25.11.1952
Neðri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

163. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð í framsögu fyrir þessu máli, vegna þess að í grg. er tekið fram svo að segja allt, sem þarf að segja til skýringar á því.

Það er kunnugt, að fjárskortur hefur mjög háð starfsemi Búnaðarbanka Íslands, og núna stendur mjög illa á gagnvart því atriði, sem þetta frv. fjallar um. Það hefur verið um það rætt hér í Alþ., og hv. þdm. muna það vel, að á síðasta þingi var samþ. frv. til l. um lántökuheimild fyrir ríkisstj. handa Búnaðarbankanum, og skyldi það lán tekið í Alþjóðabankanum. Þetta lán var tekið á þessu ári, og það er það fé, sem bankinn hefur yfirleitt til að lána út nú sem stendur. En þessu láni fylgdu þau skilyrði, að það má ekki lána neitt af því fé til framkvæmda, sem unnar voru fyrir 1. nóv. 1951. Þetta hefur komið til umr. hér í d. fyrr á þessu þingi. Nú stendur svo á, að það fé, sem bankinn hafði til umráða, áður en hann fékk þetta lán, hefur ekki hrokkið til þess að greiða út lán til allra þeirra framkvæmda, sem unnar voru fyrir þennan tíma, og þess vegna er þar bil á milli, sem alveg nauðsynlegt er að brúa, því að eins og ástandið er núna, eru allmargir menn, sem búnir voru að vinna ákveðnar framkvæmdir í þeirri góðu trú, að þeir fengju lán í bankanum eins og aðrir, þ. e. a. s. þeir nytu sömu réttinda eins og aðrir, en hafa lent á þessu tímabili, og þess vegna er það hreinn óréttur gagnvart þeim, ef ekki verður leyst úr þessu hið allra bráðasta. Þess vegna er það, að ég flyt þetta frv. um, að ríkisstj. skuli heimilt að lána Búnaðarbankanum allt að 3 millj. kr. úr mótvirðissjóði til þess að leysa úr þessu eina atriði, sem hér er um að ræða.

Ég vil benda á það í sambandi við þetta, að það er hér á leiðinni í gegnum þingið frv. frá ríkisstj. um 22 millj. kr. lán í Alþjóðabankanum vegna Búnaðarbanka Íslands. En það má ganga út frá því sem vísu, að þó að þetta lán fáist, sem ekki mun þó vera einu sinni víst um enn þá, þá muni því fylgja sömu skilyrði eins og hinu fyrra, svo að það mundi alls ekki leysa úr þessu vandamáli, sem hér er um að ræða, og alls ekki bæta úr þeim órétti, sem þessum mönnum verður gerður, ef ekki verður fljótlega leyst úr lánaþörf þeirra hvað þetta snertir. Mér virðist þess vegna eðlilegt, að það verði gripið til þess ráðs að lána þetta fé úr mótvirðissjóði, a. m. k. núna í bili, til þess að leysa úr þessu sérstaka vandamáli, og ég geri mér von um það, að þetta frv. geti, vegna þess að hér er svo lítið um að ræða, komizt mjög fljótt í gegnum þingið. Það vita að vísu allir, að það eru fleiri frv. í þinginu um aukið fé handa Búnaðarbankanum, en það eru yfirleitt miklu stærri mál, og má búast við, að þau tefjist meira. En þetta verkefni þarf að leysa svo fljótt, að ég tel ástæðu til þess að taka það sérstaklega út úr.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég mundi út af fyrir sig alveg eins sætta mig við það, ef hæstv. ríkisstj. sæi einhverja aðra leið til þess að leysa úr þessu sérstaka vandamáli. Þá er það út af fyrir sig gott og blessað. Mér hefur komið þessi lausn til hugar, og ég tel hana tiltölulega mjög auðvelda vegna þess fjár, sem er núna í mótvirðissjóði, og hef þess vegna flutt þetta frv.