14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

10. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki skilað því nál. enn þá, sem ég hafði nú ætlað mér að semja um þetta, og stafar það að nokkru leyti af því, að það er satt að segja ákaflega erfitt, meðan ekki liggja fyrir fleiri upplýsingar, en eru um þetta mál, að útbúa þess háttar nál., sem maður álitur að mundi ekki gera neinn skaða, hvernig sem færi um þær brtt., sem í því væru.

Ég þarf ekki að rekja hér þá deilu, sem ég hef átt í við hæstv. ríkisstj. út af skilningnum á l. um áburðarverksmiðjuna og um þá skoðun mína, að áburðarverksmiðjan ætti að vera eign ríkisins, eða þá skoðun hæstv. ríkisstj., að hún sé eign hlutafélagsins. Ég hef viljað nota þær umr., sem orðið hafa um þessar lánveitingar til áburðarverksmiðjunnar, til þess að reyna að fá úr þessu skorið, en mér hefur ekki tekizt það. Því hefur verið svarað af hálfu hæstv. ríkisstj., að svo framarlega sem ég vildi knýja fram einhverja breyt. á því, sem hún áleit vera það lögformlega ástand, þá bæri mér að koma með brtt. við áburðarverksmiðjulögin. Ég hef hins vegar álitið, að ég stæði á grundvelli laganna, en ríkisstj. gæfi yfirlýsingar, sem ekki samrýmdust l., sem sé yfirlýsingar um það, að áburðarverksmiðjan væri eign hlutafélags. Og ég hef þess vegna ekki viljað koma fram með brtt., hvorki í sambandi við þetta frv. né heldur við l. sjálf, sem gætu skilizt eins og ég gengi inn á afstöðu ríkisstj. og ég þyrfti að koma fram með brtt. um að breyta lögunum. Hins vegar er það alveg hreint ljóst, — ég ætla ekki hér að fara að verja neinum tíma í það að ræða áfram um þennan ágreining, ég er búinn að gera það svo oft og það ýtarlega, — að það er að skapast hreinasta ófremdarástand í þessum málum. Lögin um áburðarverksmiðjuna eru raunverulega eins konar ólög, þ.e.a.s. það eru lög, þar sem ein grein stangast við aðrar. Það eru lög, þar sem 13. gr. stangast við 1., 2. og 3. gr. Og ég hef bent á, að ef dómstólar seinna meir eiga að fara að dæma um þetta, þá er sú hætta fyrir hendi, eins og við höfum þegar rekið okkur á, að dómstólar á Íslandi þora varla að dæma á móti ríkisstj. eða dæma þannig, að það geti orðið ríkinu að skaða. Hins vegar verður allt flækt svo um túlkanir á þessum málum, viðvíkjandi eignarréttinum á verksmiðjunni, að ég hef satt að segja ekki hugmynd um, út frá hverju dómstólarnir ættu að dæma, þegar allt kæmi til alls, en í öllu falli hlyti hver dómari, sem ætlaði að reyna að gera upp fyrir sér, hvernig málin stæðu, að álasa því Alþ., sem gengi þannig frá þessum málum, að það væri algerlega ómögulegt að dæma nokkurn veginn öruggt eftir lögunum. Ég vil þess vegna nú aðeins við þessa umr. enn einu sinni minna á, að það verður að breyta þessu ófremdarástandi, sem þarna hefur verið skapað, og hæstv. ríkisstj. verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum með öðru, en tómum yfirlýsingum ráðh. Hins vegar stend ég sjálfur fast á því, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins og það eigi að fara þannig með hana. En ég stend frammi fyrir því, að ríkisstj. nú sem stendur lítur á áburðarverksmiðjuna sem einkafyrirtæki og ætlar sér að beita þeim aðferðum svo lengi sem hún fær því ráðið, og nú mun ég þess vegna ræða nokkuð um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og afleiðingar af því og aðstæður allar, gangandi út frá því í svipinn, að hæstv. ríkisstj. líti á hana sem einkafyrirtæki.

