08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

10. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki sérstaklega mikið um þetta frv. að segja. Það kom fyrir okkur á síðasta þingi líka frv. um lán til áburðarverksmiðjunnar, og ég gerði í sambandi við það nokkuð að umtalsefni, á hvern hátt þessi lán væru látin í té og til hvaða aðila. Þau mál voru þá afgr., án þess að það fengist endanlega úr því skorið, hver sá aðili raunverulega væri, sem ríkisstj. væri að láta þessi lán í té.

Lögin um áburðarverksmiðju hljóða um það, að ríkisstj. sé heimilt að láta reisa og reka verksmiðju, hún skuli leggja fram fé til stofnunar áburðarverksmiðju og verksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn, og sé hvorki heimilt að selja hana né veðsetja, nema. heimild sé veitt til þess af Alþingi. M.ö.o.: Allar 12 greinar laganna um áburðarverksmiðju hljóða um, að áburðarverksmiðjan sé sjálfseignarstofnun á sama hátt og t.d. Landsbankinn og aðrar slíkar eignar ríkisins, og það er ekkert í þessum lögum, sem raunverulega breytir þessu atriði. Hins vegar hef ég nú á tveim þingum komið fram með fyrirspurnir um það, hvernig hæstv. ríkisstj. liti á með eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni, og það hafa komið fram í umræðum yfirlýsingar frá ýmsum ráðherrum um það, að þessi áburðarverksmiðja væri eign hlutafélags. Ég hef mótmælt þessum yfirlýsingum og lýst því yfir, að ég álíti, að þær hefðu ekki neitt lagalegt gildi, þær gætu ekki breytt eignarréttinum á áburðarverksmiðjunni, eins og hann er ákvarðaður í öllum þeim afgerandi lagagreinum, 1.–12. gr. laganna. Hins vegar hafa nú verið settar í gegn hvað eftir annað í hv. deild ákvarðanir um að lána Áburðarverksmiðjunni h/f, sem er fyrirtæki, sem er ekki minnzt á í lögum um áburðarverksmiðjuna, fyrr en að nokkru leyti í 13. gr., en aldrei undir því nafni, allar þær lánsupphæðir, sem ríkið lætur þannig í té. Hvernig er hins vegar hin lagalega afstaða þessarar Áburðarverksmiðju h/f? Hún er þannig eftir 13. gr. laganna, að heimilt er að stofna hlutafélag, svo framarlega sem hægt er að fá 4 millj. kr. annars staðar að, en frá ríkissjóði, og skal þá verksmiðjan rekin sem hlutafélag. Með öðrum orðum: Það elna, sem segir í l., er, að svo framarlega sem hægt er að fá hlutafé að upphæð 4 millj. kr. annars staðar að, en frá ríkissjóði, þá skuli verksmiðjan rekin sem hlutafélag. Það stendur hvergi nokkurs staðar í þessum lögum, að verksmiðjan skuli fá að vera eign hlutafélags, — hvergi nokkurs staðar einn einasti bókstafur fyrir því. Og hitt er vitanlega fyrirkomulag, sem er mjög vel hugsanlegt, að rekstur eins fyrirtækis er hafður í hlutafélagsformi, þó að eigandi fyrirtækisins sé annar, en hlutafélagið. Það er hægt að stofna t.d. hlutafélag um að reka togara, sem t.d. bær eða ríki á.

