborða. Og hv. ræðumaður svaraði því ekki hér áðan, hvernig hann vildi snúast við því dæmi, sem ég hér nefndi, þegar hjón búa við sömu götu, önnur hjónin vinna bæði og hafa tvöfaldar tekjur, en hin hjónin vinna hvorugt og hafa engar tekjur. Önnur fjölskyldan sveltur, en hin hefur óþarflega mikið. Hvað segir hv. jafnaðarmaður um þetta? Hann svaraði því ekki. Hann svaraði aðeins út í hött og sagðist vilja stuðla að því, að hér væri ekki atvinnuleysi, alveg eins og hann væri eitthvert sérstakt fyrirbrigði í þessu efni, eins og við hinir, sem sitjum hér inni, værum eitthvað öðruvísi þenkjandi í því máli. Hv. ræðumaður ætlar þó ekki að fara að telja manni trú um, að hann og hans flokkur einn hugsi þannig? Hann ætlar þó ekki að fara að gera tilraun til þess að telja þingheimi trú um það, að við hinir viljum hafa hér atvinnuleysi og eymd? Nei, það held ég, að hann ætli ekki að gera og að hann hafi sagt þetta vegna einhvers misskilnings.

Ég þarf nú ekki að segja meira um þetta. Ég skal taka það fram, að ég vil, að konan njóti jafnréttis í þessu þjóðfélagi, en ég vil, að þeim hornsteinum, sem hafa staðið undir þjóðfélagsbyggingunni frá aldaöðli, verði ekki raskað. Það er alveg vist, að heimilin hafa verið hinir traustu hornsteinar í þessu þjóðfélagi, — að konan móðirin, hefur innt af höndum í þessu þjóðfélagi það hlutverk, sem hún þarf að hafa áfram, ef við viljum fá vel uppalin og siðsöm börn. Og það er enginn vafi á því, að þegnar þjóðfélagsins munu, þegar þeir komast út í lífið og lífsbaráttuna, njóta þess eða gjalda, hvernig heimili þeir áttu í æsku, hvernig móðirin var við börnin sín.