06.11.1952
Neðri deild: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (3272)

122. mál, atvinnuframkvæmdir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal taka það strax fram, að mér finnst þetta frv. vera mjög athyglisvert, og um það verður ekki deilt, að það grípur á einu stærsta vandamáli þjóðfélagsins nú, sem sé leið til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi við sjávarsíðuna, og annað mál kem ég nú ekki auga á, sem sé stærra viðfangsefni og verðugra fyrir góða ríkisstj. að færast í fang að leysa, annaðhvort með þessum hætti, sem hér er bent á, eða þá að einhverjum öðrum færum leiðum, sem hún kynni að finna. Það er alveg tvímælalaust, að það þarf að gerast eitthvað í þessum málum, sem breytir núverandi ástandi stórkostlega. Annaðhvort þarf að gera lánsstofnunum þjóðarinnar fært að veita lánsfé með hagkvæmum kjörum til þeirra atvinnuumbóta, sem rætt er um í þessu frv., eða að efla sjóði eins og fiskveiðasjóð og fiskimálasjóð til lausnar á þeim verkefnum, sem þetta frv. ræðir um, eða þá með því, sem lagt er hér til, að ríkisstj. taki allstórt lán til þess að endurlána það þeim aðilum, sem vildu færast það í fang að búa svo um hnútana, að atvinnuleysi væri ekki landlægt, þar sem hægt er að komast hjá því með eflingu sjávarútvegsins. Og það er nálega kringum alla strandlengju Íslands hægt að koma í veg fyrir atvinnuleysi, ef nægilega vel væri búið að atvinnulífinu í bæjum og kauptúnum.

Það er vikið að því hér í þessu frv., að það sé í raun og veru hlálegt, að það skuli vera ár eftir ár hægt að ræða um atvinnuleysi á Vestfjörðum, og bent á, að það stafi af því, að ekki sé nægilega vel búið að atvinnulífinu í þessum landshluta og þannig ekki hægt að nota þau frábærlega góðu skilyrði, sem eru þar til fiskveiða — alveg sérstaklega með togurum. Það er alveg rétt, sem flm. segir, að á haustin og veturna eru Austfjarðahafnir og Norðurlandshafnir ekki eins vel settar og Vestfjarðahafnirnar til þess að taka á móti togurum til þess að verka aflamagn þeirra. Það þykir illt í skammdeginu að þurfa að sigla af Halamiðum austur fyrir Horn og alla leið til Austfjarða, og mundi þá verða miklu aðgengilegra, ef hægt væri að verka afla togara í fiskvinnslustöðvum á vestfirzkum höfnum. En það er fjarri því, að aðstaða sé til þess sem skyldi. Svo að ég nefni sérstaklega Ísafjarðarkaupstað og aðstöðu hans til slíkra hluta, þá er það í fyrsta lagi þannig, að þetta bæjarfélag hefur aðallega byggt á vélbátaútgerð, en þorskaflinn hefur af einhverjum ástæðum lagzt svo frá á undanförnum árum, að ekki hefur til hans náðst með vélbátaflotanum nema að mjög litlu leyti. Til þess að geta tekið togara og verkað fiskinn af þeim í landi hefði þurft að bæta aðstöðuna að mjög miklu leyti, bæta hraðfrystihúsakost kaupstaðarins og stækka, koma þar upp ísframleiðslutækjum, hafa þar olíustöð til þess að birgja togarana upp, þegar þeir kæmu að landi, með brennsluolíur o. s. frv. Að fara í bankana til þess að fá þessum mannvirkjum komið upp núna á nokkrum seinustu árum, það hefur ekki verið fær leið. Bankarnir hafa ekki haft fé til slíkra nauðsynlegra hluta, og þar af leiðandi hafa þessi mannvirki ekki risið upp.