Ég álít þess vegna, að lögin skeri alveg ótvirætt úr um það, að Áburðarverksmiðjan h/f sé hlutafélag, sem eftir lögunum eigi að annast rekstur á þessu fyrirtæki, en ekki eiga það, og ég vil nú, eins og ég hef gert áður, þegar þessi mál hafa verið hér til umræðu, láta þessa skoðun koma skýrt og greinilega fram, þannig að það sé ekki hægt að skilja, að nein af þeim ákvörðunum, sem teknar eru viðvíkjandi ráðstöfuninni á lántökunni, eigi að löghelga það, að Áburðarverksmiðjan h/f sé eigandi áburðarverksmiðjunnar. Ég verð líka að segja það, að það mundi vera undarlegt fyrirkomulag, ef á að stofna áburðarverksmiðju, sem kostar líklega 108 millj. kr., og ríkið á að taka að láni eða útvega á ýmsan hátt máske yfir 100 millj. kr. í þetta fyrirtæki, en siðan eigi þetta fyrirtæki, sem er sem sé að 98 hundraðshlutum skaffað fé af hálfu ríkisins, að vera eign hlutafélags, þar sem einstaklingar eiga 4 millj. og ríkið 6. Það mundi m.ö.o. þýða, að svo framarlega sem þessi áburðarverksmiðja yrði gott fyrirtæki, sem ég geng út frá, að allir voni, sem að henni hafa staðið, og borgaði smám saman niður sínar skuldir, þá yrðu, þegar búið væri að borga allar hennar skuldir, hún væri orðin skuldlaus að lokum og væri búin að eignast þessar 108 milljónir, sem í hana hafa verið lagðar, sem sé 6/10 hlutar hennar eign ríkisins og 4/10 hlutar eign einstaklinga. Ég vil, að það komi alveg skýrt og greinilega fram, hvort það sé hugmynd Alþ. að ráðstafa þannig eignum ríkisins, að það skuli skaffa af hálfu ríkisins 100 millj. kr. og það skuli vera lagt fram þannig, að ef allt gengur vel, þá skuli að lokum 4/10 hlutar áburðarverksmiðjunnar vera eign þeirra einstaklinga, — og þegar ég tala um einstaklinga, þá veit ég, að Samband íslenzkra samvinnufélaga er þar með, ég meina einstaka hluthafa, — og 6/10 hlutar eign ríkisins, þegar að lokum er búið að borga allar skuldir. Ég vil, að þetta komi alveg skýrt og greinilega fram, hvort það er hugsað að ráðstafa á þennan hátt framlögum ríkisins, og ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. fjmrh.: Er það rétt, að einhver hluti af þeim framlögum, sem veitt eru áburðarverksmiðjunni, sé hugsaður sem óafturkræf framlög? Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því í 2. gr. laganna, að það, sem ríkissjóður leggi fram samkv. ákvæðum fjárl., sé óafturkræft. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvort það fé eigi sem sé að verða óafturkræft, elgi að verða gjöf, sem þýðir, ef litið er á Áburðarverksmiðjuna h/f sem eiganda fyrirtækisins, að ríkissjóður eigi að gefa 4/10 hluta af sínum framlögum þessum einstöku hluthöfum. Ég vildi í fyrsta lagi spyrja að því og hvernig hæstv. fjmrh. álitur, að það samrýmist tilgangi 2. gr. — Í öðru lagi vildi ég spyrja að því, hvort einhver hluti af því fé, sem ríkið fær sem Marshalllán til áburðarverksmiðjunnar, sé látinn ganga áfram til áburðarverksmiðjunnar sem gjöf, því að þá mundi það líka þýða, að 4/10 hlutar af því færu sem gjöf raunverulega til einstakra hluthafa. Ég býst hins vegar ekki við, að sé fyrir hendi, að slíkt sé gert. Ég býst við, að það fé, sem ríkið tekur þannig við sem óafturkræfum framlögum, sem Marshallaðstoð, það verði eign ríkisins og áburðarverksmiðjan fái það aftur eins og aðrar þær stofnanir, sem þannig fá lán frá ríkinu. En þetta væri gott að fá upplýsingar um.

