12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3361)

180. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þar sem hv. þm. V-Húnv. fann ástæðu til að endurtaka hér ræðu sína frá í gær, þá ætla ég, að mér leyfist það líka. — Þetta mál var sent iðnn. og þess óskað, að hún flytti það. Málið var rætt þar á líklega tveimur eða þremur fundum. Hv. þm. V-Húnv., sem á sæti í iðnn., hreyfði því ekki í n., að málið heyrði ekki undir nefndina, heldur undir aðra. Varðandi það, að skatta- og tollamál heyri undir fjhn., þá vitum við þm., að það er sitt á hvað, að málum er vísað til fjhn. eða annarra n. Það liggja t. d. fyrir iðnn. ýmis mál um lánveitingar og bein framlög úr ríkissjóði til iðnaðarmála. Þessu er stundum vísað til fjhn., stundum til iðnn. Sama máli gegnir um landbn. og sjútvn. Ef öll mál, sem snerta að einhverju leyti fjármál eða skattamál, ættu að ganga til fjhn., þá ætla ég, að það yrðu harla fá mál, sem hinar n. ættu um að fjalla. Ég tel með öllu ástæðulaust að fara að vísa þessu máli til annarrar n. heldur en það er flutt af.