09.12.1952
Neðri deild: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (3347)

176. mál, búfjárhald í bæjum

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessu frv., þá er það flutt af hv. landbn. eftir beiðni landbrn.

Aðdragandi að þessu frv. er orðinn býsna langur, því að fyrrv. landbrh., Bjarni Ásgeirsson, skrifaði skógræktarstjóra um það árið 1948 að taka til athugunar, hvort hagkvæmt muni þykja að takmarka eða banna sauðfjárrækt og hrossaeign á öllum Reykjanesskaga.

Um langan tíma gerist nú ekki neitt í þessu máli, fyrr en á þessu ári, að skógræktarstjóri leggur fram mikið álit um það, þar sem hann mælir fast með því að banna allt búfjárhald á Reykjanesskaga. Út af þessu hafa verið haldnir margir fundir meðal hreppsbúa í hreppum hér í kring og í kaupstöðunum, Reykjavík og Hafnarfirði. Afleiðingin af þessu hefur svo orðið sú, að hæstv. landbrh. skipaði tvo menn, þá Árna Eylands stjórnarráðsfulltrúa og Sæmund Friðriksson framkvæmdastjóra, til þess að taka þetta mál til rækilegrar athugunar og gera till. um það. Og það er nú hvorki meira né minna heldur en öll þessi bók, sem er álit þessara manna og grg. fyrir þessu frv. En till., sem þeir hafa komizt að niðurstöðu um, er það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 365. Þeir hafa í sínum till. horfið frá þeirri miklu ráðstöfun — og maður verður að segja að minnsta kosti vafasömu ráðstöfun — að ætla sér að fara að banna alla sauðfjárrækt og skepnuhald á öllum Reykjanesskaga, en hins vegar fara þeir fram á það í sínum till. að gera þær ráðstafanir að afgirða með rækilegri og sterkri girðingu Reykjavíkurland, Hafnarfjarðarland og það svæði, sem er á milli þessara stærstu kaupstaða landsins, og gefa heimild til þess, að það sé gerð samþykkt um það að takmarka að mjög miklu leyti eða banna alla sauðfjárrækt og stóðhrossaeign á þessu svæði. Þetta liggur að vísu undir samþykki, og er gert ráð fyrir því samkv. frv., að sú samþykkt, sem um þetta á að verða, ef lögin koma til framkvæmda, verði gerð á svipaðan hátt og á sér stað um lögreglusamþykktir í bæjum.

Ég skal nú ekki fara að rekja þetta frv. hér grein fyrir grein, en aðeins víkja að þeim aðalatriðum, sem það fer fram á, og eins og gefur að skilja af því, sem ég nú hef sagt, þá er hér um geysilega mikið stórmál að ræða. Til þess er ætlazt samkv. þessu frv., að það ekki einasta gildi fyrir þetta svæði, sem þarna er um að ræða, heldur og víðs vegar úti um land, þar sem kauptún og kaupstaðir eru, þeir geti gert samþykktir á þann hátt um meiri eða minni takmarkanir á búfjáreign innan sinna vébanda.

Það eru nokkur ákvæði í þessu frv., sem eru algerlega ný í okkar löggjöf, og má segja, að það sé allvafasamt sumt af því. M. a. er það. að ríkissjóði er ætlað að styrkja þá stóru girðingu, sem á að setja, ef af þessu verður umhverfis Reykjavík og Hafnarfjörð og löndin, sem þar á milli liggja. Ríkissjóður á að styrkja hana samkv. frv. allt að 1/3. Þetta er alveg óvanalegt í okkar löggjöf, því að ég minnist þess ekki, að það sé styrkt úr ríkissjóði til neinna samgirðinga annars staðar á landinu. Í öðru lagi er samkv. þessu frv., og það er kannske stærsta atriðið, í rauninni farið inn á það að snúa alveg við þeim hugmyndum, sem menn hafa hingað til haft um skyldu þeirra, sem eiga skepnur, og hinna, sem eiga land. Það hefur hingað til verið talið aðalatriði, að þeir, sem eiga ræktað land, skuli verja það sjálfir með girðingu. Nú er farið fram á það samkv. þessu frv., ef samþykktir verða gerðar um það, að þeir, sem eiga skepnurnar, ábyrgist þær undir öllum kringumstæðum og allt, sem af þeim leiðir. Þannig er jafnvel gert ráð fyrir því, að þeir, sem eiga garðlönd og skógarbletti og annað slíkt, t. d. hér í höfuðstaðnum, þurfi ekkert að girða það, vegna þess að þeir, sem eiga skepnurnar, eigi að bera algerlega ábyrgð á þeim og það megi ekki hafa þær öðruvísi, en í húsi yfir vissan tíma ársins. Ég skal nú ekki leyna því, að mér þykir þetta nokkuð hörð ákvæði, og f. h. landbn. get ég ekki gefið neitt loforð um það að svo komnu máli, að hún fylgi þessum ákvæðum eins og þau eru hér sett fram. Ég reikna með því, að þó að þetta frv. sé flutt af landbn., þá taki hún það til rækilegrar athugunar og kannske vísi því til umsagnar þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, eftir að þessari umr. er lokið. En á þessu stigi legg ég að sjálfsögðu til f. h. nefndarinnar, að málinu sé vísað til 2. umr., og skal ekki fjölyrða meira um það, nema eitthvert tilefni gefist til.