20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

155. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur tvívegis verið flutt í hv. Ed., í bæði skiptin af mér og hv. 4. þm. Reykv. (HG). Nú er þetta mál flutt af öllum þm. Alþfl. í þessari hv. d. og þannig flutt í þriðja sinn.

Aðalhugsunin, sem liggur að baki þessa frv., er sú að freista þess að taka atvinnuleysisvandamálin nokkuð öðrum tökum en gert hefur verið til þessa. Meginefni frv. er túlkað í 1. og 2. gr. þess. Er þar gert ráð fyrir, að ríkið sjálft geri út ekki færri, en fjóra togara af þeirri stærð og gerð, sem að áliti reyndustu útgerðarmanna séu heppilegastir taldir til þess hlutverks að afla hráefnis á heimamiðum fyrir hraðfrystihús og önnur fiskiðjuver, sem nú eru illa hagnýtt, vegna þess að þau vantar hráefni. Ég hygg, að flestir útgerðarmenn, sem um þessi mál hafa hugsað, séu sammála um, að þegar togurunum er ekki ætlað að sækja veiðar á fjarlæg fiskimið og ekki heldur ætlað það hlutverk, sem nýsköpunartogurunum er ætlað öðrum þræði, nefnilega að vera flutningaskip aflans til annarra markaðslanda, þá henti bezt, að hér séu 200–300 tonna skip valin til þessa hlutverks. — Í 2. gr. frv. er svo tekið fram, hvert sé höfuðmarkmið þessarar fyrirhuguðu ríkisútgerðar á togurum. Og höfuðmarkmiðið er sem sé það, að reynt verði að jafna atvinnuna í kaupstöðum og kauptúnum landsins með því móti að láta togara þessa leggja afla einkum þar á land, sem atvinnuleysi gerir vart við sig, þannig að brýn þörf sé aukinnar atvinnu, og þar sem svo háttar til, að fiskvinnslutæki séu til á staðnum, sem ekki hafi verkefni að vinna; m. ö. o., að þeim sé ætlað að leggja afla þar á land, sem vinnuafl er ónotað og þjóðfélagið á fast fé í illa notuðum atvinnutækjum.

Í 3. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, og er það í sparnaðarskyni, að stjórn togaraútgerðar ríkisins verði falin stjórn síldarverksmiðja ríkisins og að framkvæmdastjóri síldarverksmiðjanna verði einnig framkvæmdastjóri togaraútgerðarinnar. Með þessu móti ætti að vera hægt að spara verulegt fé í stjórnarkostnaði og framkvæmdastjórakostnaði og einnig skrifstofuhaldi, þar sem líklegt má telja, að ekki þyrfti neitt aukið mannahald hjá ríkisverksmiðjunum, þó að starfsliði þeirra væri ætlað að taka þetta hlutverk einnig að sér.

Í 4. gr. er svo tekið fram, að þessum togurum sé einnig ætlað að afla ríkisverksmiðjunum hráefnis, þannig að rekstrartími þeirra geti orðið nokkru lengri en nú er og þannig bætt afkomumöguleika þeirra, þó þannig, að ekki sé misst sjónar á höfuðhlutverki hinna ríkisreknu togara, sem sé að jafna atvinnuna í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að gera efni 5., 6. og 7. gr. að umræðuefni. Þær greinar skýra sig að öllu leyti sjálfar.

