08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

10. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. er byrjaður að draga eitthvað í land í sambandi við þetta. Þegar hann svaraði minni fyrirspurn við 1. umr. svipaðrar lántökubeiðni á síðasta þingi, þá sagði hann alveg skýrt og skorinort, að þessi verksmiðja væri eign Áburðarverksmiðjunnar h/f. (Fjmrh.: Sagði ég það ekki áðan líka?) Nei, hann sagði nú ekki nema að félagið skyldi byggja og reka, en hæstv. fjmrh. hefur kannske ekki meint það, að hún væri alveg ótvírætt eign þessa fyrirtækis, en það var það, sem ég vildi fá fram hjá honum.

13. gr. í lögunum um áburðarverksmiðju hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr. að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðarverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins allt að 1 millj. króna. Ef slík framlög nema minnst 4 millj. kr., leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. króna, og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“ (Gripið fram í: Það er verið að stofna verksmiðjuna.) Það er verið að koma henni af stað. (Gripið fram í: Hún þarf þó að vera til.) Þá er verið að skapa hana. Með öðrum orðum: Í 13. gr. er ákveðið, að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. megi hafa þarna hlutafélagsform. Hvað segir nú 2. gr.? 2. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður leggur fram fé til stofnunar áburðarverksmiðju samkvæmt ákvæðum fjárlaga, og er fé þetta óafturkræft. Ef fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, er verksmiðjustjórninni heimlit að taka það fé, sem á vantar, að láni innanlands eða utan með samþykki ríkisstj. og á ábyrgð ríkissjóðs. Áburðarverksmiðjan skal standa straum af vöxtum og afborgunum þessara lána.“ 2. gr., sem 13. gr. að einhverju leyti breytir, á aðeins við, hvernig fé sé fengið til stofnunar áburðarverksmiðju, og breytir það í raun og veru engu öðru en því, að það, sem ríkið leggur fram samkv. 2. gr. og á að vera óafturkræft, það verður nú hlutafé. 13. gr. segir þarna greinilega, að þrátt fyrir ákvæði 2. gr., greinarinnar, sem tekur fram, að ríkissjóður skuli leggja fram óafturkræft fé, þá megi breyta því þannig, að í staðinn fyrir, að ríkissjóður leggi fram fé, sem sé óafturkræft, þá skuli það vera lagt fram sem hlutafé. Og það er það eina, sem 13. gr. breytir, enda er það tekið fram í byrjun hennar, að þetta sé „þrátt fyrir ákvæði 2. gr.“ Það er ekki verið að breyta 3. gr. með byrjun 13. gr. Það er ekki minnzt á 3. gr. En hvernig hljóðar 3. gr.? Hún hljóðar þannig: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“ Þessari gr. er ekki breytt að neinu leyti með 13. gr. Þannig er þeirri grein í þessum lögum, sem fjallar um það, að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun, sem lýtur sérstakri stjórn; að engu leyti breytt. Eignarrétturinn á verksmiðjunni er algerlega óbreyttur þrátt fyrir 13. gr., og 13. gr. tekur það sjálf greinilega fram, að það er aðeins útvegun fjárins og formið á því, sem verið er að breyta, og þar með reksturinn á verksmiðjunni. Þetta held ég að sé alveg ótvírætt, ef ætti að leggja þetta fyrir dómstóla. Hins vegar veit ég það, að hvert orð, sem hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa sagt um þetta mál, verður dýrt fyrir ríkið seinna meir, ef áburðarverksmiðjan verður gott fyrirtæki. Ef áburðarverksmiðjan verður gott fyrirtæki og ef Alþingi seinna meir lítur þannig á, að þetta sé stofnun, sem ríkið á, en hlutafélagið hafi aðeins fengið hana, eins og segir í 13. gr., til þess að reka verksmiðjuna sem hlutafélag, þá verður fyrir dómstólum af hálfu hluthafanna, þegar þeir hafa ekki lengur eignarréttinn á verksmiðjunni, vitnað í það, að ákveðnir ráðherrar Framsfl. hafi í þessum umræðum lýst því yfir, að hluthafarnir ættu þessa verksmiðju. Og þá verður það dæmt þannig af hálfu dómstóla, að ríkið hafi tekið á sig ákveðna ábyrgð og blekkt þessa menn til