12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (3379)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. hefur ekki enn áttað sig á, hver var mergur þess máls, sem ég ræddi hér í upphafi. Mér er það alveg ljóst, að í frv. er fram á það farið, að sparifé, sem menn eiga nú, skuli undanþegið eignarskatti og eignarútsvari, og jafnframt, að til þess er ætlazt, að vaxtatekjur af slíku fé skuli undanþegnar tekjuskatti og útsvari. Það, sem ég sagði, var, að þetta eitt væri ekki nóg, hvorki til þess að rétta hlut sparenda og sparifjáreigenda né heldur til þess að ná þeim tilgangi, sem frv. er annars ætlað að ná.

Það, sem hér þarf að taka til athugunar til viðbótar, er, hvort ekki eigi að létta skattgreiðslu af þeim hluta tekna, sem menn spara á ákveðnu ári. Ég tel, að í raun og veru eigi að koma til alvarlegrar athugunar, hvort ekki eigi, hafi maður t. d. 40 þús. kr. árstekjur, spari af þeim 5 þús. kr. og myndi þannig sparifjáreign upp á 5 þús. kr., að létta honum skattgreiðsluna af þessum 5 þús. kr., en ekki einvörðungu að láta hann sleppa við eignarskatt af þessum 5 þús. kr. og tekjuskatt og útsvar af vöxtunum af 5 þús. kr. Það er væntanlega öllum ljóst, að á þessu er mjög mikill munur, og spara mundi muna miklu meira um það, ef hann fengi ívilnun í skattgreiðslu af því fé, sem hann sparar, en ekki einvörðungu ívilnun af vöxtunum af því fé, sem hann sparar eða hefur sparað. Það er þetta, sem ég vildi beina til hv. fjhn. að taka til nokkurrar athugunar. Um það eru til miklar heimildir frá Norðurlöndunum og Bretlandi, sérstaklega Norðurlöndunum, þar sem þetta mál hefur nú þegar verið rætt í nokkur ár, án þess þó að vísu, að löggjöf hafi verið um það sett.