Það á að endurlána eftir frv. Áburðarverksmiðjunni h/f, þ.e.a.s. þessu hlutafélagi, alla lánsupphæðina með skilmálum, sem ríkisstj. telur nauðsynlega, og gegnum tryggingar, sem hún metur gildar. Þá vll ég í fyrsta lagi leyfa mér að spyrja: Hverjar eru þær tryggingar, sem einkafyrirtækið, eins og ríkisstj. álítur það, einkafyrirtækið Áburðarverksmiðjan h/f lætur ríkisstj. í té fyrir þá milljónatugi, sem einkafyrirtækið á að fá að láni frá hæstv. ríkisstj.? Hverjar eru þær tryggingar, sem Áburðarverksmiðjan h/f lætur í té? Ég býst við, að þegar ríkisstj. almennt lánar út fé, þá muni hún spyrja: Hvernig er því háttað með þetta fyrirtæki, hvað er þetta gott fyrirtæki, hvað er þetta öruggt, hvað á það miklar eignir og annað slíkt, — og ég vildi gjarnan, að það kæmi hér strax fram, af því að ég veit, að það er búið að veita þetta lán eftir brbl. Hvaða tryggingar hefur hæstv. ríkisstj. fengið fyrir endurláninu á þessum milljónum, sent á að veita eftir þessu? Er það aðeins ábyrgð ríkissjóðs, sem er látin sem trygging fyrir láninu til einkafyrirtækisins? Í fyrsta lagi er það náttúrlega áburðarverksmiðjan sjálf, sem ekki má veðsetja án leyfis Alþ. og aldrei hefur verið beðið um neitt veðsetningarleyfi fyrir. Ég býst við, að það hafi verið veðsett ólöglega. En í öðru lagi er það þá á ábyrgð ríkissjóðs. Þannig er ríkissjóður að lána Áburðarverksmiðjunni h/f gegn ábyrgð ríkissjóðs. Er það tryggingin, sem einkafyrirtækið lætur í té? Ég vildi eindregið óska eftir því að fá upplýsingar um þetta frá hæstv. ríkisstj.

Þá vil ég í öðru lagi leyfa mér að spyrja: Hefur ríkisstj. gengið úr skugga um, að þetta fyrirtæki, þetta einkafyrirtæki að hennar áliti, sem hún er að lána þarna í, sé fjárhagslega séð öruggt fyrirtæki, að það sé fyrirtæki, sem kemur til með að borga sig, að það sé fyrirtæki, sem kemur til með að standa undir sínum rekstri og öllum þeim skuldbindingum, sem á það eru lagðar? Ég mun þurfa að ræða um þessa áburðarverksmiðju með hliðsjón af tvenns konar möguleikum, eins og með öll slík fyrirtæki, — með hliðsjón af þeim möguleika, að það sé gott fyrirtæki, sem gefur ágóða, og svo þeim möguleika, að þetta fyrirtæki kunni að eiga erfitt og jafnvel gefa tap. Ég vil minna á, að þegar lögin um áburðarverksmiðjuna voru lögð fyrir Alþ. 1948 og afgreidd 1949, þá var rætt um áburðarverksmiðju, sem átti að kosta 45 millj. kr. Og þá var lagt gríðarlega mikið upp úr því að fá 4 millj. kr. sem kapítal frá einkahluthöfum þarna í, af því að það væri upp undir tíundi hluti af kostnaði fyrirtækisins. Nú kostar þetta fyrirtæki 108 millj. kr., þetta einkafyrirtæki kostar 108 millj. kr., og það væri ekki vanþörf á í sambandi við þær lánveitingar, sem Alþ. nú tekur ákvörðun um, að það fengist upplýst, hvernig rekstraráætlun þessa fyrirtækis er nú í dag. Það var lögð fyrir Alþ. 1948 rekstraráætlun, miðuð við það, að þetta fyrirtæki kostaði 45 millj. kr. Ég mundi mjög gjarnan vilja sjá rekstraráætlun þessa fyrirtækis í dag, miðaða við, að það kosti 108 millj. kr., með þeim öðrum skyldum, sem því eru lagðar á herðar.

Þetta er sem sé það, sem ég vildi sérstaklega biðja um að fá upplýsingar um: Með hvaða tryggingum er þarna lánað? Er ríkið að lána út gegn ábyrgð ríkissjóðs til einkafyrirtækis — eða ekki? Eru einhverjar meiri tryggingar? Það er t.d. vitanlegt, að þegar einkafyrirtækjum er lánað hér frá ríkisbönkunum þá verða hluthafarnir ákaflega oft sjálfir að láta svo og svo mikla ábyrgð í té. Ef þetta einkafyrirtæki, eins og ríkisstj. álítur það vera, fær lánaða nokkra milljónatugi frá ríkinu, þá vildi ég leyfa mér að spyrja: Hvað hafa einkahluthafarnir þarna í látið mikið af ábyrgðum í té, við skulum segja t.d. S.Í.S.? Hvað hefur S.Í.S. látið mikið af ábyrgðum í té fyrir þeim lánum, sem ríkissjóður er þarna að lána út?

