10.11.1952
Neðri deild: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

133. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi skattalögum er kveðið svo á, að þurfi skattgreiðandi að kaupa heimilisaðstoð, megi hann draga lögheimilaðan persónufrádrátt frá tekjum sínum vegna hinnar keyptu heimilisaðstoðar. Þurfi hjón af sérstökum ástæðum að hafa ráðskonu eða þurfi einstaklingur að hafa ráðskonu vegna ómegðar, sem hann hefur á framfæri sínu, þá er honum heimilt að draga frá tekjum sínum sem svarar persónufrádrætti einstaklings, en ekki hið greidda ráðskonukaup. Þessi regla er skiljanleg vegna þeirrar grundvallarreglu skattalaganna, að tekjur hjóna eru skattlagðar saman. Ef reglan væri ekki þessi, hefði það í för með sér, að einstaklingur, sem þyrfti að hafa ráðskonu vegna ómegðar, greiddi lægri skatt, en eiginmaður, ef kona hans vinnur á heimilinu. Hann fær aðeins að draga frá tekjum sinum persónufrádrátt einstaklings, og er þess vegna talið rétt, að einhleypur maður t. d., sem hefur ráðskonu, fái ekki heldur að draga meira frá tekjum sínum, en sem svarar persónufrádrætti einstaklingsins. Með tilliti til samsköttunarreglunnar, sem gildandi l. byggja á, er því þessi regla um hámark ráðskonufrádráttarins skiljanleg og eðlileg.

Hitt er svo annað mál, að þessi regla getur komið mjög ranglátlega niður. Gerum ráð fyrir því, að hjón hafi 30 þús. kr. árstekjur, þau hafi enga ráðskonu, en eiginkonan vinni á heimilinu. Af einhverjum ástæðum óskar konan þess ekki að inna störf sín af hendi á heimilinu, en vill heldur taka að sér starf utan heimilisins og kaupa ráðskonu til þess að vinna heimilisstörfin. Gerum ráð fyrir því, að hún geti unnið sér inn 15 þús. kr. utan heimilisins og geti fengið sér ráðskonu til þess að vinna heimilisstörfin fyrir 15 þús. kr. Hún gerir þetta. Afkoma hjónanna og heimilisins er því nákvæmlega hin sama eftir sem áður. Það, sem gerzt hefur, er einvörðungu það, að eiginkonan hefur viljað hagnýta sér þau skilyrði til verkaskiptingar. sem henni eru að skapi, samrýmast óskum hennar og starfslöngun, hún vill heldur vinna utan heimilisins og kaupa sér fyrir tekjur sínar þá heimilisstjórn, sem nauðsynleg er. En samkv. núgildandi reglum mundu skattgreiðslur þessa heimilis, þó að raunverulegar tekjur þess séu algerlega óbreyttar, hækka mjög verulega, vegna þess að 15 þús. kr. leggjast við tekjur mannsins. Tekjur hans verða því 45 þús. kr., en hann má aðeins draga persónufrádrátt einstaklings, sem nú er um 3.700 krónur, frá þessum 45 þús. kr. Skattskyldar tekjur húsbóndans hækka því um 15 þús. kr. að frádregnum aðeins 3.700 krónum. Raunveruleg lífsafkoma fjölskyldunnar er algerlega óbreytt, en aðeins vegna þess, að konan hefur óskað að hagnýta sér sjálfsagðan rétt sinn til þess að stunda það starf, sem er að hennar skapi, vaxa skattgreiðslur þessa heimilis verulega.

Þetta er auðvitað mjög óeðlilegt. Við svo búið má ekki standa. Með þessum reglum, eins og þær eru, er í raun og veru verið að skerða skilyrði konu til þess að vinna þau störf, sem henni eru hugstæðust. Hún er í raun og veru ekki algerlega frjáls að því að gegna starfi utan heimilis, jafnvel þótt hún láti allar tekjurnar ganga til greiðslu heimilisstjórnarinnar. Hún er ekki algerlega frjáls að því vegna þess, að það bakar heimilinu, eiginmanni hennar, aukna skattskyldu. Þetta er í raun og veru skerðing á atvinnufrelsi giftrar konu. Það verður tæplega talið, að hún njóti algers atvinnufrelsis, meðan hún eða þau hjónin verða að gjalda þess í skattgreiðslu, ef hún velur sér starf utan heimilisins, þó að hún með því starfi sjái fjárhagslega séð algerlega jafnvel fyrir heimilinu og áður. Þetta þarf nauðsynlega að breytast.

