12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3364)

180. mál, tollskrá o. fl.

Einar Olgeirsson:

Ég á sæti í fjhn. Ég er mjög fylgjandi því yfirleitt, að mál, sem undir hana heyra, komi til hennar og séu afgr. þaðan, því að mín hugmynd um nefndir í þingi er, að þær séu til að afgr. mál. Hins vegar hefur sá háttur orðið á, að mál, sem vísað hefur verið til fjhn. fyrir tveim mánuðum, liggja hjá henni enn þá, og gengur mjög erfiðlega að fá þau afgreidd. Ég býst ekki við, að það sé tilætlun hv. d., að mál séu send í n. til þess að svæfa þau. Ef farið er að nota nefndirnar til þess að svæfa mál, þá fer að verða eins gott að láta málin ganga nefndalaust í gegnum þingið. Ég held, að fjhn. eigi það mörg mál óafgreidd. sem undir hana heyra, að þó að hún sleppti því að fjalla um þetta mál, sem formaður fjhn. hefur haft aðstöðu til þess að fjalla um í iðnn., þá gerði það ekkert til, þó að þetta mál fengi að halda áfram sína leið. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram vegna þess, hvernig nú stendur á, þó að ég sé því almennt fylgjandi, að mál fari til fjhn. og komi frá henni aftur.