Hæstv. ríkisstj. hefur útbúið þetta lagafrv, þannig, að hún segir, að hún endurláni Áburðarverksmiðjunni h/f alla lánsupphæðina með þeim skilmálum, sem hún telur nauðsynlega. Ég vil leyfa mér út frá því að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvaða skilmála hefur hún talið þarna nauðsynlega? Ég er búinn að spyrja um trygginguna, og ég vil nú í öðru lagi spyrja um vextina. Með hvaða vöxtum er Áburðarverksmiðjunni h/f, þessu einkafyrirtæki, sem ríkisstj. álítur vera, lánuð þessi upphæð? Og þá skal ég nú koma inn á vaxtaspursmálið, vegna þess að mér virðist í sambandi við það líta dálítið einkennilega út. Áburðarverksmiðjunni voru í fyrra lánaðir nokkrir milljónatugir úr mótvirðissjóði. Þá var ákveðið af hæstv. ríkisstj., að vextirnir af því skyldu vera 51/2 %. Ég gerði athugasemdir við þessa vexti. Mér finnst það satt að segja dálítið bíræfið að setja þetta háa vexti á fyrirtæki, sem ríkið sé að lána sjálfu sér til og eru ætluð til hagsbóta fyrir t.d. í þessu tilfelli bændur landsins. Hins vegar ef ríkisstj. skoðar þetta einvörðungu sem einkafyrirtæki, sem eigi að heyra að öllu leyti undir hin harðvítugu fjárhagslegu lögmál þjóðfélagsins, þá er kannske þarna dálítið öðru máli að gegna. Ég gæti sem sé þá trúað, að hæstv. ríkisstj. hafi lánað líka þessa 1 millj. dollara, þessar 16 millj. kr., sem nú er hætt við með þessum lögum, sem hér liggja fyrir, með sama móti og þá milljónatugi, sem áður voru lánaðir, sem sé með 51/2% vöxtum. Hvað þýðir það? Það þýðir, að ríkisstj. ætlar sér alls að lána áburðarverksmiðjunni rétt um 100 millj. kr. Ef hún ætlar að framfylgja þessari vaxtapólitík, þá ætlar hún að taka á ári í vexti 51/2 millj. kr. af áburðarverksmiðjunni. Út frá þeim praksís, sem verið hefur undanfarið, þá virðist þetta vera pólitík ríkisstj., og ég vildi gjarnan fá að heyra, hvort það er rétt skoðað hjá mér, að ríkisstj. ætli þessu einkafyrirtæki, Áburðarverksmiðjunni h/f, sem hún álitur vera, að borga 51/2 millj. kr. í vexti á ári af verksmiðjubyggingunni sjálfri.

Þá vil ég í því sambandi minna á, að þegar þetta mál var til umr. í þinginu vorið 1949, þá var því haldið fram af hæstv. viðskmrh., sem þá sem 1. þm. Reykv. flutti þá till., að einkafjármagnið fengi að koma þarna inn í, — hann lagði fyrst til, að það væri með 21/2 millj. kr. hlutafé, og síðan var það hækkað upp í 4 millj. kr. hlutafé, — að það væri svo óskaplegur fengur, sem enginn ábyrgur maður og sízt af öllu ábyrgur ráðh. vildi vísa frá ríkissjóði, að geta fengið aðra eins upphæð og jafnvel 4 millj. kr. sem hlutafé í svona fyrirtæki. M.ö.o., í maí 1949 er öllum lögunum um áburðarverksmiðju breytt. Hún er að áliti ríkisstj. tekin úr eign ríkisins og sett yfir í hlutafélag, með þeirri röksemd, að það sé svo óskaplegur fengur að geta fengið S.Í.S. til þess að taka að láni í Landsbankanum 2 millj. kr. og nokkra aðra menn til að reyna að knýja fram með harmkvælum einhverja álíka upphæð til þess að leggja fram sem hlutafé í einkafyrirtækið Áburðarverksmiðjuna h/f. Árið eftir kemur hæstv. ríkisstj. og segir: Þessari Áburðarverksmiðju h/f er ekki of gott að greiða 51/2 millj. kr. á ári í vesti til ríkisins. — Þá átti ekki að vera neinn vandi fyrir áburðarverksmiðjuna að útvega fé. Sem sé, árið áður þykja það góð og gild rök, að það verði að breyta öllu fyrirkomulagi áburðarverksmiðjunnar til þess að fá 4 millj. kr. frá einstaklingum í landinu sem hlutafjárframlag. Árið eftir er sagt: Þessi áburðarverksmiðja er ekki í neinum vandræðum með neina peninga. Hún getur vel greitt 51/2 millj. kr. í vexti á ári til ríkisins. — Ég vil aðeins benda á, að ofur lítið virðist þetta nú stangast, þær röksemdir, sem þarna hafa verið notaðar.

