28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3254)

96. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt þér á þskj. 123, er mjög nátengt framkvæmd l., sem samþ. voru hér á Alþingi fyrir um það bil 6 árum. Og ég vil fyrst, áður en ég fer að ræða um þetta frv. sjálft, gera dálitla grein fyrir því, hvernig gengið hefur með undirbúning og framkvæmd þeirra l., og þar á ég við l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum ásamt l. um ræktunarsjóð, sem hafa nú raunar líka verið til umr. á þessu þingi fyrir nokkrum dögum. Það má segja, að undanfari þeirrar lagasetningar hafi verið samþ. hér á Alþingi nokkrum árum áður, en það var raunar árið 1935, þegar samþ. voru l. um nýbýli og samvinnubyggðir.

Aðalatriði þeirra laga var það, að stefna skyldi að nokkuð hærra marki í framfaramálum landbúnaðarins en áður hafði verið. Þar var m. a. gert ráð fyrir því, að ríkið veitti sérstaka aðstoð til þess að stofna nýbýli og það skyldi framkvæmt á tvennan hátt, í fyrsta lagi með stofnun einstakra býla og í öðru lagi með stofnun samvinnubyggða. Aðstoð hins opinbera til framkvæmdar þessara l. var tvenns konar. Það var í fyrsta lagi dálítill óafturkræfur styrkur, er var gert ráð fyrir að væri raunverulega vaxtalaust lán, sem skyldi skilað með býlinu í hendur næsta viðtakanda, og í öðru lagi voru það lán með fremur góðum kjörum. En í framkvæmdinni reyndist það verða svo með þessi l., að það var aldrei reynt að framkvæma nema annan þáttinn, þ. e. a. s. stofnun einstakra býla. Kaflinn um stofnun samvinnubyggða var aldrei framkvæmdur, og ástæðan til þess, að hann var aldrei framkvæmdur, var, að ég held, fyrst og fremst sú, að það var aldrei séð fyrir því fjármagni, sem til þeirra hluta hefði þurft. Til þess að sýna fram á, í hvaða efni þetta var komið, þegar kom fram á stríðsárin og verðlag allt hafði brjálazt svo mjög sem allir muna, þá ætla ég að benda á það, að öll stríðsárin, frá 1940–46, var það fjármagn, sem ætlað var til framkvæmda þessara l. um nýbýli og samvinnubyggðir, aðeins 5 millj. og 400 þús. kr. Og þessi upphæð var raunar ætluð til meira, því að hún var líka ætluð til endurbyggingar á sveitabæjum almennt.

Það var auðséð, þegar svona var komið, að þessi l. voru gersamlega úrelt orðin og til einskis að láta þau vera í gildi, enda var árið 1944, á þingi þá um haustið, flutt af tveimur þm. í Ed. frv., sem gerði ráð fyrir gerbreytingu á þessu fyrirkomulagi. Þetta frv. hét frv. til l. um byggðir og byggðasjóð og varð ekki útrætt á því þingi, heldur vísað til nýbyggingarráðs, sem tók þetta mál til ýtarlegrar meðferðar og skilaði aftur árið 1945 og 1946 tveimur nýjum frv. inn í þingið, öðru um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og hinu um ræktunarsjóð, sem bæði voru gerð að l. og komu til framkvæmda árið 1947. En ég tel nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um það, hvernig gengið hefur með framkvæmd þessara l., til þess að sýna fram á það, að eins og nú er komið verðlagi öllu og fjármálum, þá er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar það atriði, hvernig á að tryggja fjárhagslega framkvæmd þessara l. framvegis fremur en gert hefur verið.

Aðalatriðið í frv. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum má segja að sé tvenns konar, þ. e. í fyrsta lagi kaflinn um stofnun landnáms ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir, að hið opinbera sjái um að eignast eða ná eignarrétti á landi á vissum stöðum og undirbúa þar landnám til stofnunar byggðarhverfa. Um þennan kafla ætla ég ekki að fara fleiri orðum, vegna þess að það er ekki sú hlið fjárhagsmálsins, sem er til meðferðar tekin í þessu frv. Hitt atriðið er um byggingar, þar sem ákveðið er, að stofnaður skuli byggingarsjóður, sem skuli hafa með höndum það verkefni að lána fé bæði til endurbyggingar á sveitabýlum og sömuleiðis til byggingar á einstökum nýbýlum og í byggðarhverfum. Ákvæðin um stofnun byggingarsjóðsins í l. eru í stuttu máli þau, að hann skuli stofnaður með 10 millj. kr. stofnfé, sem að nokkru leyti var höfuðstóll gamla byggingarsjóðsins. sem til var áður, svo og nýbýladeildar og smábýladeildar, sem voru í Búnaðarbankanum fyrir, og síðan skyldi ríkissjóður leggja fram eða útvega að láni það, sem á vantaði til þess að þetta næði 10 millj. kr. Tekjur sjóðsins skyldu verða vaxtatekjur og 2½ millj. kr. framlag úr ríkissjóði næstu 10 ár, sem fyrirhugað var til að greiða vaxtamismun á því fé, sem sjóðurinn yrði að fá að láni, og útlánum hans, því að það var ljóst, að þetta 10 millj. kr. stofnfé mundi skammt hrökkva, — og í öðru lagi, ef einhver afgangur yrði á þessu framlagi ríkissjóðs, þá legðist það við stofnsjóðinn. Síðan segir svo um frekari lánsútvegun í 16. gr. l., sem ég vil lesa með leyfi hæstv. forseta.

„Byggingarsjóði skal heimilt, ef stofnfé hrekkur ekki til fyrir þeim lánum, sem álitin eru æskileg, að taka lán eða gefa út handhafavaxtabréf, allt að þreföldum stofnsjóði sinum. — Handhafavaxtabréfin skulu tryggð með skuldabréfum lánþega, stofnfé sjóðsins og ábyrgð ríkissjóðs.“

Ég hef áður upplýst það í umr. hér á Alþingi í þessari hv. d., að einmitt þetta atriði l. hefur ekki verið framkvæmt. Ég ætla ekki að fara út í það frekar, hver ástæðan er til þess, að það hefur ekki verið framkvæmt. Þetta er bara staðreynd, sem fyrir liggur, og verður þess vegna að haga sér núna í samræmi við það.

En áður en ég fer lengra, þá ætla ég aðeins að benda á það, hversu mikið verkefni þessum sjóði var ætlað. Í fyrsta lagi var honum ætlað að lána nægilegt fé til endurbyggingar íbúðarhúsa á sveitabýlum. Í öðru lagi var honum ætlað að lána fé til byggingar íbúðarhúsa, bæði í byggðarhverfum og á einstökum nýbýlum, sem stofnuð yrðu. Og í þriðja lagi var honum líka ætlað að lána fé til byggingar peningshúsa á öllum nýbýlum, sem stofnuð yrðu, bæði í byggðarhverfum og af einstaklingum. Lánsupphæðin, sem heimiluð er í þessum l., er allt að 75% kostnaðarverðs við þessar byggingar.

Ég ætla að geta þess strax, að tvö af þessum lagaákvæðum hafa aldrei verið framkvæmd vegna fjárskorts. Í fyrsta lagi hafa aldrei verið framkvæmd þau ákvæði að lána fé úr þessum sjóði til byggingar peningshúsa á nýbýlunum, hvorki einstökum nýbýlum né í byggðarhverfum.

Ástæðan er sú, að sjóðinn hefur skort peninga til þess. Í öðru lagi skal ég benda á það, að það er heimilað að veita lán upp í 75% kostnaðarverðs til íbúðarhúsabygginga. Það hefur aldrei verið hægt að framkvæma þetta, og hámark þeirra lána, sem hafa verið lánuð til einstakra íbúðarhúsa, var fram undir gengislækkunina 45 þús. kr., og síðan, eftir gengislækkunina, var það hækkað um 15 þús. kr., upp í 60 þús. Nú liggur það ljóst fyrir, að hér er ekki um að ræða hámarkið, — líklega mætti segja, að þetta væri helmingur þess, sem heimilað er í l. Ég tek það líka fram, að það er ekki beint hægt að segja, að þarna sé verið að brjóta l., en ég vil benda á það, að það er ekki þægilegt fyrir þá, sem eiga að sjá um þessi útlán, þegar þeir, sem þurfa á þeim að halda, geta bent á það, að það er a. m. k. heimilt að lána 75% af kostnaðarverði, að neita gersamlega um nema helming þeirrar upphæðar.