Nú er það vitanlegt öllum, sem fylgdust með, þegar þessi lög voru sett, að það var aldrei tilgangur Alþ., að sú áburðarverksmiðja, sem upp væri sett, væri annað, en eign ríkisins. Frv. um áburðarverksmiðju kom fyrst fram hér í Nd., var samþ. hér í Nd. í þeirri mynd, að það væri einvörðungu hugsað sem eign ríkisins og rekið af ríkinu. Við 1. og 2. umr. í Ed. var þetta líka óbreytt, en við 3. umr. í Ed. er komið þarna inn með þessa brtt., — ég man ekki hver það var, sem flutti hana, það er kannske misminni hjá mér, að það hafi verið hæstv. núverandi viðskmrh., — en við 6. umr. í þinginu, síðustu umr. í síðari deild, var komið inn með þessa breytingu, sem þarna var samþykkt, þannig að 13. gr. lítur nú út eins og hún er, að þessu megi breyta í rekstrarhlutafélag, og síðan eru l. þannig samþ. á síðasta degi þingsins, samþ. í Nd. við eina umr. Og svo á næsta þingi á eftir er því lýst yfir af einum ráðh., að þessi ríkisverksmiðja sé eign þessa hlutafélags. M.ö.o.: Það er smeygt inn í lögin í 13. gr. ákvæðum, sem eru þveröfug við allar aðrar greinar laganna, smeygt inn í af einum ráðh. á síðustu dögum þingsins, smeygt í gegnum báðar d. við sína umr. í hvorri, þegar þingið hefur yfirdrifið að gera og mikið af málum að afgreiða, orðalagið haft þannig, að það er ekki hægt eftir orðanna hljóðan að skilja það öðruvísi, en að það eigi að reka verksmiðjuna sem hlutafélag, og svo er byrjað að lýsa því yfir á næsta þingi á eftir, að þessi verksmiðja, þetta fyrirtæki, þetta 108 millj. kr. fyrirtæki, sem ríkið ríkið eigi að skaffa alla peninga í fyrir utan þær 4 millj. kr., sem ríkisbankarnir lána ákveðnum hluthöfum, eigi að vera eign þessa hlutafélags. Ég vil, að þessir hlutir komi alveg greinilega fram. Ég hef að vísu áður spurt um þetta, og hæstv. fjmrh. óskaði þá eftir því, af því að það lá á að afgreiða þau lög, sem þá lágu fyrir, að við afgreiddum þetta í fjhn. sem allra skjótast, og það var líka gert. Við gerðum þetta ekki að neinu löngu umtalsefni þá, en ég vil vonast til þess, að það verði betra næði á þessu þingi, til þess að þannig sé gengið frá þessum málum, að hér sé ekki neitt hægt að blanda málum. Þ.e.a.s., ef það er meiningin að gefa áburðarverksmiðjuna þessu hlutafélagi, þá álít ég nauðsynlegt, að það komi alveg greinilega fram, og þá þyrfti helzt líka að ganga þannig frá því, að l. sé alveg breytt og t.d. þeir menn, sem hafa í góðri trú lagt fram hlutafé til Áburðarverksmiðjunnar h/f, geti ekki löngu seinna, af því að þeir hafa haldið, að þeir væru að eignast þessa verksmiðju, farið að fara í mál á grundvelli þess, að þeir hafi verið blekktir til þess að leggja það fram, því að sem skiljanlegt er, þá munu þeir líta svo á, að þeir séu að eignast verksmiðjuna núna, en Alþ. liti þannig á seinna, eða dómstólar litu þannig á seinna, samkv. 1.–12. gr. l., að þeir hafi alls ekki verið að eignast hana, heldur hafi þeir bara verið að taka að sér rekstur á henni. Ég álít líka, að gagnvart þeim, sem hafa verið fengnir til að leggja þetta fram, sé alveg nauðsynlegt, að þetta komi núna alveg skýrt og ótvírætt í ljós, áður en á það er reynt, hvort áburðarverksmiðjan verður gott eða slæmt fjárhagslegt fyrirtæki, og það er hreinlegast, að Alþ. gangi þarna alveg greinilega frá þessu og hæstv. ríkisstj. kæmi þá sjálf fram með brtt. á l., ef hún vill hafa l. þannig, að þessi Áburðarverksmiðja h/f verð í eigandi fyrirtækisins, en ríkið sleppi sínum eignarrétti á þessu, eins og það á að hafa eftir 1.—12. gr. l. Ég þarf ekki að geta þess, að ég er á móti slíkri breytingu, en ég álít, að það geti ekki gengið, að þessu sé svo að segja lætt í gegn í andstöðu við öll lagafyrirmæli.