Svo skulum við halda áfram að athuga þetta. Skilyrðið fyrir því, að áburðarverksmiðjunni væri komið upp og að hún gæti starfað, var, að Sogsvirkjunin léti meginið af öllu sínu rafmagni til hennar og að önnur virkjun Sogsins væri framkvæmd, og nú mun því verða lokið á næsta ári. Sogsvirkjunin mun kosta, að viðbættu því kerfi, sem Reykjavíkurbær líka stendur undir, um 190 millj. kr. a.m.k. Sogsvirkjunin fær meginið af því fé, sem hún notar, — hún er, eins og menn vita, sameign ríkisins og Reykjavíkurbæjar, — að láni úr mótvirðissjóði. Sogsvirkjunin greiðir, eftir því sem ríkisstj. hefur áskilið, 51/2% í vexti á ári, eða m.ö.o., Sogsvirkjunin á að greiða um 10 millj. kr. í vexti á ári af því fé, sem hún hefur fengið að láni. Ég ætla ekki að geta þar um, að ríkisstj. hefur á sama tíma tekið yfir 10 millj. kr. bara í söluskatt og tolla af þeim tækjum, sem til Sogsvirkjunarinnar hafa komið, þannig að það er sem sé auðséð, að það eru ekki alltaf bara peningavandræðin, sem gera það að verkum, að kvartað er um, að það sé erfitt að fá framlög. Og nú skulum við athuga, hvernig er með hlutfallið á milli þess stofnfjár, sem liggur í þessari annarri virkjun Sogsins og áburðarverksmiðjunni. Af þeim straum, sem verður framleiddur við þessa aðra virkjun Sogsins, fær áburðarverksmiðjan um 1/8 af viðbótinni að staðaldri, líka á þeim tíma, sem mest álag er á, þannig að af allri þeirri orku, sem þessi viðbót framleiðir, fær áburðarverksmiðjan 2/3 af öllu magninu. Það er máske erfitt að segja, hvernig ætti að reikna út eftir þessu, hvað mikill hluti af núverandi Sogsvirkjun sé gerður vegna áburðarverksmiðjunnar. Það er hægt að deila um það. Ef til vill væri ekki ósanngjarnt að gizka á, að a.m.k. helmingurinn af því fé, sem önnur Sogsvirkjunin kostar, væri vegna áburðarverksmiðjunnar, og eitt er a.m.k. víst, að hefði áburðarverksmiðjan ætlað að útbúa sjálf raforkuver til þess að framleiða það, sem hún þarf af rafmagni, þá hefði hún þurft að setja meira, en 100 millj. kr. í það. En ef við nú reiknum með því, að af þeim 190 millj., sem önnur Sogsvirkjunin kostar, séu 100 millj. kr. vegna áburðarverksmiðjunnar, þá þýðir það, að af þeim 1110 millj. kr., sem eru vegna áburðarverksmiðjunnar, þarf Sogsvirkjunin að greiða 51/2 millj. kr. í vexti af því lánsfé. M.ö.o., fjárfestingin vegna áburðarverksmiðjunnar er um 108 millj. kr., sem áburðarverksmiðjan kostar sjálf. Í öðru lagi er fjárfesting til raforkuframleiðslu handa áburðarverksmiðjunni. Það gæti verið álitamál, eins og ég sagði áðan, hvernig maður reiknar það. Það er ef til vill, ekki ósanngjarnt að segja, að 100 millj. kr., eða um helmingurinn af því, sem Sogsvirkjunin kostar, sé a.m.k. nauðsynlegt til þess að tryggja, að áburðarverksmiðjan geti starfað. Það þýðir m.ö.o., að tvö fyrirtæki, annars vegar áburðarverksmiðjan, hins vegar Sogsvirkjunin, leggja í fjárfestingu, sem er upp undir 200 millj. kr., til þess að áburðarverksmiðjan geti starfað. Og þessi tvö fyrirtæki eiga að greiða mestmegnis til ríkissjóðs eða mótvirðissjóðs til samans um 11 millj. kr. í vexti á ári. — Þetta er nú viðhorfið, þegar ríkisstj. sem lánveitandi er að setja Sogsvirkjuninni annars vegar og áburðarverksmiðjunni hins vegar sín skilyrði. Þá segir ríkisstj. þetta: Gerið þið svo vel, borgið þið hérna vegna áburðarverksmiðjunnar 11 millj. kr. á ári til mín sem lánveitanda í vexti. — Þannig litur ríkissjóður út, þegar hann talar sem lánardrottinn.