Til þess að átta sig betur á því, hversu mikið verkefni hér var um að ræða, þá vil ég nefna fáeinar tölur um ástand íbúðarhúsa eins og það var í sveitum í byrjun síðasta áratugs og þá breytingu, sem orðið hefur á þessum áratug. Því miður get ég ekki gert samanburð á ástandinu eins og það var þegar þessi lög tóku gildi, þ. e. a. s. árið 1947, vegna þess að það liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um það, en það liggja fyrir opinberar upplýsingar um byggingarástand 1940 og aftur 1950, og maður getur séð á því nokkuð, hvað fram hefur fleytt í þessum efnum, — og það skal ég taka fram strax, að það er ekki lítið, sem mest er að þakka þessari löggjöf, því að mest hefur breytingin orðið þessi ár síðan hún var samþ. Það liggur ljóst fyrir, þegar athugaðar eru lánsupphæðirnar.

Árið 1940 voru í byggð 5.862 jarðir á landinu. Þar af voru steinhús á 1.921 jörð, eða 32,8%. Þá voru timburhús á 1.760 býlum, eða 30%, og þar næst voru torfbæir á 2.181 býli, eða 37,2%. Nú hefur orðið á þessu nokkur breyting á þessum áratug. Steinhúsum hefur fjölgað, þannig að þeim hefur fjölgað um 907. Það er óhætt að segja, að byggð hafi verið á þessum áratug um 907 steinhús. Timburhúsum hefur fjölgað um 175, og skal ég þó taka það fram, að þessi tala ein út af fyrir sig gefur ekki fyllilega rétta hugmynd um þetta. Í þessum flokki eru einnig þau hús, sem byggð eru að ytri veggjum úr steinsteypu, þó að innrétting og loft séu úr timbri, vegna þess að þau koma undir þann lánaflokk, sem timburhúsin tilheyra. Torfbæjum hefur aftur á móti fækkað um svipaða tölu eins og hér er um að ræða og raunar meira, vegna þess að nokkuð margar jarðir hafa fallið úr byggð á þessum tíma, og torfbæir munu hafa verið á þeim flestum. Samt sem áður er óbyggt upp á nokkuð verulegum hluta þeirra jarða, sem áður voru torfbæir á, og auk þess liggur það ljóst fyrir, að enn þarf að byggja upp verulegan hluta af þeim gömlu timburhúsum. sem enn er búið í, eru orðin gömul og léleg og geta ekki verið nema til tiltölulega fárra ára.

Þegar aftur er litið á það, hvaða fé þessi sjóður hefur haft til umráða, þá vil ég upplýsa það, að um s. l. áramót var búið að lána út úr honum um það bil eða rúmar 32 millj. kr. Það er ósköp eðlilegt, að sú upphæð hafi ekki nægt til þess að byggja upp öll þau íbúðarhús, sem hér hafa verið byggð á þessum tíma, hefði átt að veita nægileg lán til þeirra, og einnig til nægilegra lána til að byggja peningshúsin á öllum nýbýlunum, sem stofnuð hafa verið á þessum tíma. Það liggur ljóst fyrir, að þessar 32 millj. kr. gátu aldrei hrokkið til þessarar starfsemi allrar, og afleiðingin er sú, að það hafa orðið stórvandræði núna síðustu árin með að lána eftir þessum reglum, sem þó hefur verið fylgt. — Ég skal þá láta útrætt um byggingarsjóðinn að svo stöddu.