þess að leggja fram hlutafé og þeir hafi greitt það í góðri trú. Þetta er það, sem ég held að sé alveg hreint óhjákvæmilegt að komi fram, og þess vegna vil ég segja strax, að ef hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. eru á þeirri skoðun, að þessi verksmiðja, sem eftir 1. og 3. gr. l. er sjálfseignarstofnun og ríkisverksmiðja, eigi að vera eign þessa hlutafélags, þá er rétt fyrir þá að breyta lögunum í samræmi við það. Ég get ekki séð, hvað hæstv. ríkisstj. getur haft á móti því að ganga alveg hreinlega frá þessum málum. Það er ákveðið enn fremur í 3. gr., að verksmiðjan lúti sérstakri stjórn og Alþingi ráði líka, hvort hana megi selja eða veðsetja. Stjórn hlutafélagsins hefur sem sé engan rétt til neinnar veðsetningar eða neinnar sölu á nokkru í þessu sambandi. Enn fremur liggur það í hlutarins eðli samkvæmt þessum lögum, að það er Alþingi og Alþingi eitt, sem hefur rétt til þess að ákveða, hvernig þessari verksmiðju skuli stjórnað. Ef Alþingi samþykkir lagabreytingu á þessu, um að það skuli kosin 3 manna stjórn af Alþingi til að stjórna þessari verksmiðju, þá er Alþingi í sínum fulla rétti. Það er ekki hægt fyrir það hlutafélag, sem þarna á í hlut, að kvarta neitt, vegna þess að eftir lögum landsins er það Alþingi eitt, sem ræður stjórn verksmiðjunnar og getur gert það aðeins með því að breyta 13. gr. Hins vegar er alveg gefið mál, að stjórnendur og vissir hluthafar í hlutafélaginu Áburðarverksmiðjan h/f líta auðvitað þannig á og ganga út frá því í góðri trú, að þeir hafi um aldur og ævi fengið rétt til þess að ráða því, hvernig verksmiðjunni sé stjórnað, þannig að líka um þetta atriði getur seinna meir orðið alger ágreiningur. Ég vil þess vegna vekja eftirtekt hæstv. ríkisstj. á því, að það er að öllu leyti hættulegt frá hennar sjónarmiði, ef hún álítur, að þessi verksmiðja eigi að vera eign hlutafélagsins, að láta þessi lagaákvæði haldast, og ég vil þá skora á ríkisstj. að leggja fram frv. um breytingu á þessum l.

Það, sem ég hef fyrst og fremst verið að mótmæla hér, er þessi aðferð, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla að hafa við að koma eignarréttinum á verksmiðjunni yfir í hendur Áburðarverksmiðjunni h/f. Það er það, sem ég hef fyrst og fremst verið að gagnrýna hér. Ef á að gera það, þá er rétt að gera það alveg hreinlega með því að breyta þessum l., þannig að 13. gr. stangist ekki við allar hinar og það komi alveg greinilega fram og sé þá samþ. af löglegum meiri hluta hér, þeim mönnum, sem vilja taka ábyrgð á því. Hitt er svo aftur allt annað mál, sem hæstv. fjmrh. var að koma inn á og okkur greinir á um, hvor reksturinn sé skynsamlegri út af fyrir sig, að hafa þetta sem einkahlutafélag eða að hafa þetta sem ríkisfyrirtæki. Það er allt annað mál. Það snertir allt annað en það, sem við erum hérna að deila um. Ég skil nú ekki, af hverju hæstv. fjmrh. fer alveg sérstaklega að veitast að því og telja það næstum því ákaflega óskynsamlega skoðun af mér, að áburðarverksmiðjan skuli vera rekin sem ríkisfyrirtæki. Má ég bara spyrja: Hefur ekki Framsfl. barizt fyrir því alla sína tíð, að áburðarverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki, að það væri ríkiseign, að ríkið kæmi því upp, að ríkið ætti það? Hefur ekki sjálfur þessi hæstv. ráðherra lagt fram frv. hér á Alþingi til laga um áburðarverksmiðju, sem væri eingöngu eign ríkisins og stjórnað af Alþingi, sem kysi stjórn hennar, Alþingi einu saman? Hefur ekki þessi hæstv. ráðherra sjálfur beitt sér fyrir framgangi slíks frv. hér í Nd. og fengið það í gegn? Hefur hann ekki líka fylgt því eftir í Ed. gegnum tvær umr. þar? Ég held, að í staðinn fyrir að vera með einhverjar svona ákúrur til mín fyrir það, að ég skuli hafa leyft mér annað eins og að standa með því, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins, þá ætti hæstv. ráðh. að gefa okkur upplýsingar um, hvernig stóð á því, að Framsfl. breytti þannig um skoðun á