En svo kemur að því spursmáli að tryggja áburðarverksmiðjunni rafmagn. Þá er vitað, gagnvart hvaða aðilum er við að eiga. Þá eru það neytendurnir í Reykjavík og neytendurnir á Suðurlandsundirlendi, sem eiga hagsmuna að gæta, og þá er sótt fast á að því er virðist af hálfu hæstv. ríkisstj., sem þá virðist láta sig skipta mun meira máli um eign áburðarverksmiðjunnar heldur en þegar hún er að tala um eignarhlutfallið gagnvart hluthöfunum. Með öðrum orðum, Sogsvirkjunin mun eiga að láta áburðarverksmiðjunni rafmagn í té fyrir — ég ætla í kringum t.d. 3 millj. kr. á ári — ég þori ekki að segja það alveg nákvæmlega, en mér er nær að halda. að það sé ekki fjarri því. Það er ekki stór upphæð til rekstrar verksmiðjunnar sem eitt aðalrekstraraflið, þegar athugað er hins vegar, hvað það er, sem ríkisstj. heimtar sem lánardrottinn í vexti. En látum það nú vera út af fyrir sig, að Sogsvirkjunin, sem vissulega á góðan og stóran viðskiptavin, þar sem áburðarverksmiðjan er, reyni að láta sem allra ódýrast í té rafmagnið, eins og eðlilegt er, til þess að reyna að skapa að einhverju leyti grundvöll að íslenzkri stóriðju. En þá kemur að öðru máli; það kemur að því máli, að með því að láta áburðarverksmiðjunni slíkt rafmagn í té frá Sogsvirkjuninni er óhjákvæmilegt, að innan þriggja ára sé komið upp þriðju virkjun Sogsins, svo framarlega sem neytendur í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendi eiga ekki að biða stórtjón af þessari ráðstöfun eða þá hins vegar áburðarverksmiðjan að meira eða mínna leyti stöðvast. Það þýðir m.ö.o., að með því að Sogsvirkjunin láti áburðarverksmiðjunni þetta rafmagn í té, þá er það jafnóhjákvæmilegt, að í síðasta lagi 1957 sé komið upp þriðju virkjun Sogsins, sem mun kosta í kringum 100 millj. kr., ella standi fyrir dyrum að verða aftur að gripa til þess ófremdarástands, sem nú er, að reka olíuknúna varastöð í Reykjavík mikinn hluta sólarhringsins og framleiða kw. á 25 aura, eða með 25-földu því verði, sem áburðarverksmiðjunni er selt meginið af aflinu.

Þetta þýðir með öðrum orðum: Um leið og sú skuldbinding er lögð á herðar Sogsvirkjunarinnar að láta áburðarverksmiðjunni þetta mikinn hluta af rafmagnsframleiðslunni í té, þá tekur ríkið á sig þá eðlilegu skuldbindingu að sjá um, að þriðju virkjun Sogsins verði lokið innan 3–4 ára. Annars vofir „katastrófa“ yfir hér sunnanlands. Það þarf að hugsa fyrir fé til þessa, jafnhliða því sem verið er að tryggja fé til áburðarverksmiðjunnar, og nú þegar hvert frv. kemur hér á fætur öðru um lán og lánveitingar viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni, þá vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvert er hennar álit og hvað hefur hún hugsað viðvíkjandi nauðsyninni á því að bæta íbúum Rvíkur og Suðurlands upp það, sem þeir verða að tapa af rafmagni, sem þeim ella væri nauðsynlegt til eigin rekstrar og notkunar, — hvað hefur ríkisstj. hugsað fyrir því með því að tryggja fé til þriðju virkjunar Sogsins?