Á s.l. þingi var mjög um það rætt að veita Ísafjarðarkaupstað aðstoð til þess að bæta hraðfrystihúsakostinn í bænum. Sú aðstoð, svo aðkallandi sem hún þó var, er ekki komin enn frá hæstv. ríkisstj., og hefur þar staðið á einhverju, sem hefur að því er virðist verið nálægt því að vera að einhverju leyti dularfullt. Það verð ég að segja, því að atvinnuleysismál eru þó þannig, að lausn þeirra er aðkallandi, og í slíkum málum ætti hæstv. ríkisstj. einmitt sérstaklega að hafa hraðan á, þegar komið er auga á nauðsynleg verkefni, sem menn vilja færast í fang að leysa. Það er t. d. alkunnugt, að á undanförnum árum hefur verið góður markaður fyrir svo kallaðan stokkfisk, sem hefur verið fluttur héðan út og selzt ágætlega með góðum hagnaði. En á hverju hefur staðið, að togararnir almennt hafi getað tekið upp þessa verkunaraðferð? Á því, að innflutningsyfirvöld landsins hafa ekki viljað veita gjaldeyri til þess að kaupa inn efni í hjalla og þess vegna ekki hægt að notfæra sér þessa markaðsmöguleika. Það hefði þurft að kaupa inn mikið af trjárenglum frá Noregi til þess að koma upp þessum verkunarstöðvum. En nú gleður stærsta og víðlesnasta blað landsins okkur með því, að um þessi jól verði hægt að flytja inn mikið af jólatrjám frá Noregi, þ. e. a. s. nálega sams konar timbur eins og þarna er um að ræða að hefði þurfa að flytja inn á undanförnum árum í fiskþurrkunarhjalla, en gjaldeyrisyfirvöldin hafa ekki séð sér fært að flytja inn. Nú skulum við fá jólatré, svo að það verði gersamlega ólík jól nú eða í fyrra, þegar jólatrjáainnflutningurinn stöðvaðist vegna gin- og klaufaveikinnar í Danmörku. En mér er spurn: Mundi fjárhagsráð sjá sér fært að veita togarafélögunum innflutningsleyfi fyrir trjárenglum frá Noregi í hjalla, jafnvel að einhverju leyti í staðinn fyrir jólatrén, sem okkur er nú lofað? Þetta er dæmi þess, að glysið er látið sitja fyrir jafnvel hinum brýnustu þörfum undirstöðuatvinnuvegar eins og sjávarútvegsins af gjaldeyrisyfirvöldum þessa lands.

Af starfi mínu í atvinnumálanefnd ríkisins síðan í haust er mér það fyllilega ljóst, og var það reyndar áður, að ef það á að vera hægt að koma í veg fyrir árvisst atvinnuleysi í kauptúnum og kaupstöðum, þá verður fyrst og fremst að bæta um og leggja stórfé í bætt hafnarskilyrði, í byggingu þurrkhúsa, í byggingu harðfiskstöðva, í byggingu saltfiskverkunarstöðva og til stækkunar hraðfrystihúsum og byggingar smárra fiskimjölsverksmiðja, þ. e. a. s. til þess að vinna úr fiskúrgangi hraðfrystihúsanna, svo að ekki þurfi að kasta þeim verðmætum í sjó eins og gert hefur verið viða fram að þessu. Og ef þetta væri gert með myndarlegum hætti, þá er mér og mínum meðnm. ljóst, að það væri nálega í hverju einasta kauptúni og hverjum einasta bæ hægt að koma í veg fyrir það atvinnuleysi, sem við erum alltaf að horfast í augu við á hverjum einasta vetri í kringum landið og alltaf er verið að lappa við með því að kasta fram hundruðum þúsunda og sum árin milljónum til þess að eyða því í ófrjóa atvinnubótavinnu. Við erum sem sé alltaf að fást við þann draug, sem hægt væri að kveða niður með myndarlegu átaki í eitt skipti fyrir öll, annaðhvort með því að samþ. svona frv. ellegar með öðrum aðgerðum af hendi ríkisvaldsins, ef lánsfjárstofnunum þjóðarinnar væri gert kleift að bæta úr þeirri þörf, sem hér er vissulega fyrir hendi í atvinnulífinu við sjávarsíðuna.

Ég vil því vænta þess, að þetta frv. fái mjög vandlega athugun í n. og ef ekki verður hægt að fá samkomulag um, að það verði samþ., þá verði gerðar ráðstafanir til að efla svo lánsstofnanir sjávarútvegsins, fiskveiðasjóð, eins og frv. mun nú liggja fyrir um hér á þinginu, flutt af hv. þm. V-Ísf., og fiskimálasjóðinn, eða þá, ef það þykir ekki ráðlegt, að Útvegsbanka Íslands verði gert fært að vera lánsstofnun að því er þetta snertir og að það verði ekki hans hlutverk, eins og nú virðist helzt líta út fyrir, að hann gangi fyrst og fremst að vélbátaflotanum í landinu og heimti uppboð og sölu á honum, meðan verið er að brjótast í því að koma upp nýsköpunarstöðvum til þess að afstýra atvinnuleysinu í kaupstöðum landsins. En það er nú það, sem við horfumst í augu við í dag, að Útvegsbanki Íslands gengur að hinni fjárvana vélbátaútgerð og heimtar uppboð og sölur bæði austanlands og vestan, norðanlands og sunnan.