09.12.1952
Neðri deild: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3349)

176. mál, búfjárhald í bæjum

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. lét í ljós mikla undrun yfir því, að hv. landbn. skyldi gerast flutningsaðili að þessu frv. Ég er nú dálítið hissa á þessum orðum frá þessum hv. þm., sem eins og kunnugt er er búinn að vera lengst allra manna hér á þingi, því að hann hlýtur að vita það, að það er algild regla um þau mál, sem eru af hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. send til einstakra n. til flutnings, að flytja þau inn í þingið, án þess að n. með því taki nokkra afstöðu til þeirra mála, sem um er að ræða.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er órætt í landbn., og hún hefur ekki tekið afstöðu til neinna ákvæða, sem í því eru. En hún taldi sér skylt, eins og algild regla er, að flytja þetta mál hér inn í þingið, og auðvitað áskilur hún sér allan rétt til þess að gera till. um breyt. á því, eftir því sem henni þóknast, við síðari meðferð málsins, áður en það kæmi til úrslita við 2. umr.

Varðandi þær athugasemdir um efnishlið þessa máls, sem hv. þm. Borgf. vék að, þá er ég honum að mörgu leyti sammála, að hér þarf áreiðanlega athugunar við og breyt. á þessu frv., áður en það yrði gert að l., svo að við þurfum ekki að fara hér við þessa umr. í neina deilu um þau efni. Það er alveg rétt, sem þessi hv. þm. tók fram, að ef það væru gerðar samþykktir á þeim grundvelli, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá stappar það mjög nærri því, að það sé útilokun fyrir alla sauðfjáreign og hrossa innan þeirra svæða, sem frv. eða samþykktin ætti þá að ná til. En ég skal ekki á þessu stigi fara neitt út í það nánar, en ég hef þegar gert. Ég tel það sjálfsagt, að málinu verði vísað til 2. umr. og þá tekið til athugunar og það mjög rækilega af hv. landbn. og þeim aðilum öðrum, sem ég geri ráð fyrir að hún leiti umsagnar hjá og hlut eiga að máli í þessu sambandi.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál.