07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (3267)

120. mál, vinna unglinga og námsmanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir góðum undirtektum hv. 3. landsk. undir frv., og mér þótti mjög vænt um þær skoðanir, sem hann lét í ljós viðvíkjandi því, en líka viðvíkjandi þeim till., sem hann var með, og því, sem hann hafði verið að hugsa um sjálfur, þá væri það ákaflega æskileg aðferð, ef hægt væri að fá það fram. Við vitum nú hins vegar báðir viðvíkjandi vinnumiðlunarskrifstofunum, þó að það væri auðvitað miklu heppilegra að láta þær hafa um þetta að fjalla á öllum stöðum á landinu, að þá er það náttúrlega ekki rétt gott útlit. Við höfum sameiginlega barizt á móti því, að þær væru allar lagðar niður, svo sem ríkisstj. kúskaði hér í gegn, og það lítur náttúrlega ekki vel út fyrir, að það yrði mögulegt að fá það í gegn að endurreisa þær núna. En sem sagt, ég vil fullvissa hann um það, að hvaða háttur sem á yrði hafður, sem næði þessum tilgangi, þá er ég alveg sammála honum. Það yrði eingöngu að fara eftir því, hvernig hægt væri að ná þessum tilgangi fram.

Ég vil taka það fram út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að það virtist koma eitthvað illa við hann, að það hefur komið stundum fyrir, að Alþfl. og Sósfl. hafi staðið mjög áberandi saman um ýmis mál hérna á þinginu, og ég sá meira að segja, að blaði hv. Sjálfstfl., Morgunblaðinu, varð næstum bumbult af að sjá, að við formenn þessara flokka, sem eigum sæti í fjhn., skyldum flytja till. saman, fannst bara alveg ósköp, að annað eins skyldi nú koma fyrir. Það má vel vera, að hv. Sjálfstfl. sé eitthvað smeykur við það, ef verkalýðurinn í landinu stæði betur saman, en hann hefur gert fram að þessu, og ég held, að það sé alveg rétt af hæstv. ráðh. að vera dálítið smeykur við það. Það gæti vel orðið ýmiss konar breyting hér á, ef það mætti takast.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. var að segja, að ég hefði lagt skyldur á herðar fjárhagsráði í þessu efni, ég hefði átt að breyta l. um fjárhagsráð og ég hefði átt að gefa því einhverja möguleika, aumingja fjárhagsráði, til þess að geta gert þetta, þá finnst mér satt að segja kveða við nokkuð annan tón núna hjá hæstv. ráðh. heldur en þegar hann var að tala um fjárhagsráð seinast í sambandi við bátaútvegsgjaldeyrinn. Ég hef aldrei vitað almáttugri stofnun en fjárhagsráð, — Alþingi, það var bara ekki neitt, — ríkisstjórnin, nú það var ekki nema pínulítið peð, — stjórnarskráin, það var einskis virt blað, — fjárhagsráð, það var bara fjárhagsráð, sem gat gert allt. Hvaða skatta sem átti að leggja hér á í þjóðfélaginu, hvaða gengi sem menn vildu hafa á íslenzkum gjaldeyri, hvernig sem menn vildu ráðstafa öllum íslenzkum innflutningi, hvað sem menn vildu leggja á hann, hvern sem menn vildu láta fá innflutninginn til þess að selja hann, fjárhagsráð gat ráðið því öllu saman. En núna á þetta aumingja vesalings fjárhagsráð að vera svoleiðis stofnun, að það ætti ekki einu sinni að mega fela því að sjá um, að 50, 60, 100 eða 200 ungir námsmenn gætu fengið vinnu í gegnum fjárhagsráð, og ég hefði átt að þurfa að breyta l. til þess. Á ég nú enn einu sinni að þurfa að fara að taka fjárhagsráðsl. til þess að lesa þau upp fyrir hæstv. viðskmrh.? Ég las dálítið upp fyrir hann úr þeim seinast, þegar okkur lenti saman, 11., 12. og 13. gr. Núna er hann í vandræðum með það.