Nú vil ég taka það fram, að svo fremi sem áburðarverksmiðjan á að skoðast eign einkahlutafélags, þá er gengið ákaflega langt gagnvart hagsmunum Reykvíkinga og Sunnlendinga yfirleitt með þessum ráðstöfunum. Það er sitt hvað, hvað menn leggja á sig fyrir það, sem er eign heildarinnar og verið að vinna fyrir heildina, eða hvað menn leggja á sig til þess að skapa fyrirtæki, sem á að verða, eins og ríkisstj. lýsir yfir, eign einstakra manna. Og ef þannig á að minnsta kosti að búa að þessu fyrirtæki, að það verði það, þá er ekki óeðlilegt, að knúið sé þá dálítið skarpara á viðvíkjandi hagsmunum almennings, eins og í sambandi við þriðju virkjun Sogsins, ef svona hart á að knýja á viðvíkjandi hagsmunum einkafyrirtækja í þessum efnum, eins og ríkisstj. vill halda fram að áburðarverksmiðjan eigi að verða. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Ef ríkisstj. álítur þetta fyrirtæki, Áburðarverksmiðjuna h/f, vera eiganda áburðarverksmiðjunnar og ef hún álítur þar af leiðandi, að svo fremi sem þetta fyrirtæki verður gróðafyrirtæki, eins og að minnsta kosti reynt er að stefna að með því að reyna að knýja fram mjög hagstæða samninga af hálfu opinberra fyrirtækja eins og Sogsvirkjunarinnar, þó að það séu ekki að sama skapi hagstæðir samningar, þegar ríkið sem lánardrottinn á í hlut, — ef sem sé þetta fyrirtæki á að verða, eins og ríkisstj. vill vera láta, einkaeign Áburðarverksmiðjunnar h/f, þá mun það væntanlega líka vera skoðun ríkisstj., að gangi þetta fyrirtæki vel og græði, þá eigi hluthafarnir í Áburðarverksmiðjunni h/f, þegar þetta fyrirtæki væri búið að borga sig niður, 40% af þessu fyrirtæki? Og ég vil minna á þá yfirlýsingu, sem vafalaust mun ekki síður eiga að standa heldur en sú yfirlýsing, sem ráðherrarnir nú vilja klemma sig fasta í, að þetta eigi að vera eign hlutafélagsins, áburðarverksmiðjan eigi að vera eign hlutafélagsins, — ég vil minna á þá yfirlýsingu, sem sá ráðh., sem hafði með þessi mál að gera, hæstv. þáverandi atvmrh., Bjarni Ásgeirsson, gaf, og studdist hann þar við lög, — ég veit hins vegar að vísu ekki, hvað mikla respekt þau lög hafa, að undantekinni 13. gr., í augum ríkisstj. Hann sagði, að bændur á Íslandi yrðu að borga áburðinn, sem framleiddur yrði af þessu fyrirtæki, með kostnaðarverði. Það þýðir með öðrum orðum, að íslenzkum bændum verði nú bannað, eins og gert er með áburðarsölu ríkisins, að flytja inn áburð, þó að hann væri ódýrari erlendis. Íslenzkum bændum verður fyrirskipað að kaupa þann áburð, sem Áburðarverksmiðjan h/f framleiðir, eftir að hún er búin að greiða sína vexti til ríkisins og allt annað slíkt. Og einu má gilda, hvað sá áburður kemur til með að kosta. En fyrirtækið, Áburðarverksmiðjan h/f, fyrirtækið, sem að áliti ríkisstj. á verksmiðjuna, á hins vegar að græða á þennan