03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (3384)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun vera tilgangur þeirra hv. þm., sem flytja þetta frv., að rétta með því hlut sparifjáreigenda og hvetja fólk til aukinnar sparifjársöfnunar. Hvort tveggja er þetta virðingarvert. Undanfarið hefur verið illa búið að þeim, sem hafa átt fé í peningastofnunum, því að þær eignir hafa tapað miklu af gildi sínu, og gott væri, ef takast mætti að auka sparifjársöfnun, því að lánsfé vantar til margra hluta.

En þrátt fyrir það, að ég viðurkenni viðleitni þeirra hv. þm., sem flytja frv., þá sé ég mér ekki fært að mæla með því, að það verði samþykkt, því að miklir annmarkar eru á frv., eins og það er lagt fyrir, og ekki tel ég, að þeir gallar verði lagfærðir, þó að þær brtt., sem fram hafa verið bornar af tveim hv. fjhn.mönnum, verði samþ.

Í 1. gr. frv. segir, að sparifé skuli undanþegið eignarskatti og hvers konar öðrum sköttum og gjöldum til hins opinbera, þ. á m. eignarútsvari til sveitarfélaga. Mér er ekki ljóst, hvað flm. eiga við með orðunum: „hvers konar öðrum sköttum og gjöldum“, og ég hef ekki orðið þess var, að skýringar hafi verið gefnar á því, við hvaða skatta og gjöld hér er átt.

Samkv. 2. gr. frv. á skattfrelsið aðeins að ná til innistæðna, sem bundnar eru í eitt ár. Fram er komin brtt. um að færa þetta tímabil niður í 6 mánuði. Ekki sýnist sú breyting til bóta. Þá gætu menn notið skattfrelsis fyrir fé, sem þeir hefðu hálft árið laust í ýmiss konar viðskipti eða lánastarfsemi utan við banka eða sparisjóði, ef þeir aðeins hefðu það í sparisjóðsreikningi um áramótin með 6 mánaða uppsagnarfresti.

Þetta tel ég þó minna atriði heldur en ákvæði 3. gr. Þar segir, að skattfrjálst sparifé skuli ekki vera framtalsskylt og ekki heldur vaxtatekjur af því; enn fremur, að skattayfirvöld skuli ekki eiga rétt á upplýsingum um innistæðureikninga með skattfrjálsu sparifé.

Ég vil leyfa mér að benda hv. þdm. á umsögn skattstjórans í Reykjavík um þetta atriði, sem birt er með nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 672. Þar vekur skattstjórinn athygli á því, að þetta ákvæði, ef að lögum verður, muni torvelda mjög eftirlit með framtölum manna og gera skattyfirvöldunum mjög erfitt og jafnvel ómögulegt að sannreyna gildi framtala. Nefnir skattstjórinn í bréfi sínu dæmi, sem sýnir þetta.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, skipaði hæstv. ríkisstj. 5 manna n. á s. l. ári til að endurskoða lög um skatta og útsvör. N. hefur enn ekki getað lokið störfum, en þess er að vænta, að álit hennar og till. geti legið fyrir, áður en næsta reglulegt Alþ. kemur saman til funda. Í skattamálanefndinni hefur m. a. verið rætt um þetta mál, skattfrelsi sparifjár, og mun það verða tekið þar til nánari athugunar ásamt öðru, sem n. hefur til meðferðar. En málið er, eins og mörg önnur atriði skattamála, ærið vandasamt.

Til þess að hvetja fólk til aukins sparnaðar og rétta hlut sparifjáreigenda getur verið um fleiri leiðir að velja en þá, sem hér er lagt til að farin verði, en hvaða leið sem valin verður, þá er nauðsynlegt að gæta þess vel við lagasetningu um þetta efni, að ekki verði opnuð ný leið fyrir menn, sem ekki eiga einseyring hvað þá meira — á sparisjóðsreikningi, til þess að komast undan lögákveðnum gjöldum til hins opinbera. En það tel ég einmitt stærsta gallann á frv., að menn, sem hafa laust fé í alls konar viðskiptum utan við banka og sparisjóði og hafa tilhneigingu til að komast undan lögákveðnum gjöldum, gætu haft stórum meiri hagnað af samþykkt frv. heldur en sparifjáreigendurnir, sem eiga fé sitt í bönkum og sparisjóðum.

Enn vil ég vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að verði lögákveðið skattfrelsi fyrir sparifé í bönkum og sjóðum, þá getur komið til álita, hvort skattfrelsið eigi ekki líka að ná til eigna í ríkisskuldabréfum eða vissum tegundum verðbréfa með ríkisábyrgð. Ég minnist þess t. d., að fyrir allmörgum árum var hafinn mikill áróður, m. a. af hálfu opinberra aðila, fyrir því, að menn keyptu skuldabréf stofnlánadeildar sjávarútvegsins til þess að styðja þann atvinnuveg. Síðar voru menn svo hvattir mjög til þess að kaupa skuldabréf Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar. Fleiri dæmi má sennilega finna þessu lík um það, að fólk hefur verið hvatt til þess að verja sparifé sínu til kaupa á vissum tegundum verðbréfa í því skyni að greiða fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Margir munu hafa tekið þessar óskir til greina að einhverju leyti. En hvers eiga þeir menn þá að gjalda, ef skattfrelsi sparifjár verður í lög tekið, en þeir verða hafðir útundan? Það skal ég þó viðurkenna, að vandasamt getur verið að ákveða, hvaða verðbréfaeignir ættu að vera undanþegnar sköttum og hverjar ekki.

Málið er þannig allvandasamt og hefur alls ekki hlotið þann undirbúning, sem nauðsynlegur er til slíkrar lagasetningar. Er það hvort tveggja, að augljósir annmarkar eru á þeim till., sem fram eru bornar í frv., og ýmislegt fleira þarf að athuga í sambandi við málið heldur en þar er nefnt.

Eins og ég hef áður frá skýrt, er þetta mál einn þátturinn í þeim athugunum á skatta- og útsvarslöggjöfinni, sem stjórnskipaða skattamálanefndin hefur nú til meðferðar. Ég tel það því eðlilegustu meðferðina á frv., að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. til athugunar.

Ég hef ekki enn gefið út skriflegt nál., en fer þó ekki fram á, að málinu verði frestað þess vegna. En það er till. mín til hv. d., að frv. verði vísað til ríkisstj.