Hann segir, að fjárhagsráð hafi ekki neinn möguleika til þess að skipuleggja neina vinnu. Má ég þá ekki í fyrsta lagi minna hæstv. ráðh. á 2. gr. l. um fjárhagsráð, þar sem þessu ráði er gefið í hendur bókstaflega valdið yfir öllum framkvæmdum í íslenzku atvinnulífi, að samræma þær allar saman — og til hvers? Í fyrsta lagi til þess, að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna. Veit hæstv. ráðh. það ekki, að í fimm ár er lögum samkv. búið að hvíla á fjárhagsráði að sjá öllum mönnum í landinu fyrir vinnu, ekki bara unglingunum, heldur líka öllum fjölskyldufeðrum og öllum þeim, sem vilja vinna? Og það er ekkert smáræðisvald, sem lagt er í hendurnar á fjárhagsráði til þess að framfylgja þessu. Í 3. gr. er alveg sagt fyrir um, hvaða vald það hafi viðvíkjandi undirbúningi að þessu öllu saman, hvernig það semji áætlun um þetta allt saman, hvernig það leggi heildaráætlun yfir þetta allt saman fyrir Alþingi, hvernig það sé lagt til grundvallar fyrir samningu fjárlaga hvers einasta árs, hvernig fjárhagsráð getur gert sínar áætlanir um allan þjóðarbúskapinn, hvernig allur innflutningur og útflutningur er fyrst og fremst undir stjórn þessa ráðs. Nú, svo er þetta fjárhagsráð aldeilis ekki valdalaust til þess að tala við stofnanir þjóðfélagsins. Má ég minna hæstv. ráðh. á, hvernig 4. gr. fjárhagsráðsl. hljóðar? Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsráð leitar samvinnu um samningu heildaráætlunar við opinberar stofnanir, félög og einstaklinga, sem framleiðslu, verzlun, iðnað eða annan atvinnurekstur hafa með höndum, er fjárfestingu þarf til. Skulu þessir aðilar senda fjárhagsráði fyrir þann tíma, er það ákveður, áætlun um stofnfjárþörf sína, lánsfjárþörf, gjaldeyrisþörf og vinnuaflsþörf.“ — Og síðan stendur áfram: „Enn fremur skal fjárhagsráð hafa samvinnu við lánsstofnanir í landinu um samningu og framkvæmd fjárfestingaráætlunar, og ber þeim að skýra fjárhagsráði frá fjármagni því, er þær hafa yfir að ráða. Nú telur fjárhagsráð eigi nægilega séð fyrir fjárþörf fyrirtækja, er það telur nauðsyn til að stofnsetja, og skal það þá leita samvinnu við ríkisstjórn, lánsstofnanir og aðra aðila, er hlut gætu átt að máli, um fjáröflun til þessara fyrirtækja.“

Þetta er skylda, sem lögð er á herðar fjárhagsráðs. Það er lagt á herðar fjárhagsráðs og því er gefið vald til þess að sjá um það, að allir menn í landinu hafi vinnu og stofnsett sé nógu mikið af fyrirtækjum og rekinn nógu mikill atvinnurekstur, til þess að allir menn í landinu hafi vinnu, og ekki aðeins að þeir hafi vinnu, heldur líka til þess, að þeir hafi réttlátar tekjur fyrir sína vinnu. Og þetta er sú skylda lögum samkv., sem hvílir á fjárhagsráði. Og þegar fjárhagsráð framfylgir ekki þessari skyldu, þá er það að brjóta l. og fyrirgera grundvellinum, sem það á að starfa á.

5. gr., sem kemur þarna næst á eftir, gefur því vissar heimildir til þess að mega takmarka ákveðnar framkvæmdir, svo framarlega sem því virðist, að í of miklar framkvæmdir sé ráðizt og það sé ekki nægilegt vinnuafl til fyrir þessu öllu saman. Þá á að takmarka. En hver hefur svo verið praxísinn? Praxísinn hefur verið sá, að fjárhagsráð hefur einbeitt sér að því í umboði og með valdi ríkisstj. að skera þannig niður atvinnuna, að það væri ekki nóg atvinna handa öllum, heldur sárasta atvinnuleysi fyrir fjöldann allan af mönnum í landinu, sem sérstaklega hefur lent á unglingunum.

Fjárhagsráð hefur allan tímann haft möguleika til þess að tala við bankana tala við ríkisstj., tala við alla þá, sem geta látið fé af mörkum hér á Íslandi og geta ráðið seðlaútgáfunni og lánsfjárveltunni. Fjárhagsráð hefur haft möguleika til þess að tala við þessa menn og til þess að skipuleggja það, að það væri nægileg atvinna. Og það, sem ég legg hér til, var ekki styrkur, að það væru gefnir svo og svo miklir peningar til þessara unglinga. Það var ekki það. Ég var ekki að biðja um náðarbrauð handa þeim. Ég var að biðja um, að þeir fengju að vinna fyrir sér. Ég var að biðja um það réttlæti, að þeir fengju að vinna fyrir sér, til þess að þeir gætu haldið áfram námi að vetrinum. Og fjárhagsráð hefur haft þær skyldur á herðum í fimm ár að sjá um þetta. Það er því ekki til neins að koma hérna og segja: Fjárhagsráð hefur ekki þetta vald. Það hefur það einmitt, það hefur alla möguleikana. Það hefur möguleika til þess að skipuleggja það, að ekki vanti sérstaka vinnu. Það hefur möguleika til þess að skipuleggja það, að bankarnir jafnvel láni fé til sérstakrar vinnu. Það hefur möguleika til þess að sjá um það, að fé sé sett í veltuna, því að það er talað um arðbæra vinnu í þessu sambandi. Og það er gengið út frá því, að þetta séu hlutir, sem eigi að bera sig. Hann talar um, að það vanti, að fjárhagsráði séu gefin vopnin. Því eru gefin vopnin. Og svo talar hann um peningavandræði. Hann áleit sjálfur seinast þegar við ræddum saman, að fjárhagsráð gæti tekið eins mikla peninga og það vildi af þjóðfélaginu og úthlutað peningunum til hverra sem það vill. En hæstv. viðskmrh. álitur kannske, að fjárhagsráð hafi bara þetta vald, þegar það ætlar að taka peninga af almenningi með ólöglegu móti, eins og bátaútvegsgjaldeyrinum, og úthluta þeim til ríkra manna í landinu, en það sé ómögulegt að útvega peninga nokkurs staðar, ef það á að fara til fátækra unglinga, til þess að þeir geti unnið fyrir sér. Ég held þess vegna, að það sé alveg óþarfi að koma með þann fyrirslátt í þessu sambandi, og ég vil algerlega vísa því frá mér. Svo framarlega sem hæstv. viðsk.- og menntmrh. ætlar að standa hér á því, að það vanti valdið hjá fjárhagsráði og ríkisstj. til þess að gera eitthvað af þessum hlutum, — þessum sömu stofnunum sem hann sagði að eigi að hafa allt vald á himni og jörðu, þegar hann ræddi um bátaútvegsgjaldeyrinn, þá er auðséð, að hér er annað á bak við og verra. Þá er það hér á bak við, að auðmannastéttin hér í Reykjavík getur ekki sætt sig við það, að efnilegir unglingar úr alþýðustétt fái að læra, fái að nema og hafi sama rétt í þjóðfélaginu eins og börn auðmannanna. Og þá er bezt að horfast í augu við það, að það dugir engin hræsni og undansláttur í því sambandi.

Ég vil minna hv. þm., líka þá, sem koma til með að fjalla um þetta, að það er varla sárara til fyrir ungan mann úr alþýðustétt, sem langar til þess að læra, heldur en þegar honum er neitað um það, — neitað um það að fá að afla sér menntunar. Ég býst við, að hv. þingmenn þekki það máske margir sjálfir af eigin reynslu og margir máske af reynslu þeirra, sem tala og skrifa betur um það en nokkur okkar gerir. Ég að minnsta kosti man varla eftir átakanlegri frásögn í okkar bókmenntum heldur en þegar Stephan G. Stephansson lýsir því, þegar hann var í Víðimýrarseli sem ungur piltur og langaði til þess að læra. Það var á þeim árum, sem hann fékk lánaðar allar bækurnar hjá Jóni á Víðimýri, bækurnar, sem hann átti ekki fyrr en seint og síðar meir, en hann orti mörg af sínum beztu ljóðum út frá því sem hann mundi úr þeim bókum. Ég veit, að þið munið það allir: Hann langaði til þess að komast hingað suður til þess að læra, og eitt haustið, þegar þeir, sem efnaðri áttu að, Indriði Einarsson og ýmsir fleiri, voru að ríða suður veginn yfir Vatnsskarðið og hann horfði á eftir þeim og kastaði sér síðan niður á milli þúfnanna og grét; og þegar móðir hans kom og kallaði á hann og hann svaraði henni ekki, af því að hann vildi ekki láta hana sjá, hvað hann væri útgrátinn; og þegar hún gekk svo á hann seinna um daginn til þess að spyrja hann, hvað það hefði verið, sem að gengi; og hann sagði henni frá því; og því sagðist hann mest iðrast eftir, að hafa sagt henni það, því að mörgum árum seinna, þá hefði tilfinningin enn setið svo fast í henni, þegar hann hélt, að hún væri búin að gleyma því; og hún sagði við hann þá, að aldrei hefði sér fundizt sárari fátæktin heldur en þegar hann sagði henni þetta.

Það eru ekki margir af þeim efnilegu unglingum úr íslenzkri alþýðustétt, sem hafa þann kraft að geta brotizt þannig áfram og þá snilld til þess að geta sagt frá því, sem þeir hafa lifað og hugsað, eins og Stephan hafði. Það eru margir þeirra, sem brotna saman á lífsleiðinni og fá aldrei að njóta þess, sem í þeim býr. En við skulum bara muna það, að á okkar valdi, þingmannanna, er það, hvort við búum þannig að unglingunum, sem vaxa upp, að það sé ekki skilin eftir í sál þeirra nístandi tilfinning um óréttlætið, sem þeir verða að þola, og það bætist ofan á, að þjóðfélagið sé svipt mörgum af beztu kröftum sínum, sem það gat eignazt.

Ég vil sem sé lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum frá hv. 3. landsk., sem hér hafa komið fram. Og ég vil mega vonast eftir því, að sú hv. n., sem þetta frv. fer til. afgr. þetta fljótt og vel, taki tillit til þeirra athugasemda og till., sem hér hafa komið fram, og reyni sem mest að einbeita sér að því, að eitthvað til bóta verði í þessum málum gert, eftir hvaða leiðum sem henni finnst skynsamlegt að fara.