12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3363)

180. mál, tollskrá o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. vék að því, að það væri nýlunda um mál, sem að vísu kynnu að snerta verkahring annarra nefnda, en væru flutt af nefnd, sem ekki væri beinlínis talið að málin heyrðu undir, að þá afgr. þær eigi að síður málin og hefðu þau til meðferðar. Það er rétt að því leyti, að það eru svo óljós takmörk um ýmis málefni, að það kunna að vera áhöld um það, til hvaða n. málið á endilega að heyra. En slíku er ekki til að dreifa hér. Þetta frv. er hreint skattamál. Það er að vísu ekki hreyfing á skatteiningu, þannig að hún hækki eða lækki, en skattamál er það eigi að síður, og gerist þá þannig, að ríkissjóður á að endurgreiða samkv. frv. þessu nokkurn hluta, sem honum ber samkv. venjulegum skattalögum. Sú ákvörðun hefur það í sér fólgið að tekjur ríkissjóðsins rýrna. Þess vegna heyrir þetta beinlínis undir fjhn., og ég er undrandi á því, að þó að iðnn. geri þeim mönnum greiða, sem snúið hafa sér til hennar um flutning málsins, þá skuli hún vilja halda fast við það að hafa málið endilega áfram og það verði afgr. þannig frá þinginu. Vitaskuld er henni frjálst að gera það og halda fram þessari skoðun, en það er að hafa hausavíxl á hlutunum eigi að síður, að ætla sér að vinna svona. Og vel mætti fara svo, ef farið er að tíðka að hafa slíka afgreiðslu á málum nefnda á milli, að þá verði lítið hald í því, þó að sú löggjöf, sem þingið á að vinna eftir. gefi fyrirmæli um, hvernig flokka skuli mál til hinna ýmsu nefnda. Ég álít þess vegna, að hv. d. verði að gæta sín fyrir slíku sem þessu upp á framtíðina að gera og það sé öruggast, að þau mál heyri þeim nefndum til, sem skýlaus lagafyrirmæli eru um að þau skuli heyra til.