12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (3367)

180. mál, tollskrá o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Út af síðustu ummælum hv. 7. þm. Reykv. varðandi flutning þessa frv., þá vil ég geta þess, sem ég reyndar gerði hér í gær, að þegar ákveðið var í iðnn. að flytja málið, þá var ég ekki á fundi. Ég var forfallaður sökum lasleika. Það hafði að vísu verið minnzt á þetta mál áður. Rétt er það, að ég hafði ekkert á móti því, að málið væri flutt. Ef ég hefði verið á þessum síðasta fundi, þar sem ákveðið var að flytja málið, þá hefði ég að vísu lagt það til, að við nm. flyttum það persónulega, en teldum ekki nefndina flytja málið. Ég hefði talið það eðlilegra. En það má segja, að það skipti ekki miklu máli. Það hafa allir leyfi til þess að flytja mál inn í þingið, allir þm., einn eða fleiri saman, og þingnefndir að sjálfsögðu líka, en það breytir engu um það, að þau mál eiga að fá þinglega meðferð og athugun í þeim nefndum, sem málin eðli sínu samkvæmt heyra undir, hver sem flytur þau.