Eins og ég hef þegar gert grein fyrir, þá er þetta frv. tilraun í þá átt að taka atvinnuleysisvandamálin öðrum tökum, en gert hefur verið til þessa. Menn eru búnir að fá reynslu af því, að atvinnubótavinna, sem framkvæmd er af bæjar- og sveitarfélögum, venjulegast með ríkisaðstoð, með framlögðu fé úr ríkissjóði, vill oft og tíðum skila litlum arði, þó að menn hins vegar séu líklega sammála um, að hún sé þó tiltækilegri úrlausn í atvinnuleysisvandamálunum heldur en að taka hið atvinnulausa fólk hreint og beint á framfærslu hins opinbera. Það er þó vitað, að ekkert verðmæti kemur upp í framfærslueyrinn. En atvinnubótavinnan hrekkur skammt. Og þá er spurningin: Hvernig á að sjá fyrir því fólki, sem ekki á þess kost að leggja fram vinnuorku sína í þjónustu þjóðfélagsins og verður þannig vanmegnugt þess að sjá fyrir sér og sínum? Það eru ekki áhyggjur af þessum málum þar, sem nægur skipastóll er og næg atvinnutæki í landi, nema því aðeins að afli bregðist gersamlega, en aflatregða undanfarinna ára hefur víða valdið því, að það er fjarri því á ýmsum stöðum, að nægilega margir vélbátar séu í rekstri til þess að fullnægja í fyrsta lagi atvinnuþörf viðkomandi staðar og í öðru lagi til þess að þeir geti með þeim lélegu aflabrögðum séð fiskvinnslustöðvum viðkomandi staðar fyrir hráefnum til vinnslu. Og þá gerist það, að fólkið gengur vitanlega atvinnulaust og stórkostleg atvinnutæki eru ónotuð. Á öðrum stöðum er ekki hægt að bjarga því við að afla fiskiðnaðarfyrirtækjunum hráefnis með vélbátaútgerð, vegna þess að það er orðið svo langsótt á fiskimið, að það er ekki unnt að ná til aflans með vélbátum. Þá hefur á nokkrum stöðum verið bætt úr þessu með kaupum togara, sem annaðhvort einstaklingar eða einstök bæjarfélög hafa keypt og rekið. Menn gerðu sér vonir um, að nýsköpunartogararnir mundu bæta úr atvinnuleysisvandamáli þeirra staða, sem þeir fóru til, en þær vonir hafa að verulegu leyti brugðizt víðast hvar. Rekstri þeirra hefur verið hagað þannig, eins og alkunnugt er, að þeir hafa flutt aflafeng sinn á erlendan markað sjálfir, gersamlega óunninn, og þannig skapað mjög litla atvinnu í landi. Það er fullyrt, að þeir eigi ekki annars kost, því að lánastarfsemi bankanna sé hagað á þann veg, að þeir fái ekki nægilegt rekstrarfé til þess að geta átt sjálfir aflafeng sinn, legið með hann í fleiri eða færri mánuði og kostað vinnslu hans. Hins vegar fá þeir greitt út í hönd andvirði aflans, ef þeir sigla með hann á erlendan markað.

Það virðist ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi getað haft þau áhrif á stefnu bankanna í þessum málum, að hægt yrði að beita nýsköpunartogurunum almennt sem atvinnusköpunartækjum í sambandi við fiskiðjuverin, en það hefði vitanlega verið það langsamlega æskilegasta og leyst vandamál þeirra staða, þar sem slíkir togarar eru gerðir út. Það getur ekki heitið, að það sé nema einn kaupstaður á Íslandi, sem hefur notað nýsköpunartogarana til öflunar hráefnis fyrir hraðfrystihúsin og hefur með því móti gerbreytt atvinnuástandi þess kaupstaðar, en þetta er Akraneskaupstaður. Aðrir telja sig ekki geta þetta og bera aðallega fyrir sig, eins og ég áður sagði, rekstrarfjárskortinn. Það hafa því orðið erlendir verkamenn, en ekki íslenzkir, sem hafa fengið vinnu við afla þessara íslenzku skipa, en atvinnuleysið aftur blómgazt á Íslandi samtímis. Það er afar hætt við því, að það verði svo í næstu framtíð, að nýsköpunartogararnir verði að nokkuð miklu leyti látnir sækja afla á fjarlæg mið og fara með hann óunninn til markaðslandanna. Það verða því ekki byggðar sterkar vonir á því, að þeir bæti úr atvinnuleysisvandamálinu umfram það, sem þeir hafa gert núna á seinustu árum, sem er allt of lítið, eins og ég hef tekið fram.

Þá hefur verið stungið upp á því, og þeirri skoðun virðist vaxa fylgi frá ári til árs, að Íslendingar kaupi sér nokkra togara af smærri gerð, en nýsköpunartogararnir eru, ekki stærri en 200–300 tonna skip, og geri þá beinlínis út með það fyrir augum, að þeir leggi aflann á land á ýmsum stöðum eftir atvinnuþörf og verkefnaþörf fiskiðjuvera. Ef þessi skip væru keypt af einstaklingum og rekin af þeim, þá yrði verkefni hvers slíks skips aðeins það að bæta úr atvinnuþörf og fullnægja fiskvinnslumöguleikum einhvers eins staðar. Sama yrði niðurstaðan, ef þeir yrðu keyptir og reknir sem bæjarfyrirtæki. Það er því ekki af prinsipástæðum, sem við flm. þessa frv. leggjum til, að þessir togarar verði reknir af ríkinu, heldur af hinu, að þeir gegni því hlutverki að leggja afla á land, kannske á 2–3 höfnum norðanlands í einni veiðiför og svo kannske á 2–3 höfnum vestanlands í annarri veiðiför og ef til vill afla á 2–3 Austfjarðahöfnum í þeirri þriðju. Þessu er ekki hægt að koma fyrir, nema því aðeins að þetta séu skip, sem séu eign ríkisins, undir stjórn manna, sem valdir væru af ríkinu til þess að leysa þetta þjóðfélagslega vandamál hinna ýmsu staða, sem ríkið vitanlega hefur skyldur við. Það er af þessum ástæðum og þessum ástæðum einum, sem við í þessu frv. leggjum til, að ríkisrekstrarfyrirkomulagið sé viðhaft. Við getum ekki séð, að hin önnur rekstrarform, einstaklingsrekstur eða bæjarútgerð, geti átt þarna við, svo að skipin næðu þeim tilgangi sínum, sem markaður er í þessu frv.

Ég get upplýst það, að í skýrslum þeim, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur nú fengið frá mörgum bæjarfélögum og kauptúnum, þar sem lagðar hafa verið fram till. frá sveitarstjórnum og atvinnumálanefndum viðkomandi staða, hefur mjög víða verið till. um það, að þar þyrfti að leggja afla á land úr togurum þann tíma ársins, sem ekki sé hægt að stunda fiskveiðar á þeim vélbátaflota, sem á stöðunum sé. Sumir þessir staðir hafa ekki hafnarskilyrði til þess að geta afgreitt nýsköpunartogara, en hefðu hins vegar hafnarskilyrði til þess að geta afgreitt togara, sem væru ekki stærri en 200–300 tonn. Sumir þessara staða eru þannig settir með hraðfrystihúsakost, að þeir gætu ekki tekið við svo stórum farmi sem nýsköpunartogararnir koma með úr einni veiðiför, en gætu hins vegar ráðið við farm smærri togara, sem þess vegna hefðu styttri útivíst hverju sinni og kæmu með minni aflafeng í einu. Að þessu tvennu leyti mundu smærri togarar miklu betur fullnægja þeim skilyrðum, sem eru fyrir hendi, einkanlega í kauptúnunum, og leysa betur þetta vandamál heldur en unnt væri nema með stórkostlegum umbótum, stækkun fiskiðjuvera og umbótum á hafnarmannvirkjum, ef nýsköpunartogurunum væri ætlað að leysa vandann. Þá er það svo með ýmis hinna smærri kauptúna, að þar eru kannske ágæt skilyrði meira en helming ársins til þess að afla fisks á smærri vélbátum og sjómannastéttin þar hæfir nokkurn veginn þeim vélbátaflota, sem til er. Ef nú væri fenginn togari í svona kauptún og ætti að manna hann út þaðan og hann væri í einkaeign eða bæjarrekstri, þá má búast við, að fyrst í stað sköpuðust af því vandkvæði, að meginþorri sjómannanna færi á togarann og vélbátaflotinn stæði svo mannlaus eftir, og drægi þannig úr framleiðslugetu þess flota, sem fyrir er, og það væri hvergi nærri gott. Hitt hentaði þá betur, að ríkistogari kæmi þar að landi þann hluta ársins, sem vélbátaflotinn væri ekki í gangi, og legði þar afla á land til þess að skapa atvinnumöguleika fyrir verkafólkið á landi. Það kom t. d. fram í sambandi við togaramál Húsvíkinga. Þeir gerðu grein fyrir því, að það væri mjög þýðingarmikið fyrir þá að halda úti vélbátunum, sem þar væru, vor og sumar og fram á haust, en eftir að komið væri fram í októbermánuð, væri engin leið að ná á fiskimiðin með vélbátunum, sem þar væru staðsettir, fyrr en aftur kæmi fram í marz- eða aprílmánuð, og á þessum tíma væri þess vegna staðbundið atvinnuleysi í Húsavík og þyrfti að vera hægt að leggja togaraafla þar á land. Það yrði vissulega miklu minni röskun í þessu kauptúni með því móti, að sjómennirnir af vélbátaflotanum færu ekki á togara, sem ætti þar heima, heldur héldu áfram sínum atvinnuvegi 7–8 mánuði ársins, en atvinnulífinu væri séð borgið eða því veitt nauðsynleg aðstoð með því, að lagður væri á land aflafengur ríkisrekins togara yfir vetrarmánuðina. Þannig eru margir staðir, að það þarf að fá verkefni fyrir hraðfrystihúsin og verkefni fyrir atvinnulaust fólk yfir vetrarmánuðina. Á öðrum stöðum þarf að sinna þessu hlutverki yfir sumarmánuðina. T. d. á Vestfjarðahöfnunum ýmsum skapast atvinnuleysistímabil jafnaðarlega yfir sumarmánuðina. Þá fá hraðfrystihúsin ófullnægjandi hráefni frá vélbátum þar vestur frá. Meginhluti vélbátaflotans hefur þá oftast nær verið á síldveiðum í öðrum landshluta og ákaflega rýr atvinna oft hjá fólkinu, sem eftir er í kauptúnunum vestanlands, einmitt á sumrin. Þannig gæti hlutverk ríkisrekins togara skipt um stað nokkuð eftir árstíðum. — togarinn fullnægt sínu hlutverki yfir vetrarmánuðina í einum landshlutanum og á sumrin eða á vorin í öðrum.