Annað mál er svo það, að ekki er hægt að lagfæra þetta með því einu að leyfa hækkaðan ráðskonufrádrátt frá því, sem nú er, t. d. með því að leyfa, að allt ráðskonukaup skuli vera frádráttarhæft. En till. um það hafa komið fram hér á hv. Alþingi, að ég held oftar en einu sinni. Ef slík skipan væri lögtekin, að allt ráðskonukaup skuli vera frádráttarhæft, ef á annað borð er talin þörf á ráðskonu, þá getur borgað sig betur fyrir konu áð vinna utan heimilis og hafa ráðskonu, því að þá fæst meiri frádráttur vegna heimilisstarfanna, en eiginmaður fær vegna eiginkonu sinnar, og það er auðvitað líka óréttlátt. Þá eru og greiddir lægri skattar af tekjum giftrar konu, sem vinnur utan heimilis, en konu, sem starfar að sameiginlegum atvinnurekstri þeirra hjónanna, starfar að atvinnurekstri manns síns og eykur sameiginlegar atvinnutekjur þeirra. Og þetta er líka óeðlilegt. Mál þetta er þess vegna engan veginn einfalt viðfangs. Það, sem verður að gera, er því fyrst og fremst að áætla eiginkonu ávallt tekjur vegna heimilisstarfanna, þ. e. a. s. áætla eiginkonunni hluta af tekjum manns síns sem greiðslu fyrir heimilisstörfin, ef hún innir þau af hendi.

Við flm. þessa frv. höfum einmitt lagt til, að þessi skipan verði tekin upp í frv. á þskj. 110, þar sem gert er ráð fyrir því, að allar giftar konur verði sjálfstæðir skattþegnar og fái í sinn hlut hluta af tekjum mannsins auk þeirra tekna, sem þær vinna sér inn sjálfar. En væri þetta gert, þá er eðlilegt að leyfa hækkaðan ráðskonufrádrátt frá því, sem nú er. Annars helzt það ranglæti gildandi skipunar, að eiginkona er ólíkt sett eftir því, hvort hún vinnur heima eða vinnur úti og kaupir heimilishjálp.

Má skýra þetta með dæmi. Gerum ráð fyrir því, að kvæntur maður hafi 30 þús. kr. árstekjur. Væri nú frv. á þskj. 110 lögtekið, þá væri tekjum skipt á milli hjónanna þannig, að hvoru þeirra væru reiknaðar 15 þús. kr. Gerum hins vegar ráð fyrir því, að annar kvæntur maður hafi einnig 30 þús. kr. árstekjur, en kona hans vinni utan heimilisins fyrir 15 þús. kr. og noti þessar tekjur til þess að greiða ráðskonu kaup fyrir að hafa með höndum heimilisstjórnina. Raunveruleg afkoma beggja þessara hjóna er því nákvæmlega hin sama. En jafnvel þó að frv. á þskj. 110 væri lögtekið, þá greiddi, að óbreyttum ráðskonufrádrætti, síðari eiginmaðurinn skatta af 30 þús. kr., að frádregnum hinum lága ráðskonufrádrætti, eða 3.700 kr., en kona hans af 15 þús. kr. tekjum. Og þessi hjón greiddu því hærri skatt af sömu raunverulegum tekjum, vegna þess að greidda ráðskonukaupið er 15 þús. kr., en honum er aðeins heimilað að draga 3.700 krónur frá tekjum sínum vegna hinnar aðkeyptu heimilisstjórnar. Þetta er auðvitað óeðlilegt, og þetta þarf að breytast. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að hámark frádráttarbærs kostnaðar við heimilisstjórn sé hækkað úr löglegum persónufrádrætti, eða nú 3.700 kr., og upp í 25 þús. kr., en það er sama tekjuhámarkið og gert er ráð fyrir á tekjum eiginkonu í frv. á þskj. 110.

Það er hins vegar ekki eðlilegt að heimila að draga allt greitt ráðskonukaup frá tekjum, vegna þess að þá gæti það heimili orðið betur sett, þar sem konan ynni utan heimilis og keypti dýra ráðskonu, heldur en hjón, þar sem konan vinnur á heimilinu. Það má því segja, að þetta frv. sé eins konar viðbót við frv. um sérsköttun hjóna á þskj. 110. Það er mjög eðlilegt, að þetta frv. nái fram að ganga, ef frv. á þskj. 110 nær fram að ganga. Hins vegar væri hægt að samþ. það frv. — og í því fælist mikil réttarbót — án þess að þetta frv. næði jafnhliða fram að ganga, sem þó væri tvímælalaust æskilegast. Hins vegar er ekki eðlilegt, að þetta frv. yrði samþ., ef sú réttarbót, sem í frv. á þskj. 110 felst, yrði ekki samþ., vegna þess að það mundi þá ívilna óeðlilega þeim hjónum, sem hafa ráðskonu, miðað við þau heimili, þar sem eiginkonan vinnur að heimilisstörfum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr., og mælast til þess við hv. fjhn., að hún taki bæði þessi frv.. þetta og frv. á þskj. 110, til athugunar sameiginlega.