hátt, og þegar það er búið að græða sig upp og borga sínar skuldir, þá er það að 40% eign einstaklinga. Með ódýru rafmagni, meira eða minna kannske á kostnað neytenda, með ef til vill dýrum áburði, dýrari en væri erlendis, á þetta fyrirtæki sem einkafyrirtæki sem sé að vera tryggt. Þannig mundi fara, ef þetta fyrirtæki yrði gróðafyrirtæki. En nú vil ég spyrja: Ef þetta fyrirtæki yrði tapfyrirtæki, er það þá alveg öruggt, að hæstv. ríkisstj. mundi standa jafnörugg á þeim grundvelli, að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags? Er það þá öruggt, að það mundi verða byrjað með því í fyrsta lagi að standa stíft á því að heimta 51/2 % vexti af fyrirtækinu til ríkisins og, ef fyrirtækið getur ekki borgað það, að ganga að þessu hlutafélagi, — það er vitað, að hlutafé er fyrsta áhættan í þessu efni? Er það þá meiningin að ganga fyrst að þessu hlutafélagi og láta þessa einstaklinga, sem nú hafa lagt þarna sitt fé í góðri trú, tapa því? Sem sagt, meðan þeir séu að borga 51/2% vexti til ríkisins, ákaflega háa vexti, þá þyki það sjálfsagt, að það fyrsta, sem tapast, sé þeirra hlutafé. Fyrst hafa þessir menn verið fengnir til þess að leggja þetta fram svona til þjóðþrifafyrirtækis og svoleiðis nokkuð, og svo sé það fyrsta, sem eigi að gerast, ef illa gengur, að þeir eigi að tapa hlutafénu. Það virðist vera það eina sjálfsagða út frá þeirri skoðun, sem hæstv. ríkisstj. heldur fram. Og ég vildi hér með leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. ríkisstj., hvort það sé hennar meining. Á, svo framarlega sem þetta yrði tapfyrirtæki, að halda jafnharðvítuglega á skoðun ríkisstj. á því, að þessi verksmiðja sé einkafyrirtæki, sé hlutafélagsfyrirtæki, eins og nú hefur verið haldið fram? Ég hef nefnilega þá hugmynd, að ef til vill kynni nú að koma fram, ef eitthvað gengi erfiðlega, í fyrsta lagi till. hér á Alþingi um að gefa eftir vextina, sem ríkissjóður tekur af lánunum til þessa fyrirtækis; í öðru lagi, — við skulum segja t.d. fyrir kosningar 1956, að einhverjum velunnurum landbúnaðarins, sem gætu með rökum máske sýnt fram á, að áburður væri ódýrari í Noregi og það væri nú hart að íþyngja íslenzkum landbúnaði með því að láta hann greiða hærra verð heldur en aðra, — þá gæti nú líka kannske komið fram till. um, að áburðurinn yrði lækkaður og ríkið tæki á sig tapið. Og ég býst við, að þá mundu ýmsir segja, að það sé nú ósanngjarnt að láta þá einstaklinga, sem hafa lagt fram fé í þetta, og gerðu þetta í góðri meiningu og af þjóðhollustu, tapa sínu hlutafé. Og ef til vill kæmi eitthvert hljóð úr horni, sem segði: Ja, hvaða ástæða er til þess að vera að láta S.Í.S. tapa sínu hlutafé? Það er jú rétt eins og að taka þetta af bændum. Þetta er jú bara þeirra eign; og á ríkið að fara að ganga að því, sem er eign bænda?

