03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (3385)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því, hvernig á því stæði, að ég og hv. 1. þm. Rang. flyttum það hér inn í þingið. Því var vísað til hv. fjhn. 12. des. s. l. Verð ég að segja það, að mér hefur þótt hv. n. þurfa nokkuð langan tíma til þess að afgreiða málið, og kemur það nú í raun og veru í ljós hjá hv. form. n., af hvaða orsökum það er; hann er málinu sem sé andvígur. En ég vil nú þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir það að mæla með þessu frv. og vil gjarnan óska, að það fái afgreiðslu nú, áður en þingi slítur, enda þótt einhverjar breytingar séu á því gerðar.

Mér þykir mjög ánægjulegt að sjá þær umsagnir um þetta mál, sem fram hafa komið frá bönkunum, og vil aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem koma fram í umsögnum þeirra.

Það segir hér í umsögn Landsbankans, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki vitum vér til, að verðtrygging sparifjár hafi nokkurs staðar verið lögfest.“ — Það er nú ein till., sem liggur fyrir. — „En málið hefur verið víða rætt síðustu árin og fengið einna ýtarlegasta athugun í Finnlandi, án þess þó að nokkuð hafi orðið úr framkvæmdum.

Finnar lögleiddu skattfrelsi sparifjár 1943 til 4 ára. Síðan hafa þessi lög tvisvar verið framlengd og gilda nú til ársloka 1955. Við síðustu framlengingu laganna var framtalsskyldu sparifjár aflétt að fullu. Það er eftirtektarvert, að árið 1950 hækkaði innlánsfé í Finnlandi um 17.000 millj. finnskra marka, en árið 1951, eftir að framtalsskyldunni var aflétt, hækkaði innlánsféð um 59.500 millj. marka.“

Þetta gefur nokkra bendingu um, hvaða áhrif það hefur haft í því eina landi, sem þetta fyrirkomulag hefur verið reynt, og gefur jafnframt til kynna, að það muni ekki vera fjarri lagi, sem við flm. höldum fram í grg., að þetta mundi verða sterkt ráð til þess að auka sparnað í landinu og hvetja fólkið til þess að leggja sína aura, sem það annars mundi eyða, í banka og sparisjóði.

Nú skal ég hér, með leyfi hæstv. forseta, víkja að nokkrum atriðum, sem hér koma fram í umsögn bankastjóra Búnaðarbankans, sem eðlilega hefur nána þekkingu eins og aðrir bankastjórar á þessum málum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjöldi manna, einkum úr sveitum, kvartar sáran undan framtalsskyldunni á sparifé, ekki sér í lagi af því, að það sé skattskylt, heldur miklu fremur af því, að jafnskjótt og það er komið á skattskrá, er ekki stundlegur friður fyrir lánbeiðnum, en um það er, eins og gefur að skilja, flestum lítið gefið. M. a. af þessu liggur fólk oft með peninga, svo að um munar, heima hjá sér, í stað þess að geyma þá og ávaxta í bönkum eða sparisjóðum landsins.“

Og enn fremur segir bankastjórinn: „Sumir virðast standa í þeirri trú, að það séu fyrst og fremst ríkisbubbarnir, sem eigi spariféð. En hér er um fullkominn misskilning að ræða. Þeir, sem mestan kunnugleika hafa á þessum málum, vita, að stórefnamenn eiga sjaldan fé í bönkum eða sparisjóðum. Spariféð er svo að segja allt í smærri upphæðum. Það eru ekki hinir ríku, sem eiga það að jafnaði. Það er fjöldinn, sem á það. Það er hinn almenni borgari til sveita og sjávar, það er alþýðan, en ekki neinir fáir auðjöfrar. Það eru mjög oft börn og gamalmenni. Það er langoftast nægjusamasti hlutinn af fólkinu, iðjusamasti og sparneytnasti. Það er þetta fólk, sem endalaust er rúið og aftur rúið, þvert ofan í fyrirheit um hið gagnstæða og ítrekaðar áskoranir um meiri sparnað.“

Ég verð að segja, að þetta eru mjög athyglisverð orð, sem ég vil algerlega undirstrika að séu sönn. Þess vegna tel ég, að það sé mjög mikil nauðsyn á því, að þetta frv. verði afgr. nú áður en þingi lýkur, og vænti ég, að það komi nokkuð mikið í ljós, hvort það hefur fylgi, þegar atkvgr. fer fram um þá till., sem hv. þm. V-Húnv. ber hér fram um að vísa málinu til ríkisstj., því að hana geta auðvitað ekki aðrir samþ. heldur en þeir, sem eru á móti málinn. Og það er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki það á valdi sínu á þessu nýbyrjaða ári að gera neinar framkvæmdir í þessu máli nema með brbl., og það mundi hún sennilega ekki gera, sem ekki er eðlilegt, að nýafstöðnu þingi.

Sú viðbára, sem hér er flutt af hv. minni hl. fjhn., að þetta beri ekki að samþ., vegna þess að það sé verið að athuga skattamálin í heild, hefur heyrzt hér hvað ofan í annað og æ ofan í æ á þessu þingi, og er ekki — frá mínu sjónarmiði — réttmætt að taka hana það gilda, að það megi ekki gera nokkra breytingu, hversu réttmæt sem hún er, enda þótt það sé starfandi n. í þessum málum, sem hefur dregið sitt starf meira en hóf er á.

Varðandi brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf. vil ég nú segja það um tvær fyrri brtt., að þær eru að vissu leyti til bóta, vegna þess að það gerir styttri frestinn, heldur en annars er. En þrátt fyrir það geri ég það ekki að neinu kappsmáli, síður en svo, hvort þær verða samþ. eða ekki. Önnur brtt., um það að fella niður 4. gr., held ég að sé nú heldur til hins verra. Eftir þeim athugunum og upplýsingum, sem fram hafa farið um þetta mál, þá mundi það verða til hins lakara, ef hún er samþ. En ég geri það ekkert að kappsmáli, hvort sú till. verður samþ. eða ekki, því að aðalatriðið er, að þetta mál nái fram að ganga og þau ákvæði, sem eru aðalatriði þess og eru í 1., 2. og 3. gr.

Varðandi þá mótbáru, sem fram hefur komið frá skattstofunni, skal ég ekki fara mörgum orðum, því að hv. frsm. meiri hl. fjhn. svaraði því eins og vera bar. En hitt er vitaður hlutur, að ef það ætti að afnema 3. gr., eins og mér fannst vera aðalmótbáran hjá hv. þm. V-Húnv., þá er málið tiltölulega þýðingarlítið.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en ég legg áherzlu á það, eins og gert er hér í þeim umsögnum, sem ég hef vísað til, að þetta er mál, sem mundi hafa mjög mikla þýðingu í fjármálalífi landsins og miklu meiri þýðingu en það, þótt það lækkuðu nokkuð skattar frá því, sem annars er, aðallega eignarskattur, og svo það, sem vextir af sparifé nema.