rekstri áburðarverksmiðjunnar, eftir að hafa verið á þeirri skoðun, að hún ætti að vera eign ríkisins, við 1. umr. í Nd., við 2. umr. í Nd., við 3. umr. í Nd., við 1. umr. í Ed., við 2. umr. í Ed., en breytir svo allt í einu um skoðun við 3. umr. Hvernig skyldi hafa staðið á því? Ætlar hæstv. fjmrh. að reyna að telja mér trú um, á sama tíma sem hann er með sveittan skallann að reyna að útvega upp undir 100 millj. kr. í þetta fyrirtæki, sem kostar 108 millj. kr., að hann hafi séð það fyrir fram af sinni miklu fjármálavizku, þegar þetta mál hafi verið að fara í gegn 1949, að það yrðu svo óskaplegir erfiðleikar á að útvega 4 millj. kr. þarna í viðbót, upp í þessar 108, að það yrði þess vegna að fara að skapa áhuga hjá hluthöfum út í frá? Ætlar hann að fara að segja mér, þegar S.Í.S. leggur fram 2 millj. kr. hlutafé í þetta og gefur vafalaust ávísun á Landsbankann til þess, að það hefði verið miklu erfiðara fyrir Landsbankann að lána ríkinu þessar 2 millj. heldur en að lána Sambandinu þær? Ég held, að ef hæstv. fjmrh. ætlar að fara að ráðast á þá skoðun mína núna, að það væri heppilegt, að áburðarverksmiðjan sé ríkisfyrirtæki, þá ætti hann að skýra það, af hverju Framsfl. breytti um skoðun á þessu máli við allra síðustu umr. málsins. Var þetta vink utan frá? Kom einhver krafa um það kannske vestan að í sambandi við lánamöguleika eða slíkt, að vissir menn litu þannig á, voldugir menn þar, að það væri betra, að þetta væri hlutafélag, og að það væri bezt að smokka því yfir í það smátt og smátt, að það væri ekki aðeins rekið sem hlutafélag, heldur væri það líka eign þess? Ég held, að hæstv. ráðh. ætti þess vegna alveg að spara sér að vera með nokkrar ákúrur út af því. Ég stend bara á grundvelli, sem Framsfl. hefur staðið á mestalla sína tíð og barizt fyrir, þó að hann hafi víkið burt frá því þarna við 6. umr. í þinginu og farið inn á þennan ákaflega hættulega grundvöll, sem 13. gr. gerir.

Hæstv. ráðh. talaði í þessu sambandi um, að það væri nú hálfundarlegt, að ég, sem hefði barizt fyrir stofnlánadeild sjávarútvegsins, skyldi vera svona hræddur við að fara að gefa einstaklingum aðstöðu til þess að fá lán. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að ég barðist eins mikið fyrir stofnlánadeild sjávarútvegsins eins og hann barðist á móti henni. Ég barðist fyrir því, að togarar, t.d. á Austfjörðum, gætu fengið að láni 75% og meira til úr stofnlánadeild sjávarútvegsins til 20 ára með frekar lágum vöxtum, þegar honum fannst það firra, — enda fannst honum þá þeir togarar ekki nema gums, sem ekkert væri við að gera og veslings ríkisstj. sæti uppi með og ómögulegt væri að nota, svo að það var náttúrlega skiljanlegt, að honum fyndist það vera hræðileg vitleysa að fara að lána til þess, að hægt væri að kaupa slíka togara og gera út. Ég hef heldur ekkert haft á móti því út af fyrir sig, að fyrirtækjum væri hrundið hér af stað, þar sem einstaklingar ættu hlutafé, og að það væru á ýmsan hátt veitt lán til þess, en þá kann ég betur við, að það sé gengið hreint frá þeim málum, og það er ekki gert í samþandi við þessi mál. Og mér liggur nú við að spyrja, hvort hæstv. fjmrh. finnist það nú svona að öllu leyti eðlilegt, að ríkið beiti sér fyrir því, þegar verið er að byggja fyrirtæki, sem kostar 108 millj. kr., að útvega með lánum og hlutafjárframlagi sjálfs sín um 100 millj. kr. eða rúmlega það, en hluthafarnir, sem útvega 4 millj. og eiga, ef allt gengur vel, að eiga 4/10 hluta fyrirtækisins, útvegi raunverulega ekki neitt og standi ekki í neinni ábyrgð að neinu leyti, ef illa fer fyrir einhverju af þessu. Það er ríkið, sem ber alla ábyrgðina. Það er ríkið, sem tekur á sig alla ábyrgðina, alla saman eins og hún leggur sig. Hins vegar hliðraði hæstv. ráðh. sér hjá því að lýsa því yfir, hvernig væri með óafturkræf framlög til þessarar áburðarverksmiðju, og mun ég nú máske við seinna tækifæri við umr. í þessari deild sjá um, að því verði svarað.