13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3287)

134. mál, holræsagerðir

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. á þskj. 191 ásamt fleiri hv. þm. um aðstoð til holræsagerðar. Frv. þetta skýrir sig nú að mestu sjálft, og er ástæðulítið að reifa það mikið að þessu sinni. Ég býst við einnig, að hv. þm. sé nokkuð ljós sú þörf, sem er á því að styrkja ýmsa staði til þess að koma á hjá sér fullkomnum holræsum eða skolpleiðslum öðru nafni. Þetta er heilbrigðismál, sem því miður er mjög ábótavant víða um land allt. Er það sérstaklega í hinum smærri og nýrri þorpum, sem ástandið er slæmt. Fullkomin holræsi eða skolpleiðslur eru mjög dýr, þar sem leiða þarf langar leiðir, og er ekki við því að búast, að fámenn byggðarlög geti undir því risið að ljúka þessu verki á eigin spýtur. Það hefur þótt ástæða til að samþykkja lög um aðstoð til vatnsveitna, og það er góðra gjalda vert. En eins og það var nauðsynlegt á sínum tíma að gera það og eins og hv. Alþ. hefur þótt nauðsynlegt hverju sinni að styrkja vatnsveitur, þá tel ég víst, að þetta sé enn þá nauðsynlegra. Hin ýmsu byggðarlög geta með mörgu móti bjargað sér við það að ná í vatn, t. d. með brunnum, þótt það heyri ekki nútímanum til og skapi ekki þau þægindi, sem fólk helzt vill. En að koma skolpinu í burtu er ekki unnt nema með fullkomnum ræsum. Þar, sem þessi mál eru í ólagi, er hætta á ferðum heilbrigðislega séð.

Það, sem hér er farið fram á, er það, að styrkur til holræsagerðar verði veittur allt að helmingi kostnaðar, þar sem ástæða þykir til, og er það að nokkru á valdi ráðherra að kveða á um, hvernig styrkveitingunni skuli hagað hverju sinni. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að veita ábyrgð f. h. ríkissjóðs, en ábyrgðin og styrkur samanlagt má þó aldrei fara fram yfir 85% af kostnaðarverði. Styrkveitingin er vitanlega bundin við það, hversu mikið er veitt í þessu skyni á fjárlögum hverju sinni, og má því segja, að það sé hættulaust að samþykkja þetta frv. hvað það snertir, að ríkissjóði yrði ekki vegna þessara laga íþyngt um of. Það yrði aldrei veitt meira í styrk heldur en fært þætti að veita á hverjum fjárlögum í þessu skyni.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið á þessu stigi, en vil leyfa mér að mælast til, að því verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.