Ég hef með því, sem ég hef nú sagt, gert í fyrsta lagi grein fyrir meginefni frv. og í öðru lagi rætt það, hvers vegna við teljum, að þessir togarar þurfi að vera ríkisins eign, þegar þeir eru að inna það almenna þjóðfélagslega hlutverk af hendi að koma í veg fyrir atvinnuleysi, hvar sem það gerir vart við sig í landinu. Í þriðja lagi hef ég reynt að gera grein fyrir því, hvers vegna þeir komi að almennari notum, en jafnvel hinir stóru og fullkomnu nýsköpunartogarar okkar og hvernig þeir falli betur inn í það atvinnulíf, sem á vissum tímum árs er í kauptúnum og sjávarþorpum og togaraútgerðin, sem ætti að bæta úr atvinnuleysisástandinu vissan tíma árs, mætti þá ekki trufla eða raska, og hef komizt að þeirri niðurstöðu, að þessu öllu verði bezt náð með því, að ríkið ráðist í að kaupa ekki færri, en fjóra 200–300 tonna dieseltogara og geri þá út með þetta hlutverk fyrir augum.

Ríkið hefur ekki getað komizt hjá því á undanförnum árum að verja milljónum til þess að hlaupa undir bagga með kaupstöðum og kauptúnum vegna atvinnuleysis, og hefur því verið varið ýmist til styrktar við vélbátaútgerð ellegar til þess að framkvæma miður arðsama atvinnubótavinnu. Ég mundi vilja gera mér vonir um það, að ef ekki tækist svo lánlega til, að slík útgerð nýtízku skipa, sem þannig ættu að vera ódýrari í rekstri, en hinir eldri togarar, gæti verið rekin hallalaus, þá mætti þó a. m. k. gera sér vonir um það, að halli þeirra yrði ekki meiri en þeim fjárfúlgum nemur, sem þjóðfélagið hefur nú á undanförnum árum varið til þess að reyna að draga úr atvinnuleysinu, þegar það hefur skapazt og verið komið í algleyming, og þó ekki tekizt nema að sáralitlu leyti að bæta úr því. Það er ömurlegt að horfa upp á það framvegis eins og hingað til. að atvinnufyrirtæki, sem annaðhvort einstaklingar eða sveitarfélög eru búin að binda of fjár í, séu lítt eða ekki notuð og fólkið atvinnulaust allt í kringum þessi fyrirtæki. Mér virðist og okkur flm. þessa frv., að það væru miklu ánægjulegri afskipti af þessum málum fyrir ríkisstj. á hverjum tíma að bæta úr þessu hvoru tveggja með myndarlegum aðgerðum heldur en að vera sífellt að leggja fram stórfé í þessu skyni, án þess að geta þó nokkurn tíma ráðið við atvinnuleysisvofuna, sem alltaf skýtur upp kollinum frá ári til árs þrátt fyrir þá viðleitni, sem sýnd hefur verið af hendi ríkisins í því formi, sem gert hefur verið til þessa.

Ég vil vona, að vilji hv. þm. til þess, að ríkisvaldið geri myndarlega tilraun til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi með þessum hætti, sem hér er lagt til, fái góðar undirtektir og frv. verði afgr. á þessu þingi. Þm. eru vissulega búnir að fá góðan tíma til þess að átta sig á þessu máli, þar sem málið er nú flutt í þriðja sinn og viðhorfið hefur á þeim tíma vissulega breytzt í þá átt, að þörfin er brýnni, nú en nokkru sinni fyrr. Atvinnuleysið er alvarlegra nú en það hefur verið nokkru sinni fyrr, a. m. k. nú í mörg ár.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.