Önnur lánastofnun í Búnaðarbankanum, sem sömuleiðis var samþ. breyting á með nýjum lögum árið 1947, var ræktunarsjóðurinn. Honum voru upphaflega ætlaðir þessir tekjustofnar: Það var höfuðstóli gamla ræktunarsjóðsins, sem til var áður og var rúmlega 4 millj. kr., sömuleiðis hluti viðlagasjóðs, sem var lítið eitt á aðra millj. kr. Þetta var samtal um það bil 5½ millj. kr., og auk þess mælir 8. gr. ræktunarsjóðsl. svo fyrir, að ríkissjóður skuli lána eða útvega 10 millj. kr., sem leggist við stofnsjóðinn eða úr því verði stofnsjóðurinn myndaður. Þetta var gert. Enn fremur segir í 8. gr. l., að seðladeild Landsbankans skuli skylt, ef ríkisstj. óskar, að leggja fram 10 millj. kr., sem ræktunarsjóður fái að láni til 20 ára með 1½% vöxtum, en þetta hefur aldrei verið framkvæmt. Síðan skyldu tekjur ræktunarsjóðs verða vaxtatekjur og tekjur af þjóðjörðum og af andvirði þeirra þjóðjarða, sem seldar kunna að verða; sömuleiðis 500 þús. kr. árlegt framlag frá ríkinu, sem gert var ráð fyrir að færi til þess að greiða vaxtamismun þeirra lána, sem ræktunarsjóðurinn kynni að þurfa að taka, og þess, sem hann þyrfti að lána út, en eins og gengið hefur framan af með lánsfé til ræktunarsjóðsins, hefur reynslan orðið sú, að þetta ríkissjóðsframlag fór í fyrstunni til þess að lána út nokkuð, en nú er svo komið með þeim lánum, sem hann hefur fengið, að það hrekkur ekki til að greiða vaxtamismuninn. Fjármagn ræktunarsjóðs núna mun vera innan við 30 millj. kr., eða réttara sagt um það bil 28 millj. kr., sem lánaðar hafa verið út úr honum fram að þessu ári og það er ljóst, þegar athugað er það hlutverk, sem hann hefur, að það er lítið. Í 4. gr. l. um ræktunarsjóð segir svo t. d., með leyfi hæstv. forseta:

„Ræktunarsjóður veitir stofnlán til jarðræktar, peningshúsa og geymsluhúsa og annarra mannvirkja við landbúnað, þar með talin jarðyrkja, vermirækt og loðdýrarækt, enn fremur til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslustöðva, kjötfrystihúsa, ullarverksmiðja, skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva, landbúnaðarverkfæra, íbúðarhúsa og verkstæða fyrir iðnaðarmenn í veitum, rafstöðva fyrir sveitir og sveitahluta og einstaka sveitabæi, svo og til bústofnsauka og til kaupa á vélum, sem notaðar eru við landbúnað.“

Í viðbót við þessi verkefni öll hefur það ráð orðið að taka sem afleiðingu af því, að byggingarsjóðurinn gat ekki annað því hlutverki sínu að lána fé til útihúsabygginga á nýbýlum, að þær hafa allar orðið að koma á ræktunarsjóðinn, og það er stór þáttur í viðbót við öll þau verkefni, sem honum voru lögð á herðar með ákvæðum þessarar greinar. Það þarf því engan að undra, þó að þær 28 millj. kr., sem honum hefur verið mögulegt að lána út, hafi hrokkið skammt til þess að anna þessum verkefnum auk þess, sem hann fékk frá byggingarsjóðnum, enda hefur reynslan orðið sú, að það hefur ekki verið hægt að sinna nema sumum þessara verkefna og yfirleitt af skornum skammti.

Í sambandi við þetta vil ég enn fremur minna á það, að til er enn þá í Búnaðarbankanum ein lánsstofnun, sem heitir veðdeild og er jafngömul bankanum. Hlutverk hennar á að vera að lána út til margs konar framkvæmda, og um það segir svo í 19. gr. Búnaðarbankalaganna:

„1. Að veita lán gegn veði í jörðum og hvers konar fasteignum, sem ætlaðar eru til framleiðslu landbúnaðarafurða eða til almenningsnota í sveitum landsins.

2. Að veita lán bæjar-, sýslu- eða sveitarfélögum, eða tryggð með ábyrgð þeirra, að áskildu lögmæltu samþykki æðri stjórnarvalda, enda sé lánið ætlað til jarðræktar, búrekstrar eða til einhvers fyrirtækis til almenningsheilla í sveitum.“

Enn fremur er hér gert ráð fyrir viðtækari lánaheimildum, sem ég skal ekki fara frekar út í núna, en ég ætla aðeins að geta þess, að til þess að inna þessi lán af hendi hefur veðdeildin haft mjög takmarkað fjármagn. Höfuðstóll hennar mun vera núna um það bil 2 millj. kr., sem er allt í útlánum, og árlegar tekjur hennar eru ekki nema um það bil 120 þús. kr. á ári. Á síðasta þingi var ákveðið, að veðdeildin skyldi fá frá ríkinu 1 millj. kr. að láni. Sú milljón var tekin á yfirstandandi ári, en hún fór svo að segja þegar í stað til að greiða skuld, sem veðdeildin var komin í við sparisjóðsdeild bankans. Síðan hefur aftur verið haldið áfram að taka lán úr sparisjóðsdeildinni til veðdeildarinnar, svo að nú má heita að sé komið í sama horf og var fyrir einu ári, að skuld sparisjóðsdeildarinnar við veðdeildina er orðin aftur álíka mikil og þá var.

