13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

142. mál, kaup á togara og togveiðibát fyrir Ísafjörð og sjávarþorpin við Ísafjarðardjúp

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 208 frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán til kaupa á togara og togveiðibát fyrir Ísafjörð og sjávarþorpin við Ísafjarðardjúp. Efni þess er það, að ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast fyrir h/f Ísfirðing á Ísafirði eða fyrir samtök, sem kynnu að verða mynduð af Ísfirðingum og útgerðarmönnum í Bolungavík, Hnífsdal og Súðavík, lán til kaupa á einum togara. Enn fremur er samkv. frv. gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast lán fyrir samtök útvegsmanna í Bolungavík til kaupa á 200 tonna togveiðibát. Þá er lagt til, að ábyrgðirnar megi vera fyrir upphæðum, sem nema allt að 90% af kaupverði skipanna, enda sé kaupverðið ekki óeðlilega hátt að áliti ríkisstj. og tryggingar settar, sem hún metur gildar.

Rökin fyrir þessu máli eru í fáum orðum þau, að rányrkjan á fiskimiðunum undanfarin ár hefur ekki bitnað eins harkalega á neinum og vestfirzkum sjómönnum og útgerðarmönnum. Það er alkunna, að fyrir utan Vestfirði liggja ein beztu veiðisvæði togaraflotans og að á þessi mið hafa sótt árlega hundruð erlendra og innlendra togara. Það leiðir af sjálfu sér, að þessi gífurlega ásókn togveiðiskipanna hlýtur að hafa haft mjög mikil áhrif á fiskigengd á grunnmið, þ. e. a. s. þau mið, sem bátafloti Vestfirðinga fyrst og fremst sækir á, enda er reynslan sú, að afli hefur farið stórminnkandi ár frá ári, þannig að segja má, að í allmörg ár hafi verið um verulegan, ef ekki algeran aflabrest að ræða.

Nú er það hins vegar þannig, að í þessum landshluta hefur togaraútgerð verið mjög lítil. Um alllangt skeið hafa að vísu verið gerðir út togarar af Patreksfirði með góðum árangri. Á síðari árum, eftir síðustu heimsstyrjöld, hefur einnig verið togaraútgerð á Ísafirði og áður fyrr einnig í smáum stíl. Sú togaraútgerð, sem nú er hafin á Ísafirði, hefur verið stórkostleg atvinnubót fyrir byggðarlagið, og má raunar segja, að ef hennar hefði ekki notið við, þá hefði verið um algert öngþveitisástand að ræða í atvinnumálum byggðarlagsins, svo lélegar sem þorskvertíðirnar hafa verið undanfarin ár. Þegar enn fremur er á það litið, að aflabrestur hefur orðið á síldveiðum 8 s. l. ár í röð, er auðsætt, hversu bátaútvegurinn í þessum kaupstað og í þessum landshluta yfirleitt hlýtur að vera illa á vegi staddur.

Af þessu ástandi hjá bátaútveginum á Vestfjörðum hefur hins vegar leitt það, að fjöldi vestfirzkra sjómanna hefur orðið að leita sér atvinnu utan landshluta síns, bæði á togurum og vélbátum. Ég held, að það sé ekki mælt af neinni svartsýni, þótt ég segi, að ef svo fer fram um langt skeið enn, að vestfirzkir sjómenn hafa ekki atvinnutæki, sem þeir geta stundað atvinnu sína á frá heimahögum, en verða að sækja í fjarlæga landshluta ár eftir ár, þá hljóti svo að fara, að þetta fólk neyðist til þess að flytjast burt frá þessum stöðum.

Það er þess vegna tillaga mín í þessu frv., að snúizt verði á raunhæfan hátt gegn þeim vanda, sem steðjar að vestfirzkri útgerð og sjómönnum, og ríkisvaldið leggi fram sinn skerf til þess að fá þeim ný atvinnutæki, þannig að þeir geti haldið áfram framleiðslustörfum frá þeim landshluta, sem þá hefur alið og staðið hefur mjög framarlega í framleiðslustarfsemi þjóðarinnar við sjávarsíðuna. Það hagar þannig til, að einn togari til viðbótar, sem gerður væri út frá Ísafirði, gæti orðið að miklu liði einnig fyrir sjávarþorpin við Ísafjarðardjúp, Bolungavík, Hnífsdal og Súðavík, þar sem akfært er nú á milli allra þessara þorpa og því hægt að hagnýta afla skips, sem leggur upp á Ísafirði. Á undanförnum árum hafa þeir tveir togarar. sem fyrir eru á Ísafirði, lagt afla sinn nokkuð upp þar á staðnum, og stundum hefur töluvert af honum gengið til vinnslu í hraðfrystihúsunum í þessum sjávarþorpum. Hins vegar er ekki því að neita, að útgerðin hefur ekki talið sér fært að leggja eins oft og jafnmikið af afla sínum á land til vinnslu hérlendis og æskilegt hefði verið séð frá atvinnusjónarmiði fólksins vestra. En það er mál, sem ég tel óþarft að rekja hér og er ekki einungis mál togaraútgerðar á Vestfjörðum, heldur og í landinu yfirleitt.

En auk þess sem hér er lagt til, að ríkissjóður greiði fyrir því, að nýr togari, hinn þriðji, komi til Ísafjarðar, er einnig lagt til, að ábyrgzt verði lán til kaupa á 200 tonna togveiðiskipi fyrir Bolungavík. En þar hagar þannig til vegna erfiðra hafnarskilyrða, að togari getur illa athafnað sig við hafnarmannvirki staðarins. Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir Bolungavík, sem er allfjölmennt pláss, hreppurinn samtals með um 800 íbúa, að fá aukin atvinnutæki, atvinnutæki, sem miðuð eru við hafnarskilyrði staðarins. 200 tonna skip getur mjög vel afgreitt sig við brimbrjótinn, og geta þess vegna orðið full not af rekstri þess þar og mjög mikil atvinnubót. Þess er einnig að geta í sambandi við þetta, að Bolvíkingar eiga einna erfiðast með að hagnýta afla, sem lagður er í land á Ísafirði, vegna þess að vegurinn til Bolungavíkur er einna skemmst opinn á ári hverju af þeim vegum, sem hér er um að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara miklu fleiri orðum um þetta frv. Kjarni málsins er sá, að rányrkjan fyrir Vestfjörðum, rányrkja erlendra og innlendra togara, er að koma bátaútveginum þar vestra á kaldan klaka og skapa atvinnuleysi og vandræði meðal almennings. Úr þessu verður að bæta, og það er ekki nema sanngirniskrafa, að þjóðfélagið hlaupi undir bagga með þeim landshluta, sem einna verst hefur orðið úti af völdum hinnar gegndarlausu rányrkju, sem framkvæmd hefur verið á íslenzkum fiskimiðum undanfarna áratugi.

Ég vil að lokum geta þess, að frv. þetta er flutt samkvæmt beiðni stjórnar togarafélagsins Ísfirðings á Ísafirði og samkvæmt beiðni og í samráði við hreppsnefndir allra hreppanna, sem hlut eiga að máli, Hólshrepps, Eyrarhrepps og Súðavíkurhrepps. — Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.