Ég kem nú aðeins fram með þessar hugleiðingar hérna vegna þess, að þegar svona harðvítuglega er skýrt eins og nú hefur verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. og sérstaklega af hálfu ráðh. Framsfl., þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún ætli sér að standa jafnharðvituglega á þeim grundvelli, að áburðarverksmiðjan sé einkaeign Áburðarverksmiðjunnar h/f, þ.e.a.s. hlutafélags nokkurs hérna í bænum, ef þetta yrði tapfyrirtæki? Ég vil fá úr þessu skorið nú, þannig að það séu engin eftirkaup með það. Ég álít, að það eigi að skera úr þessu nú, meðan allir menn vonast eftir því, að þetta verði fyrirtæki, sem beri sig vel, en enginn veit, hvort það verður gróði eða tap á því. Ég kynni satt að segja illa við það, ef þessu máli yrði haldið svo að segja á sömu huldu og yfir því hvílir nú, þangað til séð yrði, hvort það yrði gróða- eða tapfyrirtæki, og svo framarlega sem það yrði gróðafyrirtæki, þá yrði sagt: Þetta er einkafyrirtæki. Þessir góðu, þjóðhollu menn, sem lögðu fram sitt hlutafé þarna í, þeir fá nú að uppskera réttan ávöxt sinnar þjóðhollustu og síns áhuga á framfaramálum þjóðarinnar, og þeir fá þarna ofur lítinn ágóða af þessu — hann er að vísu ekki stór — en þeir eignast smám saman þetta fyrirtæki. – Og þá sé það sem sé alveg skýrt, að verði gróði af þessu, þá er þetta einkafyrirtæki, þá er þetta hlutafélag, sem að vísu ríkið á nokkuð í, en þegar búið er að græða á þessu í ein 20 ár, þá er búið að borga þetta smám saman niður til ríkisins með háum vöxtum, sem teknir hafa verið aftur af bændum í sæmilega háu áburðarverði, og þetta er orðið gott fyrirtæki, og blessun einstaklingsframtaksins í samstarfi við ríkið hefur fengið að sýna sig o.s.frv. Og þá er sem sé engin spurning um það, vafalaust, að áliti ríkisstj., að þetta á að vera einkafyrirtæki. En ef það sýndi sig nú eftir nokkur ár, að það verði tap á þessu fyrirtæki, þá er ég hræddur um, að allt í einu kæmi einhvers staðar hljóð úr horni, sem segði: Ja, eiginlega er þetta nú bara fyrirtæki ríkisins. Það stendur jú í 3. gr., að þetta er sjálfseignarstofnun, og það er ríkið, sem hefur stofnað þetta með lögum, og það er ríkið, sem ber alla ábyrgð á þessu. Og auðvitað á ríkið að taka á sig tapið. Þetta er jú gert fyrir landbúnaðinn og fyrir bændur. — Og þá gæti ég vel trúað, að jafnvei sömu hæstv. ráðh. Framsfl. sem tala núna hvað ákveðnast um, að þetta sé einkafyrirtæki og einkaeign þessa hlutafélags, mundu segja: Auðvitað er þetta ríkisfyrirtæki. Auðvitað á ríkið að bera tapið og ekki velta þessu yfir á bændur eða fara að ræna S.Í.S. með því að láta það tapa hlutafénu. Með öðrum orðum: Ef það verður beðið með að ákveða þetta, þá verður beðið þangað til séð er, hvort þetta er gróða- eða tapfyrirtæki. Sé það gróðafyrirtæki, þá á það auðvitað að vera eign einstakra hluthafa og hlutafélag. Sé það tapfyrirtæki, þá á það auðvitað að vera eign ríkisins. Þannig er ég hræddur um að þróunin verði, svo framarlega sem ekki er skorið úr þessu nú. Þess vegna álit ég, að það sé nauðsynlegt að skera alveg úr þessu nú, það sé nauðsynlegt með þau ólög, sem l. um áburðarverksmiðjuna eru orðin með breyt., sem á þeim voru gerðar og ég þarf ekki að rekja nánar, að fá skorið úr því nú, hvort heldur er, alveg ótvírætt, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að leggja fram þær brtt., sem hún álítur nauðsynlegar við lögin, þannig að hér sé ekki verið að skapa ólög með framkvæmdinni á l. um áburðarverksmiðjuna, þannig að hér verði bara einkafyrirtæki, sem ríkið veitir sín sérréttindi á ýmsan hátt, ætlar sér að græða á að nokkru leyti á annan hátt, en allt sé látið vera á huldu um þann raunverulega eiganda að þessu fyrirtæki. Og svo að síðustu: Ég vildi óska eftir því, að það yrði upplýst nú, með hvaða skilmálum áburðarverksmiðjunni hefur verið endurlánuð upphæðin, sem um getur í 1. gr. Og ég vil enn fremur taka það fram, — það er leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hérna, — að hann lét þá yfirlýsingu berast til okkar í fjhn., að áburðarverksmiðjan hefði ekki fengið neitt sem óafturkræft framlag úr mótvirðissjóði eða af Marshallaðstoð. Það hefði verið gott, að hann hefði endurtekið þá yfirlýsingu hér við þessa umr., vegna þess að einu sinni áður skildist mér, að slíkt framlag hefði verið veitt. En ég vil hins vegar ekki bera neinar brigður á hans ummæli.