Það liggur þess vegna fyrir samkvæmt þessu, að á þessum árum hafa þessar lánsstofnanir haft til útlána um það bil 60 millj. kr., sem áttu að nægja til þess að anna þeim miklu verkefnum, sem þeim eru ætluð með þessum lögum, og þegar tillit er tekið til þess í viðbót, að á þessu tímabili síðan lögin tóku gildi hefur verðlag allt hækkað svo stórkostlega sem allir þekkja, er ekki undarlegt, þótt erfiðlega hafi gengið að sinna þessum verkefnum öllum. Rétt er að benda á það, að Alþ. hefur reynt undanfarin tvö ár að hlaupa dálítið undir bagga með því að ákveða að lána Búnaðarbankanum tvö lán til byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs, hið fyrra af gengishagnaði bankanna árið 1950 og hið síðara af greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1951. Þau eru bæði talin með í þeim upphæðum, sem ég hef hérna nefnt.

Það liggur í augum uppi, að það þarf að finna annan og heppilegri grundvöll til lánastarfsemi Búnaðarbankans heldur en þann, að á hverju ári þurfi Alþ. að hlaupa undir bagga með því að bæta úr brýnustu verkefnum, og það er þess vegna, sem ég hef flutt þetta frv. Tilgangurinn með því er sá að skapa stöðugri grundvöll að lánastarfsemi bankans, þannig að hann geti með tímanum eða helzt áður en langt um líður, rekið starfsemi sína þannig, að hann hafi nægilegt fjármagn með höndum, þannig að það, sem borgast inn af lánum, nægi til nýrra útlána og þurfi ekki að vera að leita á náðir Alþ. árlega um úrbót á brýnustu vandræðum. Sú leið, sem farin er í frv., er mörkuð hér í þrem fyrstu greinunum. Það getur verið, að ýmsum þm. þyki hún nokkuð nýstárleg, og um það vil ég fara fáeinum orðum.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður skuli leggja Búnaðarbanka Íslands óafturkræft framlag að upphæð 60 millj. kr., sem skiptist milli þessara þriggja deilda bankans í þeim hlutföllum, sem þar um ræðir. Og í 2. gr. er aftur gert ráð fyrir, að ríkissjóður skuli beinlínis taka þetta fé að láni hjá seðladeild Landsbankans og endurgreiða það á 40 árum, en til tryggingar þessu láni skuli ríkissjóður veðsetja Landsbankanum gegn 1. veðrétti þann hluta af jarðeignum þess opinbera, sem liggur utan kaupstaða og kauptúna.

Ég vil taka það fram strax, að þessi upphæð, 60 millj. kr., er sú upphæð, sem ég tel að sé hið raunverulega sölugildi þessara jarðeigna. Ég hef fengið upplýsingar um það í stjórnarráðinu, að fasteignamat þessara jarðeigna, sem hér um ræðir, er rétt um það bil 7 millj. kr., og ég hika ekki við að álykta, að söluverð þessara eigna núna sé allt að tífalt fasteignamatsverð, því að það vita allir, hvað fasteignamatsverðið er lítið. Hér er um að ræða eignir, sem ríkið á, eignir, sem eru í sveitunum og eru undirstaða verulegs hluta landbúnaðarins, því að það er ekki lítill hluti af jarðeignum í sveitum, sem hið opinbera á. Mér finnst mjög eðlilegt, að ríkið noti þessar eignir til þess að hafa sem baktryggingu bak við það fjármagn, sem nauðsynlega þarf að útvega til þessarar stofnunar, sem á að hafa lánastarfsemi landbúnaðarins eingöngu með höndum. Þess vegna tel ég eðlilegt að fara inn á þessa leið, að ríkið taki beinlínis lán hjá Landsbankanum út á þessar jarðeignir og leggi síðan Búnaðarbankanum það fé til sinnar starfsemi.

Nú er rétt að taka það fram, að á nokkrum hluta þessara jarðeigna hvíla veðbönd; að vísu hef ég ekki hér upplýsingar um, á hversu miklum hluta það er, það er vafalaust einhver hluti af þeim, en þó áreiðanlega ekki á nærri því öllum. Ástæðan til þess er sú, að yfirleitt hefur Búnaðarbankinn ekki veitt lán til bygginga nema gegn veði í fasteign, en hins vegar hefur það orðið að fastri reglu, að ábúendur þeirra jarða, sem eru í opinberri eign, hafa hiklaust fengið veðleyfi hins opinbera til þess að veðsetja jarðirnar ásamt þeim mannvirkjum, sem þeir reisa á þeim, fyrir þau lán, sem þeir hafa fengið í bankanum. Þessi veðbönd þarf vitanlega að leysa, ef inn á þá braut er farið að veðsetja Landsbankanum þessar eignir fyrir láni handa Búnaðarbankanum, og þess vegna er ákvæði um það í 3. gr., að séu þær jarðeignir, sem hér er um að ræða, veðsettar fyrir lánum, þá skuli viðkomandi lánsstofnun skylt að gefa þann veðrétt eftir, enda verður þá ríkisstj. að ábyrgjast þessi lán f. h. ríkissjóðs eða taka ábyrgð f. h. ríkissjóðs á þessum lánum. Ég skal geta þess í sambandi við það, að þessi lán eru a. m. k. svo að segja öll við Búnaðarbankann, en eðlilegast með þann litla hluta, sem kynni að vera við aðrar lánsstofnanir og þá helzt við einhverja sparisjóði, en áreiðanlega mjög lítið, að Búnaðarbankinn innleysi þau lán.

Ef til vill kann einhver að benda á það, að hér sé aftur Búnaðarbankanum skylt að lána út á eitthvað lakara veð, en beinlínis það fasteignaveð, sem hann hefur lánað út á hingað til, en ég þykist þess fullviss, að bankastjórn Búnaðarbankans muni ekki hafa neitt við þau atriði að athuga. Enn fremur má benda á það, að á nokkrum hluta þessara jarðeigna er ekki búið að vinna þær framkvæmdir, sem eðlilegast er að séu unnar fyrir lán úr þessari lánsstofnun, Búnaðarbankanum eða stofnlánadeildum hans, og þar sem búið yrði samkv. 1. og 2. gr. að veðsetja þessar eignir annarri lánsstofnun, þá verður að sjá fyrir því, að hægt sé að lána enn framvegis til sams konar framkvæmda á þessum jörðum eins og Búnaðarbankanum er skylt yfirleitt að lána til framkvæmda á öðrum jörðum. — Þetta þýðir þá það, að ríkisstj. eða ríkissjóður verður að taka ábyrgð á lánum til þeirra framkvæmda, sem unnar eru og gerðar á hans eigin eignum, þar sem hann væri búinn að binda með lögum veðrétt þeirra annars staðar.

Þá er enn fremur í 5. gr. gert ráð fyrir, .að lánum þeim, sem Búnaðarbankinn hefur fengið samkv. 1. og 8. tölulið 1. gr. laga nr. 14 1952, um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1951, og sömuleiðis láni ræktunarsjóðs af gengishagnaðinum skuli breytt í óafturkræf framlög. Ég benti á það í sambandi við umr. um annað mál í þessari hv. þd. fyrir fáum dögum, að það væri eðlilegt, að ríkið hjálpaði til þess að leysa úr þessum fjárhagsvandræðum, að því leyti sem það væri hægt, með því að innheimta ekki þessi lán, þar sem þau hefðu beinlínis komið upp í hendur ríkisins vegna sérstakra aðgerða annarra, en þeirra að afla ríkinu tekna, og ég ætla ekki að fara að eyða mörgum orðum um það hér aftur. En ég vil aðeins benda á það, að svo virðist sem það muni vera nokkurt fylgi a. m. k. fyrir þessari till. í þinginu, þar sem síðan hafa 3 hv. þm. í Ed. flutt frv. um nákvæmlega sama efni.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.